16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

18. mál, fasteignamat

Magnús Kristjánsson:

Mjer finst, að nefnd sú, er frv. gerir ráð fyrir, hafi því að eins fulla þýðingu, að það sje jafnframt ljóslega tekið fram í frv., að hún sje nokkurskonar hæstirjettur um matið. Það má tala vítt og breitt, og það með rjettu, um að hjer sje um vandaverk að ræða, og um að matið sje ekki svo gott sem skyldi, en einhversstaðar verður þó staðar að nema. Það verður því að slá því föstu, að þessi nefnd hafi endanlegan úrskurð um matið, svo eigi verði farið að setja enn nýja nefnd. Þetta atriði vildi jeg að væri gleggra orðað en er.

Jeg geri ráð fyrir, að þegar þar að kemur, þá verði það aðalstarf nefndarinnar að leggja dóm á matið, þar sem ágreiningur hefir verið á milli undir- og yfirmatsnefndar, en alls ekki að nefndin fari að meta upp allar jarðir. En það, sem mestu skiftir og nauðsyn ber til, er að koma fullu samræmi á milli sýslnanna, og mjer finst ekki óeðlilegt, þótt alt matið hækkað; talsvert, því við vitum, að það er nú víðast hvar of lágt, en hvergi, eða mjög óvíða, of hátt. Það hefir vitanlega, þótt ósjálfrátt kunni að vera, haft áhrif á það, að menn vissu, að verið var að finna grundvöll undir gjaldstofn til landsins, og menn vilja alment ekki greiða meira en þörf krefur.