03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Jónsson:

Það er út af vegamálunum, sem jeg stend upp, og þá sjerstaklega út af Flóaveginum. Jeg var á fundi sýslunefndar Árnessýslu, þegar hún ræddi málið á fundi sínum. Auðvitað lagði jeg þar ekkert til mála, en jeg veitti því athygli sem fram fór og haldið var fram í einu hljóði í sýslunefndinni. Hún hjelt því fram að það væri skylda landsstjórnarinnar að endurbyggja veg þennan. Á borðinu fyrir framan sig hafði oddviti kort yfir sýsluna, þar sem sýndir voru vegirnir, sem um hana liggja. Mjer datt í hug að æskilegt hefði verið, að þar hefði verið kort af Íslandi öllu í staðinn, og að komið hefði sjer vel, ef þeir hefðu verið markaðir með rauðu þeir landssjóðsvegir, sem búið er að leggja, en hinir með svörtu, sem enn eru ekki til neinsstaðar, nema í vegalögunum. Jeg vil bæta því við, að það hefði komið sjer vel líka fyrir þm. að hafa slíkt kort fyrir framan sig nú, þegar um vegina er að ræða. Vegalögin eru nú orðin 25 ára gömul, og þegar þess er gætt, að strax var byrjað að leggja suma þá vegi, sem fyrir var mælt um í lögunum, þá er engin furða, þótt fólki sje farið að lengja eftir þeim vegum, sem enn eru einungis á pappírnum. Og eitt ætti nú a. m. k. að vera orðið mönnum ljóst að það sem lagt var til veganna ár eftir ár oftast þetta 150.000 krónur á ári, var ekki of mikið til þess að koma upp þeim vegum sem í vegalögunum stóðu, á skaplegum tíma, þótt ekki væri tekið af því sífelt meira og meira til viðhalds á vegunum og jafnvel endurbyggingar. Og nú vil jeg þá leyfa mjer að benda á hvað eftir er að byggja af þessum landssjóðsvegum.1)

Yfir höfuð er mjög mikið eftir af þeim vegum, sem sjálfsagt er að gera akfæra.

Samkvæmt þessu sjá menn, að það er að eins til að tefja fyrir því, að menn fái sína langþráðu vegarspotta, ef sífelt á að kippa af vegafjárveitingunni því, sem þarf til viðhalds og endurbyggingar hinum fengnu vegum, því þá fá sum hjeruð aldrei sína vegi. Mjer datt í hug að gefa þetta yfirlit í sambandi við Flóaáveituveginn. Jeg er ekkert á móti því, að landssjóður leggi fje til þessa vegar á móti hjeraðinu, ekki af því, að honum beri lagaskylda til þess, heldur af hinu, að upphafleg bygging vegarins hefði eigi reynst svo vel, sem flutningamagn á þessum vegi heimtar. Skil jeg ekki annað en að hjeruðin megi vera fegin að fá þessa hjálp úr landssjóðnum, með hinni fyrirhuguðu endurbyggingu á þessum vegi. Ætti upp úr því að vera mjög viðráðanlegt fyrir sýsluna að sjá um viðhaldið á honum.

Loks vil jeg benda á það, að skattaálögurjettur sýslnanna er svo takmarkaður að ekki hefir verið hægt að útvega nægilegar tekjur til að standast þann byggingar- og viðhaldskostnað vega, sem til hefir þurft. Mjer finst liggja miklu nær að reyna að kippa þessu í lag en að kippa viðhaldinu alveg af sýslunum.

*) Síðan var gerð grein fyrir þeim vegaköflum, samkvæmt vegalögunum sem eftir er að byggja, og þeir flestir taldir upp. P. J.