28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

18. mál, fasteignamat

Jörundur Brynjólfsson:

Mjer virðist sá skilningur hafa komið hjer fram, að yfirmatsnefndinni beri að hækka virðingarverð jarða yfirleitt. Jeg vil ekki láta þessu ómótmælt. Að vísu er ekki hægt að leggja nefndinni neinar ákveðnar lífsreglur, er hún í engu megi víkja frá. Þó vona jeg, að þetta yfirmat leiði ekki til þess, að virðingarverð jarða hækki. Það yrðu mjer hin mestu vonbirgði. Jeg tel það sýst til búningsbóta, og það yrði ekki til að efla landbúnaðinn. Eins og háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) tók fram, þá væri það fásinna að leggja til grundvallar söluverð jarða. Það fer eftir legu jarðanna, en ekki eins eftir gæðum, hvert söluverð jarðanna er, eftir því hvernig þeim er í sveit komið, gagnvart sölu afurða og þess háttar. Og virðist oft miklu hærra heldur en verðmæti þeirra hlunninda nemur, sem skapast af legu þeirra. Því nær sem jörðin er kaupstað, því hærra selst hún; hið gagnstæða því lengra sem hún er í burtu.

Það hefir talsvert breytt á því í seinni tíð, að menn hafa keypt jarðir til þess að græða á þeim, en alls ekki keypt þær til ábúðar. Nokkrir prangarar hafa gert sjer það að atvinnu að braska með jarðir. Þessa hefir mest gætt í nánd við kaupstaði. Þetta hefir líka orðið til þess að hleypa þeim jörðum í hátt verð. Ef sölugrundvöllurinn yrði lagður að mati jarða, þá býst jeg við, að mörgum kotbóndanum þætti þröngt fyrir dyrum. Það væri hið mesta óhapparáð, ef þetta jarðamat yrði til að hækka verð jarða. Jeg fæ ekki sjeð, hvaða keppikefli landbúnaðinum er að háu jarðaverði. Jeg fæ ekki sjeð, að afrakstur jarðanna ykist neitt við það. Helsta ástæðan væri þá sú, að hægra mundi að fá hátt peningalán út á jarðirnar, en þessa ástæðu verð jeg að telja lítils virði. Jeg býst við, að bankastjórnir muni líta á fleira en söluverð jarðanna. Þær munu aðallega líta á sannvirði jarðarinnar, en það eru gæðin, en ekki uppskrúfað prangaraverð. Jeg vænti þess, að yfirmatsnefndin gæti hófs við matið, og það var að eins það, sem jeg vildi leggja áherslu á. Annars er jeg mjög þakklátur þeim matsnefndum, sem virt hafa jarðirnar heldur lágt. Það er í alla staði hyggilegt.