03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Einar Jónsson:

Það lítur út fyrir, að menn hafi gaman af að vaka fram á nótt hvað eftir annað við mal og málæði. Það er haft að máltæki, að betra sje, að 10 sekir sleppi. en að 1 saklaus sje sakfeldur. Jeg beini þessum ásökunum þess vegna ekki að neinum sjerstökum, því einhver kann að vera saklaus, þótt lítill munur hafi verið á málæði manna. Jeg er ekki vanur að tala lengi eða oft; jeg hefi yfirleitt viljað hlífa mönnum við löngum ræðum. En nú sje jeg ekki ástæðu til þess; háttv. deild á það ekki skilið, og ætla jeg þess vegna að verða langorður. Jeg veit vel, að langar ræður hafa lítil áhrif á atkvæði manna, nema að þær sljófga menn og draga úr dómgreind þeirra. Það er líklega af þeirri ástæðu, að oftast er skynsemisminst atkvgr. um þau mál, sem lengst eru þvæld. Hjer hafa verið haldnar hálftíma til klukkutíma ræður, og veit jeg ekki, hvort tilgangurinn er sá, er jeg nú hefi lýst. Jeg á þó ekki við háttv. frsm. (M. P.), því hann hefir reynt eftir megni að halda sjer innan skynsamlegra takmarka, en jeg get ekki gefið öllum háttv. ræðumönnum sama vitnisburð. (E. A.: Hverjir eru þeir þá?). Jeg er að hugsa um að taka upp sið háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), að svara ekki þessum háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem gerir sjer leik að því, að grípa fram í fyrir mönnum og reyna að trufla þá. Jeg treysti mjer að vísu til að varðveita ró mína og láta ekki standa á svari, en það verður ekki sagt um alla, og því held jeg, að best væri að taka alment upp þennan sið, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) byrjaði, á.

Jeg veit ekki, hvort vökurnar, umræðurnar eða eðlisgallar valda því, að farið er að grauta ýmsu saman nú í seinni tíð. Fjárlagafrv. og launafrv. hafa verið hrærð saman, og er orðinn úr sá grautur sem þinginu er lítill sómi að bjóða kjósendum. Sumir hafa nú tvöföld laun, bæði eftir fjárlögum og launalögum, og get jeg ekki aðhylst það fyrirkomulag. En í þeirri von, að þetta verði lagað við 3. umr., ætla jeg að láta það liggja á milli hluta nú, en snúa mjer heldur að þeim brtt., sem jeg á.

Jeg er svo heppinn, að brtt. mínar eru fáar, en þó hefi jeg ekki komist hjá að gera brtt. við 12. gr. Jeg ætla að minnast lítillega á þetta, ekki síst þegar háttv. frsm. (M. P.) hefir sýnt því þann sóma, að geta þess, þó minni sómi væri að, hvernig hann gerði það. Ummæli hans hljóta að vera sprottin af misskilningi og ókunnugleika á manninum, sem hjer um ræðir. Jeg sje mjer því ekki annað fært en að reyna að reifa málið. Eins og kunnugt er, koma óskir um það úr öllum áttum að fjölga læknum. Þeim er flestum hafnað með því, að læknar verði ekki fáanlegir í nýju hjeruðin. Hjer er ekki um slíkt að ræða. Læknirinn stendur til boða; hann hefir læknisleyfi og kunnáttu á við marga aðra, þó eigi hafi hann tekið próf. Manninum hefði ekki verið veitt leyfið nema að hann væri til þess hæfur. Hann hefir einnig alment orð á sjer fyrir kunnáttu og lægni, og sýna það vottorð þau frá Árnes- og Rangárvallasýslu, sem hafa legið frammi á lestrarsal og menn hefðu getað kynt sjer, ef þeir hefðu nent. Hjeraðslæknir Rangæinga, sem er einhver besti læknir landsins, hefir gefið honum vottorð, og getur læknirinn talað af reynslu, því hann hefir oft þurft á hjálp hans og aðstoð að halda. Það er sama hvert farið er, alstaðar er Ólafi Ísleifssyni gefið sama vottorðið um kunnáttu, lægni og hjálpfýsi, og vilja menn ekki missa hann sem lækni. Ef hann fær ekki þann styrk, sem hann sækir um, verður hann að láta af lækningum og ætti Alþingi að athuga þetta vel. Margir mundu sakna Ólafs, því margir eiga honum heilsu og líf að þakka. Sjerstakt orð fær hann fyrir að hjálpa konum í barnsnauð og hefir tekist vel. (G. Sv.: Það geta fleiri). Einhverjir geta það fleiri, en jeg er viss um, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) getur það ekki. Jeg hefi að minsta kosti aldrei heyrt getið um það, að hann hafi hjálpað konum í barnsnauð.

