07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

14. mál, stofnun Landsbanka

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. þm. Barð. (H. K.) vildi gefa það í skyn, að sínar brtt. væru í samræmi við bankastjórnina. Það getur ekki verið, því að jeg veit, að till. meiri hlutans eru í samræmi við hana, og get jeg í því efni skírskotað til hv. meðnefndarmanna okkar. Jeg veit ekki betur en að bankastjórnin sje samþ. því að skipaður sje aðstoðarfjehirðir með fjehirði og að ekki sje í lögum tekið fram, hvernig verkaskifting eigi að vera að öðru leyti. Hún verður ákveðin með reglugerð og henni hagað eftir því, sem hentast þykir, og eftir því, sem reynslan sýnir hagkvæmast. Þá talaði háttv. þm. (H. K.) um það, að aðstoðarfjehirðir yrði undirmaður hins og væri það óheppilegt. Þetta er ekki rjett. Það verður skift með þeim verkum og ekki verður hægt að segja, að annar sje yfirmaður hins. Þeir hafa hvor sitt starfssvið. Og það sjest best, að aðstoðarfjehirðir er ekki undirgefinn fjehirði þar sem báðir setja tryggingu. Háttv. þm. (H. K.) hreyfði ekki í nefndinni mótmælum gegn aðaltill. um 8. gr., en nú við 3. umr. vill hann fá breytingu á því ákvæði. Háttv. þm. (H. K.) mintist á Eimskipafjelagið í sambandi við þetta. Það hefir sem sje stofnað eftirlaunasjóð fyrir starfsmenn sína. En þessi samanburður er alveg rangur og villandi. Hjá Eimskipafjelaginu er það eftirlaunahugmyndin, sem ræður, en það væri óneitanlega skrítið, ef þingið færi nú að stofna til eftirlauna fyrir starfsmenn bankans, um leið og það afnemur eftirlaun annara starfsmanna hins opinbera. Hv. þm. (H. K.) vill auka þennan sjóð að miklum mun frá því, sem meiri hluti leggur til.

Jeg held fast við það, að það sje meiningarlaust að ætla Landsbankanum svo hundruðum þúsunda skiftir til styrktarfjár starfsmönnum sínum, en leggja 50 þús. kr. fram til styrktarsjóðs handa öllum öðrum starfsmönnum ríkisins, og er næsta undarlegt, að sama stjórnin skuli leggja fyrir sama þing jafnsundurleitar tillögur og jeg verð að telja þessa bankatillögufjarstæðu.

Háttv. þm. Barð (H. K.) vill að laun bankastjóra sjeu föst, og það hefi jeg í raun og veru ekkert að athuga við, en benda vil jeg háttv. þm. (H. K.) á það, að hann er í mótsögn við sjálfan sig í þessu, þar sem hann flytur, ásamt öðrum, brtt. um að hækka ágóðahluta bankastjóranna. Hins vegar er meiri hlutinn í samræmi við þessa skoðun, því að hann gerir ekki ráð fyrir ágóðahluta af hærri upphæð en álíta má að bankinn hljóti að græða á hverju ári. Annars er mjer þetta ekkert sjerlegt kappsmál.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að jeg hefði talið launin eftir hans tillögu óhæfilega há, en það er ekki rjett. Jeg benti að eins á, að þau væru há í samanburði við laun annara. Það er ekki rjett að miða við það sem bankastjórum annarsstaðar er borgað, því þá yrði einnig að miða laun annara embættismanna við laun samskonar manna í öðrum löndum. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti og hafa fult samræmi í launalöggjöf okkar.

Þá er jeg kominn að brtt. á þgskj. 279, og það er að bera í bakkafullan lækinn að fara mörgum orðum um hana. Jeg ætla þá að athuga einstök atriði. Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) vildi halda því fram, að jeg hefði sagt, að sparisjóðir fullnægðu peningaþörfinni. Þetta hefi jeg ekki sagt, en hinu hjelt jeg fram, að þeir væru á leiðinni, væru í þann veginn að fullnægja henni.

Ef þessi tillaga verður samþ. þá hlýtur að koma afturkippur í það. Það er nægilega búið að sýna fram á, að hún hlýtur að skaða sparisjóðina mjög mikið og suma eyðileggur hún ef til vill að fullu og öllu. Landsbankinn hefir átt kost á að fá ýms af þeim rjettindum, sem tillagan fer fram á, en hefir ekki viljað, og jeg efast um, að hann vilji það heldur nú. Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að ef ekki yrði öðru við komið, þá mætti geyma fjeð í sparisjóðunum. En það hefir verið bent á, að staðhættir leyfa altaf, að fjeð sje sett á vöxtu í Landsbankanum eða útbúum hans. Ef hv. þm. (J. B.) vildi, að þetta ákvæði næði að eins til Reykjavíkur, þá gæti jeg verið með, en eins og tillagan er orðuð, þá virðist mjer óhugsandi að ganga að henni. Þetta spark hv. þm. (J. B.) í sparisjóði landsins mun mælast illa fyrir, því að þessir sjóðir eru augasteinar hjeraðanna og vinna ómetanlegt gagn. Auk þess greiða þeir margir hærri vöxtu en Landsbankinn, og því yrði um tap að ræða á því opinberu fje, sem þar er ávaxtað, eða Landsbankinn yrði að færa upp alla vexti, sem ekki gæti borgað sig.

Ef till. þessari verður breytt í þá átt að hún nái ekki til sparisjóða, og því bætt við till., að eigi sje skylt að ávaxta opinbert fje í Landsbankanum nema hann bjóði sömu kjör og annarsstaðar er hægt að fá, mun jeg fylgja henni, en annars ekki.

Að endingu skal jeg geta þess, að jeg hefi umboð frá 1. þm. Árn. (S. S.) til að lýsa því yfir, að hann taki sína brtt. aftur ef hinar till. verða teknar aftur.