04.08.1919
Efri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

28. mál, hæstiréttur

Kristinn Daníelsson:

Eins og hv. þm. sjá, þá hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. við frv., og eru þær prentaðar á þgskj. 251. Brtt. þessar eru ekki efnisbreytingar, heldur eru þær komnar fram fyrir þá sök, að mjer fanst, að orðum þeim, er brtt. fjalla um, væri ofaukið og því færi betur á því að fella þau niður. Jeg gat ekki átt til við nefndina um þetta áður en jeg gerði tillögurnar, en síðan hefi jeg átt tal við hv. frsm. (Jóh. Jóh.), og mjer hefir skilist svo, sem hann hefði lítið við þær að athuga, eða væri jafnvel samþykkur þeim.

Fyrsta brtt. er um, að í 24. gr. falli burt orðin ,,sem mál er risið af“ Orð þessi virðast mjer algerlega óþörf, nema það sje ætlunin, að eigi megi vísa máli til hæstarjettar, nema málið sje risið út af að minsta kosti 25 kr., en þá færi betur á, að orðin stæðu síðar í setningunni.

Önnur brtt. er um, að orðin „þar sem ómerking á annars við“ í 34. gr. falli burt. Þessi orð virðast með öllu óþörf, þar sem greinin gerir ráð fyrir ómerkingu og hæstirjettur sker þá úr, hvort hún á við eða ekki.

Loks er síðasta brtt., um að orðin ,,ef ágreiningur verður“ í 3. málsgr. 45. gr. falli burt. Orð þessi eru gersamlega óþörf, þar sem það er tekið fram, að afl atkvæða ráði úrslitum, og þá vitanlega eins ef ágreiningur verður.

Eins og jeg tók áðan fram, þá eru till. þessar komnar fram til þess að bæta fremur mál á frv., en engin brtt. er mjer að nokkru leyti hið minsta kappsmál.