07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

14. mál, stofnun Landsbanka

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það hafa komið fram óvenjulega margar brtt. við 3. umr. Þær lúta flestar að launakjörum, og get jeg orðið stuttorður um þær. Stjórninni þótti líklegt, að þingið mundi ganga að þeim ákvæðum í frv., sem um launin fjallaði, og bjóst ekki við, að umboðslaunin yrðu hækkuð. Það er nú komin fram brtt. í þá átt, og vil jeg ekki leggja á móti henni; það er til þess ætlast, að í embættin veljist að eins hæfir menn, og er þá ekki nema sjálfsagt að launa þá vel.

Aðallega stóð jeg upp vegna brtt. á þgskj. 279, en þar hefir háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) að mestu tekið af mjer ómakið. Það er óhugsandi að samþ. þessa brtt. eins og hún liggur nú fyrir; hún þarfnast endurskoðunar. En til þess að hún geti farið fram þarf að taka málið út af dagskrá. Að þessari till. standa margir menn hjer í þessari háttv. deild, og má því ætla að hún hafi þó nokkurt fylgi. Það eru líka svo mætir menn, sem að till. standa, að þess vegna er engin ástæða til að ætla annað en að tilgangur hennar sje góður, og að hún geti orðið til bóta, þegar hún er komin í viðunandi form. En eins og hún er nú, þá verð jeg að telja hana varhugaverða, svo jeg noti nafnið, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) viðhafði.

Það er gagnstætt minni stefnu, að þingið vasist eins mikið í hjeraðastjórn eins og þessi till. fer fram á. Ef ekki má ráðstafa sjóðum þar sem full trygging er, heldur er þar einni stofnun veitt forrjettindi, þá tel jeg það of langt gengið, og það þó að þessi stofnun sje Landsbankinn. Í hreppnum þar sem jeg hefi lengst af dvalið eru sjóðir ýmsir almennir ávalt ávaxtaðir í sparisjóðum, og jeg býst við, að menn kunni því illa, ef út af er brugðið. Það eru talin mikil hlunnindi hvar sem er að hafa sparisjóði, og það eykur traust þeirra að fá sem mest fje til umráða. Hjer er þess vegna um óeðlilegt valdboð að ræða, sem gæti haft ill áhrif á fjársöfnun í landinu. Þar sem talað er um, að út af þessu megi bregða, ef staðhættir banna, þá er það út í bláinn sagt. Vitanlega leyfa staðhættir það altaf. Það má senda póstávísanir, sína peningana o. s. frv. Þessi brtt. þarf gagngerðrar endurskoðunar við, ef nokkuð á úr henni að vinnast. Aðrir hafa bent á Söfnunarsjóðinn, og auk þess tjóns, sem till. ynni honum, ef hún yrði að lögum, skaðaði hún hagsmuni hjeraðanna.