03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Jeg er svo heppinn að eiga enga brtt. við þennan kafla fjárlaganna og þarf því eigi að biðja mjer atkvæðis. En jeg ætla að segja nokkur orð um Faxaflóaferðirnar.

Samvinnunefnd samgöngumála hefir skifst um það atriði. Það hafa komið fram 2 tilboð. Annað er frá h. f. Eggert Ólafsson, er býðst til að taka ferðirnar að sjer fyrir 20 þús. krónur, en hitt fjelagið. Eimskipafjelag Suðurlands, býðst til að taka þær að sjer fyrir 30 þús.

Mun rjett vera, að lægra tilboðið sje eingöngu komið fram til að keppa við Eimskipafjelag Suðurlands. En jeg held, að meiri hluti nefndarinnar sem vildi taka því boði, fari villur vegar. Þótt ferðirnar sjeu jafnmargar, er ólíku saman að jafna.

Eggert Ólafsson ætlar að halda ferðunum uppi með „Skildi“, en þó að um þann farkost sjeu skiftar skoðanir, held jeg að allir sjeu sammála um, að hann sje algerlega ófullnægjandi. H. f. Suðurland er stofnað með tilstyrk þeirra manna, sem þetta mál kemur mest við. Er það stofnað fyrir tillög frá kaupfjelögum og kaupmönnum, og einnig búandmönnum hjer í Borgarfirði og austan fjalls, alt til Vestmannaeyja. — Skip það sem þetta fjelag hefir aflað sjer er tiltölulega stórt og gott og ætlað að fara austur með Suðurlandi, alt til Vestmannaeyja og lengra ef vill. Kauptúnunum á þessu svæði — Stokkseyri og Eyrarbakka — er alls eigi fullnægt með þeim áætlunum, sem fyrir liggja. Báturinn ,,Skaftfellingur“ hefir eigi getað, og getur enn síður nú, fullnægt Árnessýslu, enda hefir hann Skaftafellsýslur og Rangárvallasýslu aðallega. Meiri hlutinn fjelst eigi á að veita Eimskipafjelagi Suðurlands styrkinn, sem þó er eina fjelagið, sem ætla má að geti fullnægt þörfinni. Meiri hlutinn vildi einnig að eins styrkja Faxaflóaferðirnar, þó að utan Faxaflóa sjeu hjeruð, sem hjer koma til mála og eru út undan. Ýmsum nefndarmönnum duldist samt ekki, að hjer er engin samjöfnuður, á milli þessara fjelaga eða skipa þeirra.

„Skjöldur“ getur alls ekki fullnægt þörfinni á þessu svæði, og var upprunalega tekinn út úr neyð, af því að ekkert annað skip var til taks, sem gæti tekið að sjer ferðirnar. Þetta fjelag sem er nýstofnað, hefir aflað sjer þessa skips til að fara ferðirnar allan veturinn og mestan hluta sumarsins, og skipið er vitanlega langt um betra en hitt. Auk þess ætlar það að hafa annað minna skip til ferðanna við og við. Jeg býst við að háttv. meiri hluti hafi eingöngu litið á hvor upphæðin var minni, og svo hallað sjer að þeirri. Það er að vísu góð regla að spara, en sparnaður getur líka orðið nokkuð dýr, ef hann er keyrður úr hófi fram. Mjer er kunnugt um, að háttv. fjárveitinganefnd hefir eigi haft í höndum gögn þessa máls. Til eru ítarleg brjef um þetta mál sem nefndin hefði átt að fá í hendur áður en hún ákvað að fallast á lægri fjárhæðina.

Jeg tel illa gengið frá þessu máli, ef sú lægri upphæðin er tekin eingöngu af því að hún er lægri á pappírnum. Finst mjer, að í þesu máli megi ekki eingöngu líta á tölurnar, heldur líka á hina verulegu hagsmuni og hvað að haldi kemur.

Lægra tilboðið er enn fremur eingöngu komið fram vegna þess að nýja fjelagið vildi ekki kaupa skipið sem eldra fjelagið hafði til ferðanna og vildi losna við, sem sje „Skjöld”. Og það hefir berlega komið fram að lægra tilboðið var eingöngu gert í því skyni að keppa við nýja fjelagið og þannig útiloka það frá styrknum enda bauðst h. f. Eggert Ólafsson upprunalega til að halda ferðunum uppi fyrir 30 þús. kr., og lækkaði tilboðið fyrst niður í 20 þús. kr., er nýja fjelagið hafði boðið sömu kjör.

Jeg skal ekki leggja neinn dóm á það, hvort h. f. Eggert Ólafsson sje fært um að halda uppi ferðunum, en skipið „Skjöldur“ er ljelegt og getur aldrei fulnægt kröfunum.

Það væri illa farið, ef þingið tæki þá stefnu, að samþ. till. meiri hluta nefndarinnar, því að mjer finst aðalatriðið hljóta að vera, hvernig ferðirnar eru. Bæði jeg og aðrir hafa bent á að í því efni getur enginn samanburður átt sjer stað milli þessara tveggja. Skip Eimskipafjelags Suðurlands er ágætisskip en það kvað alment vera kvartað undan hinu skipinu.

Til þessa fjelags hafa og þeir menn stofnað sem mest þurfa ferðanna með. Og yrði þeim mun óskiljanlegra hvernig fjelagið Eggert Ólafsson gæti haldið ferðunum uppi fyrir þenna styrk er áreiðanlegt má telja, að rjett allur varningur muni verða fluttur með skipi Eimskipafjelags Suðurlands.

Það er sem sje víst að ferðir „Skjaldar“ eru svo lakar, að ekkert viðlit er að þær verði til frambúðar. Það að veita „Skildi” upphæðina, yrði því að eins til þess að gera hinu betra fjelaginu óþarfan leik.