16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

18. mál, fasteignamat

Eggert Pálsson:

Þegar matslögin voru sett, var ekki ætlast til þess, að nefndirnar yrðu fleiri en tvær, eða undir- og yfirmatsnefndir. Hugsunin var sú, að aðalhlutverk undirnefndanna væri að lýsa fasteignunum og kveða upp dóm um verðmæti þeirra, en yfirnefndirnar voru til þess, að menn gætu borið sig upp fyrir þeim, ef þeim fyndist þeir vera beittir órjetti, en það datt engum í hug að skipa allsherjaryfirmatsnefnd fyrir land alt.

Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) benti á það, að matið sje sumstaðar ekki sanngjarnt, en þótt svo kynni að vera, þá hygg jeg, að rjettlætinu sje ekki frekar borgið, þótt þessi landsnefnd verði skipuð. Ef svo ætti að vera, yrði nefndin sjálf að skoða og meta hverja fasteign í landinu, en það er svo erfitt verk, að það má heita ókleift, og engum til hugar koma nú. Af því leiddi og það, að alt verk undirmatsnefndanna væri að mestu leyti ónýtt verk.

Annað mál er það, ef starf þessarar nefndar yrði ekki meira en það, er háttv. fjármálaráðh. (S. E.) mintist á, að hækka eða lækka matið í hinum einstöku sýslum landsins, vitanlega eftir geðþótta nefndarmanna. Ef starfið yrði ekki meira en þetta, þá er að sjálfsögðu hægðarleikur að ljúka því fyrir 1. júlí 1920, því slíkt er í raun og veru ekki nema fárra daga verk. En hversu rjettlátt það yrði, það er annað mál.

Jeg býst við, að það sje svipað um jarðeignir og húseignir, að það sje ekki gott að koma á slíku samræmi, sem um er talað. Hvernig á t. d. að samræma húsaverð í Reykjavík og öðrum kaupstöðum landsins, eða lóðarverð í miðbæ Reykjavíkur og á Ísafirði, og þótt sett væri á fót nefnd til þess, þá skil jeg satt að segja ekki, að mikið yrði um framkvæmdir hjá henni. Sama gildir auðvitað um jarðirnar; lega þeirra hefir feiknaáhrif á verðið.