11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

14. mál, stofnun Landsbanka

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefði í raun og veru getað sparað mjer að standa upp, því að hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir sagt hjer um bil það sama, sem jeg hefði viljað segja. Jeg skal ekki fara langt út í þetta mál. Það heyrir undir atvinnumálaráðherra, en hann er ekki viðstaddur. En jeg býst við, að þar sem frv. þetta er borið fram af stjórninni, muni menn geta sjer til, að jeg fylgi stjórnarfrv. og þá hv. meiri hluta fjárhagsnefndar, sem heldur sjer að miklu leyti við stjórnarfrv.

En jeg skal geta þess um þá till., er fer fram á, að bankastjórarnir skuli hafa eftirlaun úr sjerstökum sjóði, að mjer finst það í raun og veru eðlilegast, að gert sje ráð fyrir ákveðnum, lögmæltum eftirlaunum handa bankastjórunum, ef gert er ráð fyrir að bankastjóraembættið sje lífstíðarembætti. En jeg býst við, að það sje rjett hjá meiri hlutanum, að það mundi sjóðurinn ekki þola, eins og meiri hlutinn vill stofna til hans. Jeg hygg það alveg rjettmætan samanburð, sem fram kom hjá meiri hlutanum, við eftirlaun embættismanna undir almennum launalögum. Þess vegna sýnist mjer ekki fært að samþ. þá brtt. minni hlutans, að bankastjórarnir skuli fá eftirlaun úr þessum sjerstaka sjóði. En ef stofnaður yrði almennur eftirlaunasjóður fyrir starfsmenn landsins, þá er ekki nema rjett, að þeir leggi í hann og taki úr honum eftirlaun sín, eftir sömu reglum og starfsmenn landsins. Mjer virðist alveg rjett að skoða bankastjórana sem embættismenn landsins. Það er annars hætt við, að eftirlaun þeirra yrðu nokkuð af handahófi og ekki í samræmi við almennar reglur.

Um brtt. á þgskj. 324 er jeg yfirleitt samdóma hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Jeg held, að hún sje ekki heppileg að neinu leyti, sjerstaklega þó ekki þetta ákvæði um tryggingarfjeð. Mjer skilst líka, eins og honum, að þetta sje alveg takmarkalaus fyrirskipun, að öll ,,deposita“ eigi að leggja inn í Landsbankann. Hver getur heimtað slíkt bundið við ákveðna peningastofnun? Jeg fæ ekki skilið það. Það væri annað mál, ef einungis væri að ræða um sjerstakar tryggingar fyrir embætti o. s. frv. Enda væri annað alveg óframkvæmanlegt. Hugsum oss, að einhver samningur útheimti 10 þús. kr. tryggingarfje (depositum). Hlutaðeigandi vill ekki fara í Landsbankann. Hvað gerir hann þá? Hann leggur peningana inn í einhvern sparisjóð og setur svo sparisjóðsbókina til tryggingar. Þannig má á allan hátt fara í kring um þetta ákvæði.

Aftur á móti get jeg ekki lagt eins mikið í. þetta „að sjerstakar ástæður banni“. (E. A.: Það var í spurnarformi). Maður getur ekki beinlínis sagt, að „sjerstakar ástæður“ banni, þótt einhver önnur peningastofnun bjóði betri kjör. Mjer finst till. að þessu leyti ekkert athugaverð. En ef bundið er við að setja fjeð í Landsbankann, þá finst mjer sjálfsagt, að eitthvað sje ákveðið um kjörin. En þá sýnast mjer engin önnur ráð en að láta það á vald stjórnarráðsins að ákveða kjörin, því það sýnist varla hægt að setja bankanum það í sjálfsvald. Það þarf eitthvað að koma á móti að þessu leyti.

En það, sem mjer finst einkum athugavert, er að það er vitanlegt, að ef takmörkin eru höfð svona, eins og till. ætlast til, þá er það ekkert annað en að banna mönnum að leggja tryggingarfje inn í Íslandsbanka.

Nú hefir landsstjórnin oft orðið að leita til Íslandsbanka um lán, og þarf þess enn. Meðan svo stendur hygg jeg varhugavert, að þingið gangi inn á þessa braut. Að minsta kosti býst jeg við, að það þyki hart, að það fje, sem Íslandsbanki lánar, eigi að setjast á vöxtu í Landsbankann. Jeg held, að það væri nóg, að Alþingi skori á stjórnina að veita Landsbankanum forgangsrjett í þessu efni, án þess að binda þannig með lögum. Og jeg skil ekki annað en að hver landsstjórn myndi, eftir því sem hægt væri, nota Landsbankann, landsins eigin banka. Jeg efast ekki um, að svo myndi gera sú fjármálastjórn, sem nú er, og hver önnur sem koma kann. Það er altaf varhugavert að setja ríkari skorður en nauðsyn krefur.

Skal jeg svo ekki orðlengja frekar.