Till., sem jeg á á þgskj. 616, fer fram á smáar upphæðir, og má vel á það minnast, að eftir 12. gr. sitja sumir í sömu launum og áður, þótt nú sje búið að hækka laun annara. (M. P.: Þetta verður alt lagað síðar). Jeg er ekki spámaður og veit ekki, hvað fram kann að koma eða gert verður. Það er alt dulið, sem fram undan er, og læt jeg útrætt um þetta atriði.

Jeg á bágt með að trúa því, að háttv. deild verði svo skammsýn, að auka hjeraðslækni erfiði og lífi og heilsu manna hættu með því að neita um þennan styrk. Nú verður stofnað nýtt læknishjerað í Árnessýslu, og verður þá þeim lækni hafnað sem í boði er. Það er undir hælinn lagt hvort læknir fæst eða ekki, og er það spá mín að hann fáist ekki.

Jeg ætla að minnast á aðra brtt., á þgskj. 601, og að því loknu skal jeg gefa deildinni ró og tefja ekki lengur. Árnessýslu er nú gert að skyldu að leggja fram 2/3 af viðhaldi vega. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) talaði um, að vegirnir kæmu ekki að fullum notum fyr en járnbraut væri komin austur. Jeg er alveg á sama máli og hann um járnbrautina, en jeg get ekki fallist á, að fresta eigi vegagerð og vegaviðhaldi þangað til hún kemur, því dráttur getur orðið á því. Jeg býst við því, að ekkert yrði gert á þessu þingi í því máli, þótt áskoranir bærust á skrautrituðu skjali. Vegunum verður að halda við og líta á það, hvar þörfin er mest. Nú er verið að leggja veg, sem jeg tel gagnslítinn og illa fyrir komið. Það er vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Í hann eru nú komnar 530 þús. og von á meiru. (Margir þingmenn: 130 þús.) Það getur verið, að það sjeu að eins 130 þús., en það kemur út á eitt. Þegar stórum upphæðum er eytt til einskis, þá munar minstu, hvort það er 130 þús. eða 530 þús. Þá hafa farið 15 þús. í að lappa upp á gamla veginn, en mig getur mismint, ef til vill eru það að eins 5 þús. Það á ekki að ákveða, að leggja skuli vegi fyrir svo og svo mikið án þess að athuga, hvar þeir eru lagðir og hvar þörfin er mest. Sama er að segja um brýrnar. Þær hafa verið teknar upp á skrá, og eru þar þarfar og sjálfsagðar brýr innan um óþarfar. Það veit enginn, hvað langt verður þangað til þær brýr verða bygðar, og getur orðið dráttur á því, sem svo mörgu öðru. Það er óheppileg stefna, að strika þetta alt út af fjárlögunum og taka það þannig undan eftirliti þingsins. Jeg efast um, að forsvaranlegt sje að greiða þannig atkv. Við svíkjum kjósendur okkar með því og smeygjum sjálfum okkur undan ábyrgð.

Jeg ætla ekki að tala lengra, því þótt mátulegt væri á háttv. deild, að jeg hjeldi henni vakandi lengur, þá vil jeg nú lofa þeim að fara að sofa úr þessu.