28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S.E.):

Það kom mjer alveg á óvart, að það skyldi koma fram hljóð úr horni um það, að ekki hefði komið fram greinargerð um fjárhaginn fyr en nú. Mjer skilst þó, að hver meðalskynsamur maður hefði átt að geta áttað sig á fjárhagnum eftir ræðu minni, er jeg lagði fjárlögin fram. Enda get jeg verið þakklátur háttv. framsm. (M. G.) fyrir það, að hann lítur í öllum verulegum atriðum eins og á málið og hæstv. stjórn. Það voru margar tölur sem hann nefndi, og því allerfitt að átta sig á því til hlítar í fljótu bragði. En mjer er óhætt að segja, að í öllum stærri dráttunum skýrði háttv. framsm. (M. G.) rjett frá málavöxtum.

Að því er gróða landsverslunarinnar snertir, þá hygg jeg, að að svo stöddu sje ekki rjett að byggja á þeim lið. Í þessu sambandi vil jeg taka fram, að jeg er þinginu þakklátur fyrir, að það hefir farið eftir bendingum mínum viðvíkjandi hallanum á landsversluninni í þá átt, að það hefir fallist á, að tapið á saltinu og kolunum yrði látið vinna sig upp á þessum vörum. En þetta er fastslegið með frv. um salttollinn að því er saltið snerti en sama hljóðið heyrist mjer alstaðar vera um kolin, hvort sem hallinn verður unninn upp með tolli eða með einkasölu.

Þá mintist háttv. framsm. (M G.) á gróðann af skipunum. Jeg tel, að ekki sje gerlegt að reikna 660 þúsund kr. sem ágóða ríkissjóðs á þeim lið, því ef nú ætti að fara að selja skipin, þá tel jeg vafasamt, að fyrir þau fengist hið bókfærða verð, sem er rúmar 3 milj. kr. Hins vegar hygg jeg að gera megi ráð fyrir að ef skipunum er haldið úti og þeim stýrt haganlega eins og hingað til, þá muni þetta vinnast upp og ekkert tap verða. Sú mun og vera skoðun eimskipafjelagsstjórnarinnar, eftir því sem jeg hefi heyrt.

Háttv. framsm. (M. G.) spáir því, að árið 1919 muni verða hallalaust í ræðu minni í byrjun þingsins gerði jeg ráð fyrir, að nokkur halli mundi verða á árinu. Jeg gat þess þá einnig, eins og háttv. framsm. (M. G.) vjek að, að tekjurnar mundu verða allmiklar, og er sú spá að rætast, þegar stórmiklar horfur eru á, að tunnutollurinn muni nema 600,000 kr., eða jafnvel meiru. Auk þess hefir nú ýmsum tekjuaukum, að ráði stjórnarinnar, verið hraðað í gegnum þingið, eins og t. d. hinum aukna síldartolli, sem allmikið ætti að muna um, o. fl. En þrátt fyrir þessa tekjuauka, og ýmsa aðra, þá ber jeg kvíðboga fyrir því, að árið verði ekki hallalaust; hræðist það, að gjöldin muni verða mjög langt fram yfir áætlun. Vísa því til sönnunar á árið 1918, þar sem gjöldin voru um 314 milj. fram yfir áætlun. En hjer er ekki hægt að segja neitt með vissu, hvorki af mjer eða háttv. framsm. (M. G.). en ekki kæmi mjer á óvart, þó hallinn á árinu yrði ein miljón.

En auðvitað óska jeg þess, að álit háttv. framsm. (M. G.), sem er þektur að því að áætla alt með mestu samviskusemi og nákvæmni, ljeti sem næst sanni, og að ekki verði halli á árinu.

Eins og jeg tók fram áðan, þá hefur þingið tekið til greina till. stjórnarinnar um, hvernig halli landsverslunarinnar skuli bættur.

Fyrir þetta er jeg þinginu þakklátur. Þá er það eftir, að þingið fari að tillögum stjórnarinnar með fjárlögin og gang, svo frá þeim, að halli verði ekki á árunum 1920 og 1921.

Einhvern veginn segir mjer hugur um það, að þarna muni vera örðugasti hjallinn og þingið muni ekki fylgja nógu fast fram þessum tillögum stjórnarinnar, sem eru þó allra hluta sjálfsagðastar, því ekki dugir að haga fjármálunum þannig, að hallinn sje greiddur með lánum. En jeg skal hjer ekki spá neinum hrakspám, að eins brýna það fyrir háttv. deild, hve mikil nauðsyn rekur til þess að fara gætilega á þessu sviði.