03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Þórarinn Jónsson:

Það var að eins örlítil skýring, af því að mönnum virðist ekki ljóst um tilboðið frá Suðurlandsfjelaginu viðvíkjandi Faxaflóaferðunum.

Eins og kunnugt er, bauðst fjelagið til að reka gufuskipaferðir hjer um Faxaflóa og til Breiðafjarðar, Vestmannaeyja, Eyrarbakka og Stokkseyrar. Bauðst það til að hafa í stærri ferðirnar skip, sem bæri 200 smálestir, en til Borgarnesferða minna skip, annaðhvort mótorbát, eða ámóta stórt skip og Skjöldur er.

Eftir tilboði því, sem nefndin fjekk á fyrsta fundi sínum, vildi fjelag þetta taka að sjer ferðir þessar fyrir 75–80 þús. kr.

Það, sem þá lá fyrst fyrir nefndinni, var það, hvort mögulegt væri að taka undan Breiðafjarðarbátinn og ef til vill líka ferðir Skaftfellingabátsins til Eyrarbakka og Stokkseyrar. En það var ekki hægt.

Nefndin sá sjer því ekki fært að ganga að þessu tilboði og auka með því kostnaðinn um alt að 50 þús. kr.

Þá lá fyrir tilboð frá h.f. Eggert Ólafsson um Faxaflóaferðir, fyrir 30 þús. kr., og ferðir til Borgarness þar í, svipaðar og voru meðan Ingólfur gekk þangað.

Farkostir eru taldir alt eins góðir nú og þá var, en hitt má auðvitað deila um, hvort skip þetta fullnægi flutningaþörfinni.

En þegar Skjöldur byrjaði, var jafnframt haldið uppi mótorbátaferðum til vöruflutninga, og sýnir það, að hjer voru þó til farartæki, sem notast mátti við. Það var því síður ástæða til að ganga að tilboði Suðurlandsfjelgsins, enda hjelt það, að ekki gæti borið sig að láta stórt skip halda uppi Borgarnesferðunum einum. En það væri óðs manns æði að ætla sama skipinu að halda þeim ferðum uppi, þar sem það á að ganga á svo stóru svæði.

Það er því betra að hafa skip þetta laust frá þessum ferðum til annars, enda hefir fjelagið aldrei viljað taka þær ferðir að sjer fyrir þennan styrk, nema með því móti, að Alþingi metti, hve mikið skyldi greiða því í ofanálag fyrir það.

Nefndinni var því ekki sárt um það, þótt h.f. Eggert Ólafsson byði styrkinn niður, jafnvel svo, að tap yrði á.

Nefndin vissi líka, að hægt var að fullnægja flutningaþörfinni, þótt ekki væri stærra skip en verið hefir.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) vildi, að styrkurinn væri ákveðinn 50 þús. kr., svo að ugglaust væri, að fjelagið tapaði ekki, en þess er engin þörf, þar sem nefndin hefir ákveðið tilboð frá Eggert Ólafssyni, og verður aldrei hægt að krefjast uppbótar á því.

Þá er annað atriði, sem mjög hefir verið deilt um. Það eru ferðirnar hjer suður með sjó. En það hefir komið fram hjá öllum þeim, sem þær ferðir hafa rekið, að þar sje aldrei um neinn verulegan flutning að ræða.

Þess vegna voru þessar ferðir altaf mesti þyrnir í augum Ingólfsfjelagsins, og vildi það aldrei binda sig við þær.

Það væri því mesta fjarstæða að binda sig við það, að þetta stóra skip gengi bæði suður með sjó og til Borgarness. Nefndin gat því ekki forsvarað það að kasta lægra tilboðinu, og hefir því meiri hluti hennar viljað ganga að því. En ekki mun það verða gert að neinu kappsmáli.

Jeg vildi að eins skýra frá þessu, en skal ekki fjölyrða um það meira.

Það hefir komið fram, að ekki þurfi merkilegt skip til að jafnast á við Skjöld, en ef svo er, má nota mótorbát, eins og verið hefir, og geta þá Borgfirðingar haldið áfram að „konkurrera“ við Skjöld.

En sje svo ekki, er það þar með viðurkent, að Skjöldur sje betri, og allir telja hann þægilegri til fólksflutninga en Ingólfur var.

Hjer er því ekki um neina afturför að ræða hjá samgöngumálanefndinni.

Þá vildi jeg drepa á eitt atriði í ræðu hæstv. fjármálaráðherra (S. E.). Hann mintist á fjárveitingu til eins vegar, sem hann taldi óþarfa.

Jeg skil það, að hann talar fyrir stefnu stjórnarinnar, en það þótti mjer undarlegt, að hann skyldi ekki geta fallist á skoðun nefndarinnar í þessum málum. Og jeg verð að líta svo á, að sumar af ástæðum hans sjeu naumast frambærilegar, eins og t. d. það, að ef þessu hjeldi áfram, þá mundi landið með því spilla lánstrausti sínu.

Það væri alveg sama og ef peningamaður lánaði aftur og aftur fje öðrum manni, sem ekkert gerði við peningana, en þegar sá maður færi að nota þá til einhverra framkvæmda, þá hætti peningamaðurinn að þora að lána honum. Þetta eru alveg hliðstæðar fjarstæður Einmitt framkvæmdirnar eru fyrsta skilyrðið fyrir lánstraustinu. Og þótt arður sjáist ekki strax, þá miða þó allar framfarir að því, að efla gjaldþolið.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði, að Langadalsvegur hefði mátt bíða. Það stæði þó nær hæstv. fjármálaráðherra að vita betur um þennan veg en raun virðist á vera.

Þessi vegur hefir áður valdið miklum ágreiningi frá ábúendum þeim. sem búa meðfram veginum, og hefir hann legið fyrir stjórnarráðinu. Hlutaðeigendur kunna því illa, að áframhald verði á því, að farin sjeu tún og engjar þeirra. Og enn hefir það bæst við, að mikið af veginum má nú heita með öllu ófær, og hafa póstar afsagt að fara um hann. Hafa skriður fallið á hann og eyðilagt.

Það, sem hæstv. stjórn vildi til hans leggja, var sama og ekkert, þar sem þetta var þjóðvegur, og er nú svo kominn, að hann stöðvar póstflutninga.

Vildi jeg að eins benda hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) á þetta, þar sem hæstv. stjórn var það skylt að halda uppi vegi þessum.