16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

18. mál, fasteignamat

Eggert Pálsson:

Það er mín skoðun, að nefnd þessi sje ekki eins þörf og flestir hv. þm. virðast ætla.

Jeg hygg, að mælikvarði matsmanna í virðingu jarðanna hafi verið gangverð jarðanna eftir því sem matsmennirnir frekast vissu og eftir því sem þær hafa verið virtar á síðari tímum, er eigendur hafa þurft að fá peningalán, auðvitað með hliðsjón af umbótum þeim, sem jarðirnar hafa tekið og jarðamatinu 1861, enda mun það hafa verið tilætlun laganna, að mælikvarðinn væri þessi. Að sjálfsögðu hefir þetta mat verið nokkuð mismunandi. eftir því hvar jarðirnar liggja, enda lagar verðið sig ætíð eftir breyttum horfum og aðstöðum. Aðalmælikvarðinn hefir verið peningar, þ. e. hvað jarðirnar seljast fyrir eða mundu geta selst fyrir.

En nú er farið fram á það, að ný nefnd verði sett, með valdi til þess að skera úr því, hvers virði jarðirnar verði, nefnd, sem á engan hátt getur verið bærari eða hæfari til þess að framkvæma slíkt mat en nefndir þær, sem þegar hafa int af höndum þetta mat. Þetta liggur í augum uppi. Hvernig á t. d. maður úr Kjósarsýslu að vera bærari um að setja verð á jörð í Strandasýslu eða Skaftafellssýslu en maður úr þeim sýslum? Hann getur að vísu haft fyrir sjer lýsinguna og miðað við jörð sem hann þekkir annarsstaðar, en matið getur samt sem áður orðið fjarri því sem rjett er. Sín jörðin í hvorri sýslu getur verið aljöfn hinni að öllum gæðum og hlunnindum, en að eins mismunandi lega þeirra veldur því, að ekki er unt að hafa mat beggja jafnt. Ljóst dæmi þessa er mat jarðanna í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Yfirleitt er matið í Árnessýslu hærra en í Rangárvallasýslu, sem stafar af því að jarðir í Árnessýslu eru meir eftirsóttar, þykja liggja betur við samgöngum en jarðir í Rangárvallasýslu, þótt gæðin að öðru leyti sjeu má ske ekki meiri. Og svona má halda áfram yfirleitt um landið alt.

Þegar þetta er athugað, fæ jeg ekki skilið, hvernig menn hugsa sjer það, að ný nefnd fái ráðið bót á þeim annmörkum, sem á matinu eru án ferðalags um landið.