07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

14. mál, stofnun Landsbanka

Jörundur Brynjólfsson:

Menn hafa mælt mikið á móti þessari till. okkar. Og það skyldi gleðja mig, ef það væri ekki af öðrum ástæðum en að hún sje ekki nógu ljóst orðuð að einhverju leytu. Því þó nokkuð kunni að skorta á í því þá hygg jeg, að vel hefði mátt framkvæma hana þannig, að ekki hefði komið að meini. En vegna þeirra athugasemda, sem fram eru komnar, vildi jeg leyfa mjer að biðja hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá. Þá gætum við flutnm. breytt till. eins og talað hefir verið um. Jeg vona, að háttv. frsm. (M. G.) og háttv. 2 þm. Árn. (E. A.) skilji það, að meining okkar var ekki sú, að eyðileggja sparisjóðina á nokkurn hátt, heldur að stuðla að því, að Landsbankinn fái ávaxtað fje frá því opinbera að svo miklu leyti, sem unt er og að gagni kemur. Jeg sje ekki ástæðu til, að segja fleira nú. Jeg ætla að bíða þar til jeg veit, hvort hæstv. forseti verður við óskum mínum.