03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Þorleifur Jónsson:

Jeg vil að eins segja nokkur orð út af tillögum samgöngumálanefndar um strandferðirnar. Leggur hún til, að hinir 4 flóabátar verði lagðir niður, sem nú ganga fyrir Norður- og Austurlandi, en í stað þeirra verði fengið gufuskip. Þetta má telja samgöngubót á sumum svæðunum, sjerstaklega þó á svæðinu frá Ísafirði til Seyðisfjarðar, því skipið sem koma á með „Sterling“, á aðallega að ganga á þeim slóðum. Nú hefi jeg verið að athuga áætlun þessara skipa, og hefi komist að þeirri niðurstöðu, að Hornafjörður verður æðimikið út undan. Jeg veit, að nefndin hefir átt erfitt með að bæta þar úr skák, enda eru samgöngur þangað mjög litlu betri heldur en þær hafa verið. Þetta fyrirhugaða strandferðaskip á að koma við á Hornafirði fjórum sinnum á leið til Reykjavíkur, og tvisvar í austurleið, og er að vísu dálítil bót að því, að fá beinar vissar ferðir til Reykjavíkur með skipi, sem getur komið inn á fjörðinn. En þetta eru samt mjög ófullkomnar samgöngur, og vil jeg láta þess getið t. d., að strandferðaskip kemur aldrei á Hornafjörð frá 26. júní til 19. sept. Þetta er með öllu óviðunandi, og vil jeg skora á nefndina að bæta úr þessu. Sterling hefir haft áætlun á Hornafjörð, en hann hefir að vísu ekki komið nema að ósnum. Nú sje jeg, að þessar ferðir hafa verið feldar niður. Jeg hefði nú álitið það skárra en ekki neitt, ef Sterling hefði verið látin hafa áætlun á Hornafjörð 1. júlí og 12. ágúst. Vil jeg nú víkja því til samgöngumálanefndar, hvort hún vill ekki breyta áætlun „Sterlings“ á þessa leið, því þótt skipið komi ekki inn á ósinn, getur verið bót að því fyrir farþega að komast með, ef svo gott er í sjó, að hægt sje að fara út í skipið.

Þá vil jeg einnig benda á það, að betra væri en ekki neitt, að „Skaftfellingur“ væri látinn fara austur á Hornafjörð eina eða tvær ferðir. Vík jeg þessu sjerstaklega til hv. frmsm. (B. St.), og vildi fá svar frá honum.

Jeg hjó eftir því, þegar hv. þm. Borgf. (P. O.) var að tala um strandferðir, að þá sagði hann, að Eimskipafjelag Suðurlands væri fúst að fara nokkrar ferðir austur í Hornafjörð; þætti mjer gaman að vita, hvort þetta hefði legið fyrir nefndinni. Veit jeg að vísu, að samgöngumálanefnd hefir haft úr vöndu að ráða, en eitthvað verður að gera frekar fyrir Hornafjörð en nú er, og finst mjer að það mætti ofurlítið bæta úr samgönguleysinu með því að ætla „Skaftfellingi“ eina eða tvær ferðir austur. Og vænti jeg, að hv. samgöngumálanefnd taki þetta alt til rækilegrar yfirvegunar á ný.