03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg veit, að það er ekki vinsælt verk hjer á Alþingi að vinna að því, að minka tekjuhallann á fjárlögunum, enda hefi jeg orðið þess var.

Rangt er það hjá háttv. þm. (Þór. J.), að jeg hafi sagt, að með þessu væri verið að eyðileggja lánstraust landsins. En hitt má telja víst, að erfitt verði að fá lán til þess að greiða tekjuhallann. Hitt mundi ganga betur, að fá lánið, ef það væri til álitlegra fyrirtækja.

Að því er snertir veg þann, sem háttv. þm. (Þór. J.) talaði um, þá er hann í kjördæmi háttv. þm., og er það altaf dýrmæt ástæða. Það getur meira en verið, að vegur þessi sje torfær á vetrum, en ekki get jeg sjeð, að neitt sjerstaklega standi á um hann, frekar en aðra vegi, sem laga þarf.