16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

18. mál, fasteignamat

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hjó eftir einu orði hjá hv. 1. þm. Rang. (E. P.): mjer skildist á honum, að matsmenn myndu hafa haft hliðsjón af jarðamatinu 1861. Jeg er nú gamall matsmaður, og jeg verð að segja það, að jeg forðaðist eins og heitan eld að líta í það mat; svo bandvitlaust er það, að minni skoðun. Hitt er rjettur mælikvarði, að miða við, hvað jörðin gæti selst nú, og minn mælikvarði var, hvað jeg myndi vilja kaupa jörðina fyrir, ef hún stæði til boða. Þetta var aðalgrundvöllurinn undir matinu, en til nánari samanburðar voru notaðar spurningar þær, sem stjórnarráðið hafði gefið út til útfyllingar. Voru þau svör sum góð og samviskusamlega gerð, en sum aftur ófullkomin. Verst var, að stjórnarráðið gaf ekki nefndunum fast form fyrir bókhaldinu. Við tókum það ráð, að fara eftir röð spurninganna, svo að sjerdálkur var fyrir áhöfn, fólksþörf, fóðurþörf o. s. frv. Gerðum við svo lista yfir allar jarðirnar og settum síðan verðið eftir þessu. Þannig lukum við við fyrsta hreppinn og svo koll af kolli. En svo komumst við í síðasta hreppinn t. d., og fundum þar t. d. jörð, sem var að öllu jöfn annari jörð, sem við höfðum metið að áhöfn, fólksþörf, fóðurþörf o. s. frv., en þá reis sú spurning, sem hv. 1. þm. Rang. (E. P.) benti til: Vill maður eins vel búa á þessari jörð og á hinni? Svarið var neitandi og leiddi því til niðurfærslu á mati jarðarinnar. Erfiðar samgöngur, vetrarharðindi og sumarharðindi o. s. frv. geta dregið úr mati einnar jarðar, sem að öðru leyti er jöfn annari jörð. Alls þessa gættum við eða reyndum að gæta í matinu.

Ef gott form hefði verið samið, er jeg viss um, að starfið hefði orðið hægara og ljettara fyrir nefndirnar.

Landbúnaðarnefndin getur þess í nál. sínu, að miða beri við jarðamatið 1861 en jeg verð að telja það hreina og beina fjarstæðu, og jeg er undrandi yfir að nefndin skuli setja fram slíka setningu. Við vitum, að þá voru matssvæðin mörg en smá, hver hreppur matssvæði, og hreppstjórarnir og helstu bændur þar, eða þeir sem voru í álnum, rjeðu mestu um matið, svo að jarðir þeirra eru lægra metnar en skyldi, oft ekki mat, og má þekkja þær úr á sumum stöðum. Þetta sjá allir að ekki er heppilegt, en fyrir þetta verður synt þegar matssvæðin eru stærri, t. d. heil sýsla, og enn fremur þar sem það er tekið fram, að menn megi ekki níða jarðeignir sínar. En höfuðatriðið er, að samræmið verði sem best, og það næst ekki með litlum matssvæðum; þess vegna verða þau að vera stór. Þetta atriði í nál. kemur fram og er aukaatriði, en samt taldi jeg sjálfsagt að mótmæla því.