03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að minnast nokkuð á Faxaflóaferðirnar, því að þær snerta kjördæmi mitt, og af því að jeg er kunnugur málavöxtum. Jeg verð að segja, að jeg er ánægður með meðferð hv. meiri hluta samgöngumálanefndar á málinu; og jeg veit ekki, hvers samgöngur um Faxaflóa eiga að gjalda hjá hv. nefnd. Annarsstaðar hefir styrkur til samgangna verið hækkaður, og gert ráð fyrir betri skipum en menn hafa undanfarin ár, út úr neyð, orðið að sætta sig við til að annast þær. En hjer er lagt til að taka lægra tilboðinu og þiggja skip, sem er allsendis ófullnægjandi og óboðlegt, þegar annars er kostur, til að annast Faxaflóaferðirnar. Síðastliðið ár voru lagðar 36,000 kr. til ferða þessara, sem vitanlega voru afarkostir, með tilliti til þess, sem á móti kom þó að bót væri það frá því, sem fyrir var, mótorbátunum; en nú vill meiri hluti hv. nefndar láta þetta hjakka í sama farinu með farkostinn og taka þessu lægra — og allsendis ófullnægjandi — 20,000 kr. tilboði. Ef annað betra hefði ekki staðið til boða, þá hefði ekkert verið um að ræða En nú er boðið fram ágætt skip, með góðum kostum, til ferða þessara. en því er ekki sint. Það er því undraverðara, að boði þessu skuli vera hafnað. þar sem það kemur frá mönnum, sem einkum eiga að njóta ferðanna, mönnum sem hafa sýnt lofsverðan áhuga á að leggja fram fje til að kaupa fyrir skip til að bæta úr samgönguþörfunum, sem þeir að undanförnu hafa tilfinnanlega orðið varir við að ekki hefir orðið gert með þeim skipakosti, sem fyrir hendi hefir verið. Þingið ætti miklu fremur að styrkja slíka viðleitni heldur en að draga úr henni með óheppilegum ráðstöfunum, og það kalla jeg að það gerði, ef það hafnaði tilboði þeirra manna, sem þetta hafa lagt í sölurnar, en gleypti við tilboði, sem vitanlega er sett til höfuðs nýja fjelaginu, af ástæðum, sem kunnugir munu renna grun í hverjar voru. Með því að taka lægra tilboðinu er fyrirbygt, að jafngott og tryggilegt tilboð fáist til frambúðar, því að eftir því, sem alt er í pottinn búið, má gera ráð fyrir því, að hlutafjelagið Eggert Ólafsson kasti frá sjer ferðunum, þegar samningstíminn er á enda. Þess ber að minnast, að 1917 voru settir harðir kostir með ferðirnar, af hendi eiganda gufubátsins „Ingólfs“, og 1918 varð stjórnin þó að sæta enn meiri afarkostum með ferðirnar, af hendi eiganda „Skjaldar“ og við hinu sama má búast eftir 2 ár, ef samið er við fjelag nú, sem gera má fyrirfram ráð fyrir að ekki vilji halda ferðunum áfram, með sömu kostum sem það býður nú, nema það tímabil, sem tiboðið er miðað við. En verði tekið til boði Eimskipafjelags Suðurlands, þá er tryggilega sjeð fyrir ferðum þessum til frambúðar. Jeg vona því að hv. deild hverfi ekki að því óhapparáði, að hafna tilboði Eimskipafjelags Suðurlands, en taka hinu.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K) mintist á þá fjarstæðu hv. 2. þm. S.-M. (B. St.), er hann hjelt því fram, að ríkinu bæri ekki að veita styrk til vöruflutninga með ströndum fram, og þarf jeg ekki að fara frekara út í það.

Það sýnir ókunnugleik hv. þm. (B. St.), að hann hyggur, að skip það sem Eimskipafjelag Suðurlands hefir keypt, geti ekki siglt til Borgarness, og er það óheppilegt, að jafnókunnugur maður öllum atvikuni hjer hefir orðið til þess að beita sjer eins á móti þessu fjelagi og hv. þm. (B. St.) gerir. Hann hefir sjálfsagt ekki gengið í þann heppilegasta skóla til að fá fræðslu um þessi mál, því það sætir undrum, hvað hv. þm. er einhliða og blindaður í þessu máli. Væri hann kunnugri en hann sjálfsagt er mundi hann t. d. ekki láta sjer detta í hug að leyfa sjer að bera brigður á það, að forstöðumenn Eimskipafjelags Suðurlands mundu standa við loforð sín um að uppfylla þá samninga, sem þeir gengju að. Jeg þekki þá svo vel að jeg frábið þeim allar slíkar getsakir og tel þær í mesta máta ósæmilegar. Væri hv. þm. (B. St.) jafnkunnugur flutningaþörf hjer og staðháttum sem jeg, hlyti hann að verða á sömu skoðun og jeg að „Skjöldur” sje of lítill bátur og ófullnægjandi til Faxaflóaferða; hann ber ekki meira en 20 tonn af vörum; og í hæsta lagi er þar rúm fyrir 30 farþega undir þiljum, og er þar með talið skýli það, sem er á þiljum uppi; hitt nær engri átt, að þar sje rúm fyrir 50 manns; það er ekki einu sinni hægt, þó að hverjum væri hlaðið ofan á annan. Á þiljum uppi er ekki nema eitt lítið skýli og farþegar því þar engu betur farnir en á mótorbátum, að öðru leyti en því, að báturinn er fremur fljótur í förum.

Jeg vil endurtaka það, að þótt það mætti telja sæmilega úrlausn á því öngþveiti, sem menn voru komnir í með þessar ferðir í fyrra, að taka „Skjöld“ til ferðanna, þá er það jafnsjálfsagt nú að hafna því boði og taka hinu, sem betra er.