21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Hákon Kristófersson:

Það mætti ætla, að þetta frv. væri eitt af þeim frv., er deildin hefir til meðferðar, sem væri svo vel úr garði gert, að það þyrfti engra athugasemda við því að heita má að það hafi farið umræðulaust gegnum deildina. Jeg hefi ekki haft tíma til að fara rækilega yfir frv. En mjer er óhætt að fullyrða að því fer fjarri, að það sje svo gallalaust sem skyldi.

Í 2. gr. frv. er svo ákveðið: „Nú er hæfur læknir eigi fáanlegur í tæka tíð til skoðunar og getur þá stjórnarráðið mælt svo fyrir, að kjötið sje tekið upp síðar og skoðað og stimplað af lækni, á kostnað útflytjanda.“

Það leiðir af sjálfu sjer, að þetta getur haft ærinn kostnað í för með sjer. Hjer er gert ráð fyrir, að læknir stimpli alt kjötið. En nú getur oft verið ókleift að ná í lækni. t. d. í sláturtíðinni, þegar mörg hundruð skrokkar liggja fyrir til söltunar og læknir er sóttur eitthvað annað, til að gegna öðrum embættisverkum. Hver á þá að stimpla kjötið?

Jeg vil benda hv. nefnd á að jeg hefi nýlega átt tal við dýralækni og spurt hann að, hvort frv. hafi verið borið undir álit hans, sem jeg að sjálfsögðu bjóst við. Hann kvað það ekki vera, enda þótt sjer kæmi það kynlega fyrir. Hann sagðist að eins hafa sjeð frv. af hendingu uppi í stjórnarráði; þá að eins hlaupið yfir það, en við þann yfirlestur kvaðst hann hafa sannfærst um það, að frv. væri að ýmsu leyti vanhugsað. Jeg vil þess vegna beina þeirri tillögu til háttv. nefndar hvort henni þætti eigi betur fara að biðja hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá, til þess að hægt sje að bera það undir álit dýralæknis, sem jeg verð að telja nokkurs virði og jafnframt laga þá galla er háttv. nefnd, við nánari athugun, kynni að sjá á frv.

Mjer finst mikils um vert, að frv. verði sem best útbúið af þingsins hálfu sem auðveldast í framkvæmd.