18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

18. mál, fasteignamat

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Við 2. umr. þessa máls var margt sagt eftir að jeg var dauður, sem kallað er. Aðalmótmælin komu frá hv. 1. þm. Rang. (E. P). Aðalástæður hans voru, að verðgildi jarða hljóti að vera mjög mismunandi eftir því, hvar í sveit þær liggi eða í hvaða sýslum, og að ókunnugum mönnum sje síst ætlandi að færa til betri vegar mat kunnugra manna. Fyrri ástæðunni er jeg alveg samdóma, en hinni síðari ekki nema að nokkru leyti. Þekking á jörðu er að mínu áliti, eins og hv. þm. (E. P.), eitt allra þýðingarmesta skilyrði þess, að hún geti orðið rjett metin. En þó kunnugir menn meti, geta þeir haft mismunandi verðmælikvarða, sumir metið eftir meðalverði landskulda síðari ár á líkan hátt og gert er ráð fyrir í þjóðjarðasölulögunum, aðrir farið eftir braskaraverði, sumir miðað við verðlag fyrir stríðið, aðrir við stríðstímaverð o. s. frv. Mismunur getur því orðið stór á mati kunnugra manna, og ekki vanþörf á að samræma niðurstöður þeirra. Þar að auki getur ekki verið um nákvæma þekkingu að ræða í öllum tilfellum, þegar einir 3 menn eiga að meta jarðir í heilli sýslu. Að vísu munu flestir matsmenn hafa ferðast nokkuð um, en það gefur ekki staðgóða þekkingu á jörð, þó varið sje einum degi til að skoða hana, og því síður ef skoðaðar eru margar jarðir á dag, sem dæmi munu til. Það má því telja víst, að matið verði þá aðallega bygt á lýsingum ábúanda og annara kunnugra manna, sem teknir eru af hálfgerðu handahófi, og er það fremur veill grundvöllur til að byggja matið á. Jeg er alveg samdóma hv. þm. Ísaf. (M. T.) um það, að þetta mat verði tæplega gert svo úr garði hjeðan af, að það verði rjettlátur grundvöllur skattalaga. En jeg hygg, að það megi þó umbæta það töluvert, einkum að því leyti, að meira samræmi verði komið á milli sýslnanna. Og eins má búast við, að athuganir þessarar tilvonandi landsnefndar leiði til ýmislegs, sem að gagni má verða þegar næsta jarðamat fer fram.