03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Matthías Ólafsson:

Örfá orð út af ummælum hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um styrkinn til Minningarsjóðs Maríu Össurardóttur.

Þessi tillaga er alveg sama eðlis og till. undir tölulið 23 b. Þætti mjer gaman að sjá, hvort hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) getur gert nokkurn mun á þessari tillögu og þeirri næstu fyrir ofan. Hvort þessi sjóður á að gjalda þess, að hann er stofnaður til minningar um konu, mjög mæta, sem unnið hefir mörg líknarverk, það skal jeg ekki um segja, en svo ætti að minsta kosti ekki að vera.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) kemur með sögu um það, að þessi hreppur sje með efnuðustu hreppum á landinu. Það er satt, að hreppurinn á nokkra sjóði, sem Ellefsen gaf honum, en þeir eru allir ætlaðir til vissra verka, og má því ekki nota þá nema í sjerstökum kringumstæðum, svo að því fje ræður hreppurinn ekki yfir, nema að litlu leyti. Þessum sjóði er aftur á móti svo varið, að hann má ekki taka til starfa fyr en hann er orðinn 2000 kr.; nú er hann 1300 kr., og hefir því stjórn hans farið þess á leit við hv. Alþingi, að það veitti sjóðnum þessa upphæð í eitt skifti fyrir öll. Fjárveitinganefnd fanst ekki nema sjálfsagt að verða við þessari bón þessara heiðurskvenna, sem honum stjórna, einkum þar sem sjóðurinn starfar í svona göfugum tilgangi. Það telur enginn eftir styrkinn í slysasjóð verkamannafjelagsins „Dagsbrún“, eða til fjelagsins „Líkn“, og vona jeg, að sama verði hjer uppi á teningnum. Vænti jeg, að menn sýni það nú við atkvæðagreiðsluna, að þeir taki ekki ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) til greina.