18.07.1919
Neðri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Pjetur Jónsson:

Þótt jeg sje ekki sjerlega hrifinn af löngum umræðum, þykir mjer leitt, að þessu máli skuli ekki vera meiri gaumur gefinn við þessa umræðu en enn þá er. Því vil jeg láta skoðanir mínar í ljós í þessu máli.

Það var ekki fyr en í fyrra, að farið var að meta og skoða kjöt alment. En þó að það sje nýtt viðvíkjandi kjöti, þá er nokkuð á veg komið um skoðun og mat á öðrum vörutegundum. Vil jeg leyfa mjer að gefa dálítið yfirlit því viðvíkjandi.

Það má með sanni segja, að mat á fiski sje nú orðið svo fullkomið að vel megi við una. Á því byggist líka aðallega gengi íslensks saltfisks á markaðinum á Spáni og Ítalíu, en nú er hann tekinn fram yfir allan annan fisk. Þá er síldarmat komið á fyrir nokkrum árum og þótt því sje ekki eins vel fyrir komið og fiskmatinu mun það þó hafa gert gagn. Nú er fram komið hjer í deildinni frumvarp til breytinga á síldarmatslögunum, sem gera það mat miklu fullkomnara. Þá er mat á ull. Þó ekki hafi enn tekist að gera matið nægilega samræmilegt, hefir það þó áreiðanlega orðið víða til bóta. Mest er nú kvartað um það af ullarkaupendum erlendis, að hinir einstöku flokkar ullarinnar sjeu mjög misjafnir frá hinum einstöku hjeruðum landsins, þrátt fyrir matið. Þess vegna sje það ekki nægilega ábyggilegt. Matið á lýsinu hefir tekist að gera svo fullkomið að Bretar, er keypt hafa meðalalýsið áður og þótt það nokkuð misjafnt, hafa nú síðastliðið ár haft mjög lítið út á það að setja.

Af hinum meiri háttar útflutningsvömm er þá kjötið eitt eftir. Að vísu er mat og eftirlit á því í ýmsum sláturhúsum hjer á landi og það í svo góðu lagi í hinum stærstu þeirra að alment kjötmat bætir þar varla um. Næstliðið ár setti útflutningsnefndin almennar reglur, samkvæmt fyrirmælum stjórnarinnar um mat á öllu útfluttu saltkjöti og hefir það virst hafa góð áhrif á kjötsöluna. Þetta frv. er nú að allmiklu leyti samhljóða þeim reglum og er tilhögun og tilætlun sú, að kjötmatsmenn fylgi kjötinu frá því slátrun byrjar og þangað til það er komið um borð í skip til útflutnings.

Vil jeg loks leggja áherslu á, hve mikils það er vert um hverja útflutningsvöru, eins og hefir sýnt sig um saltfiskinn að vörumat og eftirlit með vörunni sje svo örugt, að kaupendur þori að treysta því og kaupi vöruna samkvæmt vottorðum matsmanna.