25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

14. mál, stofnun Landsbanka

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þegar jeg sá brtt. fyrst, virtist mjer hún eðlileg og ekki líkleg til að vera hættuleg. En þegar jeg fór að íhuga málið betur, leit brtt. nokkuð öðruvísi út. Mönnum getur virst, að það geti komið fyrir, að Íslandsbanki byði betri innlánskjör en Landsbankinn. En svo er ekki. Landsbankinn getur aldrei þrifist með öðru móti en bjóða sömu kjör, og jeg hefi heimild Landsbankastjórnarinnar til að lýsa yfir því, að það gæti ekki komið til nokkurra mála, að Landsbankinn byði lægri vaxtakjör en Íslandsbanki. Ef menn samt gera ráð fyrir þeim möguleika, að Landsbankastjórnin byði ríkissjóði ósvífin kjör, mundi landsstjórnin líklega ekki hugsa sig lengi um að vísa bankastjórninni á dyr. (H. St.: En hver er þá hættan, þó að brtt. yrði samþykt?) Það má alveg eins snúa spurningunni við og spyrja: En hvað er þá unnið við það? Það er fjarstæða að halda, að Íslandsbanki yrði tregur til að lána landinu, ef frv. verður samþykkt óbreytt. Ríkið verður eftir sem áður einn stærsti og ábyggilegasti viðskiftavinur bankans. Íslandsbanki mundi þar að auki ekki vinna neitt, þó brtt. væri samþykt. eftir því sem sjeð verður, því raunin mundi verða sú sama.