03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. samvinnunefndar samgöngumála (Björn R. Stefánsson):

Jeg gat þess til, þegar jeg talaði síðast um Faxaflóabátinn, að jeg mundi ekki komast hjá því, að taka aftur til máls. Jeg hafði þó hugsað mjer að sleppa orðinu. en háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafa neytt mig til að standa hjer upp aftur. Jeg segi þetta af því, að jeg álít, að enginn geti staðið upp án þess að afsaka sig, svo mjög sem áliðið er. En um leið og jeg skýri frá þessu lofa jeg að vera stuttorður.

Það gleður mig að háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) er kominn í sæti sitt, því jeg vildi beina máli mínu að honum. Annars reyni jeg að taka mótbárurnar sem mest sameiginlega til þess að spara tíma, en ekki snúa máli mínu sjerstaklega að hverjum andmælanda, sem haldið hefir svipuðu fram. Báðir háttv. þm. (B. K. og G. Sv.) hafa lagt áherslu á það að ef boði Eimskipafjelags Suðurlands væri tekið, þá væri betur fullnægt flutningsþörfinni. Og þessir hv. þm. vilja líta á meira en þörfina, þeir gera líka kröfu til þæginda. Jeg hefi tekið það fram, að jeg viðurkendi, að þörf og þægindum yrði ekki fullnægt að öllu leyti, hvorki hjer nje annarsstaðar. Það eru hvergi á landinu eins tíðar og góðar samgöngur og frekast væri hægt að æskja eftir. Það er ekki hægt að líta á annað en brýnustu þörfina og hvað geta landsins nær langt. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði eitthvað á þá leið, að hann vissi ekki, hvað átt væri við, þegar talað væri um þarfir, sem ríkið ætti ekki að reyna að fullnægja. En það verður að líta á það hverju ríkið getur fullnægt, og sníða sjer stakk eftir vexti. Jeg lít svo á, að helst eigi að sjá fyrir póstflutningi og fólki og flutningi þess. Nú þegar lag fer að komast á, ætti það að nægja. Jeg veit, að á ófriðarárunum hefir ríkið orðið að taka mikinn vöruflutning á sínar herðar, en það er að eins vegna óeðlilegs ástands, og þegar rætist úr, þá ætti ríkið að losna við að verja stórfje til vöruflutninga fyrir kaupmenn og kaupfjelög, og þetta hjerað getur ekki, fremur en önnur, heimtað að svo sje gert.

Jeg fæ ekki sjeð, að Faxaflói hafi orðið út undan; hann hefir meira að segja verið tiltölulega vel settur. Frá 1. sept. 1918 til 1. sept. 1919 hafa verið farnar yfir 80 landssjóðsstyrktar ferðir milli Reykjavíkur og Borgarness. Þó að þeir menn, sem þessar ferðir nota, telji þetta ekki fullnægjandi, þá er ekki að miða við það. Hjer er þó um margfalt greiðari samgöngur að ræða en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. Eins og kunnugt er, hafa aðrir landshlutar orðið að sætta sig við mest 10 landssjóðsstyrktar ferðir frá og til Reykjavíkur. Borgarnes hefir fengið rúmar 50 ferðir, eins og jeg gat um áðan, en þó eru þeir óánægðir og þykjast vera hafðir út undan. Vöruflutninga tel jeg ríkinu ekki skylt að styrkja, fremur hjer en annarsstaðar, enda í mörg horn að líta ef út á þann ís ætti að leggja.

Þá hefir verið talað um það, að tilboðið vari komið fram vegna óeðlilegrar samkepni. Jeg get ekki lastað samkepnina, eða talið hana óeðlilega, enda nýtur landssjóður hennar nú. Ef hún hefði ekki verið, þá hefðu kostirnir orðið óbilgjarnari og verri í alla staði, og þarf ekki annað en minna á árið 1917 í því sambandi. Þá var ekki nema eitt fjelag, sem halda vildi þessum ferðum uppi. Gerði það mjög miklar kröfur, því að auk þess, sem fjelagið heimaði háan styrk til að halda ferðunum uppi, heimtaði það líka kol á niðursettu verði. Þess vegna tók jeg því með fögnuði, er jeg varð þess var á þessu þingi, að við mundum ekki þurfa að neyðast til að sætta okkur við afarkosti eins einasta fjelags. heldur mundu fleiri koma með tilboð. Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) talaði um, að jafnlágur styrkur og hjer væri um að ræða mundi ekki nægja, og að ferðirnar gætu ekki borið sig með honum, væri því ekki nema um tvent að gera. Annaðhvort mundi fjelagið hætta ferðunum eða færa sig upp á skaftið og heimta hærri styrk. Þessu þarf eiginlega ekki að svara, því að hv. þm. (B. K.) sagði sjálfur að á bak við fjelagið stæðu efnaðir kaupmenn, ættu þeir hvorki að þurfa að hætta ferðunum, þótt þeir biðu halla, nje þingið að bæta þeim hann upp eftir á, þar sem hjer er um ákveðna samninga að ræða. Þá mundi og h. f. Eggert Ólafsson ekki síður vísað á bug, nema fremur yrði, ef það færi eftir á að koma með uppbótarbeiðni. (B. K.: Þetta er alt misskilningur á orðum mínum. Það hefir töluvert verið talað um að Eimskipafjelag Suðurlands væri þjóðnytjafyrirtæki, sem skylt væri að styrkja. Þingið mundi því fremur kynoka sjer við að veita slíku fjelagi styrk, um fram samninga og beina skyldu ef það biði halla af ferðunum, en hinu fjelaginu sem er alveg prívatmanns eða manna eign: því mundum við fremur vísa frá okkur með köldu blóði og styrkbeiðslum þess; og það því fremur sem það ber sig nú svo borginmannlega, að það telur sig örugt um að geta staðið straum af ferðunum, sjálfsagt hvernig sem fari: það sje þannig fjárhagslega statt. Jeg er sammála hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) um að hæpið sje, að Eimskipafjelag Suðurlands geti að skaðlausu haldið ferðunum uppi, ekki síst með jafnstóru skipi, sem „Suðurland“ er. Þetta er trúlegt, og eins hitt að því mundi fjárhagslega betur borgið með að binda sig ekki við fastar ferðir fyrir ekki hærri styrk en hjer er tilætlað.

