09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

14. mál, stofnun Landsbanka

Jörundur Brynjólfsson:

Það lítur út fyrir, að það ætli að reynast örðugt að orða brtt. vora þannig, að háttv. frsm (M. G.) þyki ekki með henni vera gengið á rjett sparisjóðanna.

Hann segir að samkvæmt sparisjóðslögunum hafi sparisjóðir heimild til að ávaxta fje ómyndugra og opinberra sjóða. Jeg hefi áður tekið það fram, að tilætlun okkar flutningsmanna var alls ekki sú, að svifta sparisjóðina þeim hlunnindum, sem þeir hafa af ávöxtun slíks fjár, nema að því leyti, sem þeir kunna að fara á mis við ávöxtun ríkisfjár. En jeg hygg, að þeir hafi haft að undanförnu mjög lítið af þesskonar fje á vöxtum, og býst við, að þó þessi tillaga okkar verði samþ., þá missi sparisjóðirnir ekkert í við það ekki einu sinni í þessu efni. En jafnvel þó svo væri, sem hv. frsm. (M. G.) segir, að sparisjóðirnir mistu eitthvað ofurlítið í við þetta, þá lít jeg nokkuð öðrum augum á sparisjóðina og starfsemi þeirra en mjer virðist hann gera. Þjóðbanki vor er alþjóðareign, honum ber að starfa í þágu alþjóðar og honum ber þá og jafnframt að njóta þeirrar aðbúðar frá löggjafans hendi, sem honum má verða til eflingar og hagsældar. Sparisjóðirnir eru fremur eign fárra manna eða einstakra hjeraða. Mjer sýnist því eðlilegast, að Landsbankinn njóti aðalhlunnindanna af því, að ávaxta fje hins opinbera. Það heyrir beint honum til. Sje það aðalatriðið hjá hv. frsm. (M. G.) að leggjast á móti till. vorri af því, að hún miði að því að svifta sparisjóðina hlunnindum, þá missýnist honum mjög í því efni.

Hingað til hefir ríkið ávaxtað mikið af handbæru fje sínu annarsstaðar en í sparisjóðum eða Landsbankanum. Það hefir verið ávaxtað í privatbanka (Íslandsbanka), í stað þess sem það hefði ómótmælanlega átt að vera ávaxtað í þjóðbankanum. Jeg tala hjer ekki um smáupphæðir — og við þær á brtt. ekki heldur —, sem sýslunarmenn ríkisins hafa undir höndum um stundar sakir, heldur allmiklar eða miklar fjárupphæðir. Það er að sjálfsögðu heimilt, þrátt fyrir brtt., að leggja smáupphæðir inn í sparisjóði, þegar t. d. svo stendur á, að það er hentast. Það er alls eigi tilætlunin, og gat heldur ekki verið, að senda til þjóðbankans á vöxtu hverja smáupphæð, hvaðan af landinu sem er, sem fljótt þarf að grípa til aftur, enda benda orðin í till.: ,,nema sjerstakar ástæður banni‘‘ til þess. Jeg held, að það sje því ástæðulaus ótti hjá háttv. frsm. (M. G.), að brtt. muni verða skilin á þann veg, sem hann virðist skilja hana.

Jeg er sannfærður um, að í hvert sinn, sem sparisjóður sækir um heimild til að mega ávaxta ómyndugra fje og opinbera sjóði t. d. brunabótasjóði sveitarfjelaga, þá muni stjórnarráðið veita hana. Jeg skil því ekki, hvernig hv. frsm. (M. G.) hugsar sjer að brtt. ætti að geta dregið úr vexti og viðgangi sparisjóðanna eða gengið á rjett þeirra. Ef það sýndi sig, sem jeg get ekki gert ráð fyrir að verði, að stjórnarráðið færi að synja sparisjóðum um heimild þessa, þá mundi lögunum þegar í stað verða breytt.

Það er varúðarákvæði hjá oss að taka það beint fram, að stjórnin megi veita sparisjóðunum heimild þá, sem hjer ræðir um, og jeg treysti því, að hún muni gera það hlutdrægnislaust.

Jeg skil ekki í, að Landsbankinn noti forrjettindi sín, sem honum eiga að veitast með brtt. vorri, til að gefa lægri vexti en aðrar peningastofnanir. Mjer finst tæpast, að maður megi gera ráð fyrir slíku. (M. G.: Hann gefur lægri vexti nú en sumir sparisjóðir).

Jeg geri ráð fyrir, að sparisjóðirnir fái eftir sem áður að halda öllum sínum rjettindum óskertum. Það er ekki meining okkar flm. að efla Landsbankann á kostnað þeirra. En þm. ber að efla Landsbankann eftir því sem unt er. Verði skoðun hv. frsm. (M. G.) ofan á nú hjer í hv. deild, mun Landsbankinn oft og einatt bera skarðan hlut frá borði, við það, sem vera ætti og vera bæri.

Jeg tel því ekki, að sparisjóðirnir ættu nokkurn hlut undir högg að sækja, þótt brtt. okkar yrði samþykt. Það er leiðinlegt, að svona ummæli skuli koma fram, að við flutningsmenn brtt. viljum bekkjast til við sparisjóðina, ekki betur rökstutt en það er hjá hv. frsm. (M. G.). En jeg er líka sannfærður um, að ef sú yrði reyndin á, þá hjeldist stjórninni ekki uppi með það, og þá yrði þetta numið úr lögum.

Viðvíkjandi einu atriði hjá hv. 2. þm. Árn. (E. A.), hvort ákvæðið um tryggingargeymslufje eigi einungis við opinbert fje, eða samninga, sem hið opinbera gerir, eða eigi einnig að ná til viðskifta einstakra manna, skal jeg geta þess, að það er meining mín, að það nái einnig til þess fjár, sem lagt er til tryggingar samningum manna á milli, t. d. viðskiftasamningum. Jeg sje enga ástæðu, er mæli móti því.

En ef einhver býst við því að þurfa að gera stórkostlegan viðskiftasamning, og kann ekki eins vel við sig í Landsbankanum og annarsstaðar, þá er sá einn kostur fyrir hann, að ganga í lið með þeim, er vilja drepa till.