11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

14. mál, stofnun Landsbanka

Einar Arnórsson:

Það eru að eins fáeinar athugasemdir. Það er nú fyllilega fram komið, að brtt. á þgskj. 324 var lítt hugsuð í byrjun, en nú hefir verið reynt að skóbæta hana, og að mínu áliti er bót hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) best. Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) þykist nú hafa fundið gott „agitations“-vopn og beitir því óspart. Hann skírskotar til manna um það, hvort þeir heldur vilji styðja hag Landsbankans eða Íslandsbanka, og telur þá, er þessari brtt. fylgja, til þeirra er bera hag Landsbankans fyrir brjósti. Háttv. þm. (J. B.) skipar þeim, sem á móti eru, í þann flokk, sem heldur vilja efla Íslandsbanka. Á kjósendafundi gæti þetta ef til vill orðið brúklegt vopn, en hjer held jeg að það komi að litlu liði. Það vita allir, að það er annað og meira, sem um er deilt; jeg efast að minsta kosti ekki um, að hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) viti það. Hjer er um það að ræða, hvort hefta eigi viðskiftafrelsi manna eða ekki. Ákvæðið um geymslufje fer greinilega fram á heftingu þessa frelsis. Menn mega ekki lengur geyma fje sitt þar sem þeim sýnist, þeir verða að láta það þangað, sem lagaboð býður. Það er viðurkent, að þetta eigi líka að ná til einstakra manna. Hjer er að smeygjast inn einokunarangi, sem jeg vil ekki hlúa að, þó reynt sje að hræða mig til þess með slagorðum, og þótt mjer sje borið það á brýn, að jeg sje að berjast fyrir hagsmunum Íslandsbanka. Jeg tek mjer slíkt ekki nærri. Jeg hefi talað um það áður og vil benda háttv. flm. enn einu sinni á það, að það er hægt að ganga svo frá þessari till., að hún verði aðgengileg. Jeg hefði ekki á móti till., ef hún færi að eins fram á það, að þeir, sem hafa opinbert fje með höndum, láti Landsbankann sitja fyrir, ef því verður við komið. Jeg býst ekki við, að nokkur hefði á móti því. En til þess, að svo megi verða, þá verður að taka málið einu sinni enn út af dagskrá og orða till. upp.

Það var einkenni á ræðum þeirra háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að þeir fóru algerlega í kring um þetta, vildu sem minst um það tala. Jeg veit, að hvorugur þeirra er svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki, að hjer er um bönd að ræða. Það mætti eins vel banna mönnum að leggja inn sparisjóðfje sitt annarsstaðar en lög mæltu fyrir. Tryggingarfje er eiginlega oft ekkert annað en sparisjóðsfje, þegar það er athugað nánar Maður leggur upphæð á vöxtu, og munurinn er að eins sá, að þegar um tryggingarfje er að ræða, þá tekur sá við bókinni, sem trygginguna á að fá, en í hinu tilfellinu eigandinn sjálfur.

Háttv. þm. gátu ekki neitað því, að þetta væri ákvæði, sem hægt væri að fara í kring um. Þeir vildu rjettlæta það með útúrdúrum, eða því, sem stundum er kallað ,,hundalogik“. Hvaða rjettlæting er það, þó að mörg lög sjeu til, sem fara má kring um? Af því leiðir ekki, að löggjafinn eiga að gera sjer leik að því, að búa til lagaákvæði, sem fyrirsjáanlegt er að farið verði kring um. Hættan stafar oftast af því, að lögin eru ekki í samræmi við hugsunarhátt og rjettarmeðvitund þjóðarinnar. Jeg efast ekki um, að það er í fullu samræmi við rjettarmeðvitundina, að viðskiftafrelsi manna skuli ekki hefta meir en þörf er á. Ef menn vilja fá eitthvað það fram, sem heftir það meira, eins og t. d. þetta ákvæði, þá er fyrst að breyta rjettarmeðvitundinni, því á meðan hún er á móti munu lögin verða gagnslaus.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði, að hjer væri ekkert nýmæli á ferðinni. Það er rjett að því leyti, að yfirskoðunarmenn hafa látið það uppi, að æskilegast væri, að opinbert fje væri geymt í Landsbankanum. Um það atriði get jeg einnig verið þeim og hv. þm. sammála. En hitt er algert nýmæli, að vilja á þennan hátt hefta viðskiftafrelsi manna. Jeg veit ekki til, að það hafi komið fram áður.

Jeg hefi fátt að athuga við ræðu háttv. þm. Barð. (H. K.). Jeg vil í engu breyta þeim vitnisburði, sem jeg gaf honum um höfðingsskap og örlyndi. Jeg veit ekki betur en hann sje samur og jafn, og jeg vona, að háttv. þm. (H. K.) fái tækifæri til að sýna hann í annari mynd hjer á þingi. Jeg get ekki verið háttv. þm. (H. K.) sammála um það, að launakjör embættismanna yfirleitt standi í engu sambandi við þetta mál. Ef það er mikilsvert að hafa góða menn í þessar stöður, þá er það eins mikilsvert að fá þá í aðrar. Ef þessir góðu menn, sem um er verið að tala, fást í bankastöður með háum launum, þá fást þeir eins í aðrar á sama hátt.

Að endingu vil jeg lýsa því yfir, að jeg býst fastlega við því, að háttv. þm. verði sjálfum sjer samkvæmur og sýni sömu höfðinglundina, sömu sanngirnina og sömu ,,logikina“ þegar hann fer að verja hækkun á launum embættismanna.