25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

14. mál, stofnun Landsbanka

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það eru að eins örfá orð, til að gera grein fyrir mínu atkv. Tillaga þessi mun sprottin af því, að Alþingi hefir þótt of margir opinberir sjóðir standa inni í Íslandsbanka. Síðan jeg kom í stjórn man jeg ekki til, að neinir nýir sjóðir hafi verið settir á vöxtu í Íslandsbanka. Hins vegar hefir ekki verið skift sjer af því, hvar sýslumenn geymdu það opinbert fje, sem þeir hafa undir höndum, og sama er að segja um landsfjehirði og landsverslun. Hvað ríkissjóði viðvíkur, hefir það verið venja, að þegar tekið er t. d. 1 miljón kr. lán, en ekki þarf að greiða nema t. d. 800 þús., að láta mismun lánsupphæðar og útborgunarupphæðar standa á conto í þeim banka, sem lánin eru tekin hjá. En landið hefir orðið að taka meiri lán hjá Íslandsbanka, af þeirri einföldu ástæðu, að þau hafa ekki fengist í Landsbankanum. Enginn skilji orð mín svo, að jeg sje að ámæla stjórn Landsbankans fyrir að vilja ekki veita landinn lán. Landsbankastjórnin hefir komið mjög vel fram gagnvart stjórninni, og ástæðan sú ein, að bankinn hefir ekki haft nóg fje.

Ljóst er nú, að bankapólitík framtíðarinnar á að ganga í þá átt, að auka svo bolmagn Landsbankans, að hann geti einn lánað ríkinu alt það fje, er það þarfnast.

Að því er snertir stefnu frv. í þá átt, að hafa mest opinbert fje í ríkisbankanum, fæ jeg ekki betur sjeð en að sú stefna sje rjett og sjálfsögð.

En þessi stefna kemur líka fram í brtt., og get jeg ekki annað sjeð en að verði hún samþykt, verði slíkt fje, praktiskt sjeð, alt í Landsbankanum, en hins vegar kann jeg illa við það, að lögskipað sje, að opinberir sjóðir þurfi að vera annarsstaðar en þar, sem þeir eiga betri kjara að njóta.