Nefndinni var ekki kunnugt um brjef það, sem hv. 1. þm. G.-K. (B K.) las upp áðan, en það hefir nú ekki haft áhrif á mig, því þótt fjelagið geti þess, að ætlum þess sje að hafa stærra skip í förum þessum þá er ekki full trygging fyrir, að svo verði; það getur altaf hætt við þá fyrirætlun eða breytt henni. Þegar háttv. þm. (B. K.) var að bera saman skipin, gat hann þess að á „Skildi” væri ekki skýli fyrir farþega á þilfari. En hann nefndi það ekki, að þar er skýli undir þiljum fyrir 50 farþega. Á sunnudaginn var tók jeg mjer ferð á hendur vestur í „Slipp“. þar sem „Skjöldur” stóð uppi til aðgerðar til þess að geta dæmt um það af eigin sjón, hvernig skipið kæmi fyrir sjónir og stend jeg við það eftir þá skoðun, að þar geti 50 manns legið og setið undir þiljum, þótt það hafi verið rengt. Og þótt segja megi að vistin sje þar ekki sem best fyrir svo marga þá er hún vel viðunandi jafnstuttan veg sem hjer er að ræða um og betri en á mótorbátum þeim sem ganga fyrir Norðurlandi og Austurlandi og fólk þarf að vera með dögum saman. Það var talað um að skiftar væru skoðanir um. hvað góður farkostur „Skjöldur” væri. Það er eðlilegt, því að lýsingarnar á honum hafa verið svo mismunandi. Eins og jeg sagði áðan. skoðaði jeg skipið nú nýlega. Það er að vísu lítið, en prýðilega haldið, bæði utanborðs og innan og eru það góð meðmæli með því. Það hefir verið sagt, að skipið væri gamall skrokkur. Slíkt er gagnstætt því, sem stendur í skoðunargerð skipsins 1918. Hana framkvæmdi þrír ábyggilegir menn með gott skynbragð á slíkum hlutum og var einn þeirra Jessen, forstöðumaður vjelstjóraskólans. Segir í skoðunargerðinni að alt sje í góðu standi á skipinu.

Þess var áðan getið að tilboðið frá hlutafjelaginu Eggert Ólafssyni væri komið fram af því að Eimskipafjelag Suðurlands hefði ekki viljað kaupa „Skjöld”. Þetta skiftir mig engu; jeg vil semja við það fjelagið, sem jeg tel gera álitlegra tilboð, hvernig sem á því tilboði stendur. Eftir öllu sem farið hefir á milli nefndarinnar og hins samningsaðilja, hallast jeg hiklaust að því, að hagkvæmast muni vera að taka tilboðinu um „Skjöld“.

Það má gera ráð fyrir að ,,Skjöldur“ sem er minna skip en hitt, geti staðið sig við að fara fleiri aukaferðir en það, og mun það hentugra, bæði fyrir nágrannahjeruðin og ferðamenn lengra að. Hjer er um svo stuttan veg að ræða, milli Reykjavíkur og Borgarness, að ekki er verulegur munur á, þótt skipið sje minna; það verður hvort sem er varla lagt af stað nema í allgóðu veðri og útliti, og naumast að veður breytist mjög á meðan á ferðinni stendur. Auk þess er það haft eftir kunnugum mönnum að „Skjöldur“ fari vel í sjó og sje ganggóður.

Jeg hefi reynt að tala alveg hlutdrægnislaust um bæði tilboðin. En háttv. minni hluti hefir talað mjög einhliða móti öðru þeirra.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) var að vorkenna meiri hlutanum að hafa komist að þeirri niðurstöðu, sem nál. sýni. Jeg frábið mjer þá vorkunnsemi hans; því að tillögur nefndarinnar um þetta eru í fullu samræmi við tillögur hennar um samgöngur annarsstaðar: hún hefir hvarvetna lagt til að reynt væri að uppfylla hinar brýnustu þarfir hjeraðanna og þær skyldur, sem á ríkinu hvíla um þessar ferðir; lengra hefir hún ekki sjeð sjer fært að fara, og við sem erum í meiri hlutanum, teljum enga ástæðu til að bjóða út fje umfram það sem þarf. Okkur finst fjárhagurinn ekki svo glæsilegur að okkur farist það.

Jeg hefði haft ástæðu til að minnast á fleira í þessum kafla fjárlaganna, en sleppi því þó, með því að svo er orðið áliðið nætur. sem nú er.