03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Þórðarson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að minnast á mörg atriði þessa máls. Jeg ætlaði aðallega að tala um þann lið sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gerði að umræðuefni, og hefi jeg þó ekki mörgu við það að bæta sem hann sagði. Þó vildi jeg drepa á fátt eitt, sem ekki kom fram í ræðu hans.

Það er vitanlegt að „Skjöldur“ var í fyrra tekinn til þessara ferða út úr neyð og fyrirfram vitanlegt að hann gat ekki fullnægt og fullnægir hvergi nærri flutningsþörfinni. Jafnframt voru líka í alt fyrra sumar notaðir tveir vjelbátar hvor hjer um bil 36 smálestir að stærð og fóru þeir milli Reykjavíkur og Borgarness annanhvern dag um lengri tíma framan af sumri og öðru hvoru fram á haust. Sömuleiðis gekk „Skaftfellingur” á milli alloft og ætíð með nægum flutningi auk ýmsra annara báta, sem öðru hvoru voru á ferðinni þessa sömu leið. Og það segir sig sjálft, hvort menn eru að fara allar þessar ferðir að þarflausu. Jeg bendi á þetta til að sýna fram á það hvað flutningaþörfin er miklu meiri en svo að „Skjöldur“ geti fullnægt henni. En auk þess er annað sem eigi þarf síður að athuga. Nú er jafnvel miklu meiri vandkvæðum bundið en áður fyrir fólk að fara á milli vegna þess, að „Skjöldur“ er svo lítið skip fyrir farþega að litlu munar á farrými á honum og vænum mótorbát. Og í hvert skifti sem minst er á þau fargögn, sem nú eru notuð og fólkið er neytt til að nota á ferðum um Faxaflóa, þá heyrir maður sárar kvartanir yfir því, hve úrræðaleysi þings og stjórnar í þessu efni sje átakanlegt kvartanir frá einhverjum, ekki síst háttvirtum Reykvíkingum og öðrum sem vanir eru sæmilegum lífsþægindum og helst vildu ekki þurfa að sæta fari með slíkum veltidöllum. Það virðist þess vegna full ástæða til þess að reyna að fara að sjá Flóanum fyrir skipi. sem nokkurn veginn sje siðuðum mönnum samboðið. Mjer er þessvegna alveg óskiljanlegt hvernig það hefir getað komist inn í skilning hv. meiri hluta samgöngumálanefndar að ætla sjer enn að fullnægja öllum þessum þörfum með sama ómyndarfarkostinum sem í fyrra. Og enn þá óskiljanlegra verður þetta þegar gætt er þeirra gagna, sem nefndin hefir haft fyrir sjer.

Ef þessi styrkur verður veittur h. f. Eggert Ólafsson má gera ráð fyrir því, að fyrir hann fáist að eins póstflutningur einn. Því auðvitað fær hitt skipið sem er stærra og betra mest af mann- og vöruflutningnum ekki síst þegar þess er gætt, að að því standa einmitt þeir menn, sem mest þurfa að fá flutt, alkunnir dugnaðarmenn beggja megin hinnar nú svo fjölförnu sjóferðalínu, sem nú hafa hafist handa til þess að bæta úr knýjandi þörf.

Jeg held því að vægast sagt megi kveða svo að orði, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að hv. fjárveitinganefnd hafi farið lauslega yfir málið, ef hún ætlar að halda til streitu þessum skilningi sínum.

Svo vildi jeg leyfa mjer að minnast örlítið á brtt. á þgskj. 461, II. 8. Jeg er hv. samgöngumálanefnd mjög þakklátur fyrir undirtektir hennar undir þá litlu fjárveitingu sem þar er um að ræða og jeg á hlut að, sem sje styrkinn til vjelbátaferðanna með ströndum fram í vestur frá Borgarfirði. Það stendur sem sje svo á, að mjög örðugt er að fara á stóru skipi um þessar slóðir. Þó eru þarna tvær löggiltar hafnir. En það borgar sig ekki að láta Flóabátinn koma þar við svo oft sem þarf, og hefir þess vegna fyrir löngu verið horfið frá því, og er miklu rjettara og tiltækilegra að styðja samgöngurnar þar með styrk til vjelbátaferða. En það er ekki rjett hjá háttv. frmsm. fjárveitinganefndar (M. P.), að hjer sje verið að fara inn á nýja braut fjárveitinga. þar sem það er vitanlegt, að slíkir smábátastyrkir hafa staðið í fjárlögunum í mörg ár.

Jeg vona svo, að hv. fjárveitinganefnd fari ekki að amast við þessu smávægi, þegar til atkv.greiðslunnar kemur, og vonandi fer ríkissjóðurinn ekki á hausinn fyrir það þó hann sýni okkur á Mýrunum þessa sanngirni. Annars býst jeg ekki við því að hafa áhrif á hv. deidarmenn í þessu máli, aftur eða fram og væntanlega ókyrrir það ekkert samvisku þeirra hvort sem þeir fella þetta eða samþykkja.

Mun jeg því ekki segja meira til meðmæla þessum lið og er líklega rjett að láta við svo búið standa.