25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

14. mál, stofnun Landsbanka

Eggert Pálsson:

Jeg bjóst ekki við, að brtt. okkar hv. þm. Snæf. (H. St.) þyrfti meðmæla. Hún er svo sjálfsögð. Það er vitanlega sjálfsagður hlutur að hafa fyrir augum hag opinberra sjóða og stofnana. Samkvæmt brtt. eru umráðamenn opinberra sjóða skyldugir að geyma sjóðina í Landsbankanum, ef enginn óhagur er að því. Þetta eru góð forrjettindi fyrir Landsbankann, en aftur ekki heilbrigt að fara lengra.

Hv. þm. Ak. (M. K.) kvað vera nógan varnagla í frvgr., þar sem menn væru undanþegnir skyldunni til að geyma opinbert fje í Landsbankanum, þegar ,staðhættir“ hömluðu, með öðrum orðum, þegar ekkert útibú frá Landsbankanum er á staðnum, heldur að eins frá Íslandsbanka. En þetta er ekki nóg. Það getur líka hugnast, að Landsbankinn bjóði lægri vexti en Íslandsbanki. Einnig er það hugsanlegt — og meira en hugsanlegt —, að ríkissjóður taki lán hjá Íslandsbanka, en þurfi ekki að nota lánið alt strax. Þá væri það kostnaðarauki að taka lánið alt og leggja eftirstöðvarnar í annan óviðkomandi banka.

Við það verða vextir lægri. Ríkissjóði væri margfalt hentugra að láta eftirstöðvarnar standa, þar til grípa þyrfti til þeirra. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) tók fram nauðsynina á að gera Landsbankann sem allra sterkastan. En hann yrði ekki nógu sterkur að heldur, þó hann fengi alt opinbert fje til umráða. Það liggur því í augum uppi, að enn sem komið er þarf landsstjórnin að nota sjer báða bankana jöfnum höndum. Því væri rjettast að gera ekki upp á milli þeirra að svo stöddu.

Svo er önnur hlið á þessu máli, sem taka verður til íhugunar. Gæti Landsbankinn ekki beðið tjón af slíku einkaleyfi, eins og eða ekki síður en hagnað? Ef allir umráðamenn opinbers fjár eru skyldugir til að geyma fjeð í Landsbankanum, þá er bankinn auðvitað skyldugur til að taka við öllu opinberu fje. Það er því engan veginn trygt, að Landsbankanum væri eigi með þessu gerður bjarnargreiði. Bankanum gæti orðið örðugt að ávaxta miklar fjárhæðir, og hafa þó altaf á reiðum höndum það, sem af honum yrði krafið. Eftir öllum ástæðum tel jeg heppilegast, að brtt. verði samþykt. Og með því, að gera báðum bönkunum í þessu efni nokkurn veginn jafnt undir höfði, tel jeg líklegt, að þá gangi greiðara að stjórna fjármálum landsins heldur en með því, að vera með þarflausar og þýðingarlausar títuprjónastungur í garð Íslandsbanka, úr því landið hvorki má án hans vera, nje getur við hann losnað, enn sem komið er.