23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Þegar mál þetta var síðast til umræðu hjer í deildinni, komu fram við það lítils háttar athugasemdir, einkum frá hv. þm. Barð. (H. K.), og hefir nefndin athugað þær síðan. Út af þessu hefir hún svo fundið ástæðu. til að koma fram með brtt. á þgskj. 143. Í 2. gr. stj.frv. er gert ráð fyrir að veita undanþágu frá að skoða kjötið nýtt og stimpla það, þar sem erfitt sje að ná í lækni til þess, en ætlast til þess að stjórnarráðið geti heimilað, að þessi skoðun fari síðar fram á þann hátt, að saltaða kjötið sje tekið upp úr tunnunum og læknir látinn skoða það og merkja, er til hans næst.

Þegar nefndin fór að athuga þetta atriði betur, sá hún að ætti frv. að ná tilgangi sínum, mundi eigi annað hlíta en að ákvæði þetta eða undanþága þessi væri numin burt úr frv. Hún bjóst og við, að þótt dýrt gæti orðið að ná í hæfan lækni til að skoða kjötið nýtt, þá mundi þetta þó geta orðið enn dýrara, þegar öllu væri á botninn hvolft og skoðunin auk þess miklu ótryggari. Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu, að rjettast væri að nema þetta undanþáguákvæði burt úr frv. og setja ekkert í þess stað. Að vísu kom það til tals, hvort eigi mundi gerlegt að veita undanþágu frá því, að læknir skoðaði útflutningskjöt, þar sem afarerfitt væri að ná í hann. En þegar farið var að skoða málið betur fanst henni það ótiltækilegt, því að hún gat ekki fundið nein nægileg tryggingarákvæði önnur en læknisskoðun.

En nú er það svo um þessa breytingu á frv., að með henni verður ekki bætt úr örðugleikunum, sem eru á því að fá kjötið stimplað og skoðað af lækni og metið til útflutnings á þeim stöðum, þar sem örðugt er að ná í lækni, og lítið kjöt til að flytja út. Þess háttar breyting til tilslökunar kemur í bág við allan aðaltilgang þessara laga, svo að það virðist allsendis ótækt að gera hana.

Það, sem gert er til ívilnunar við þá staði, þar sem lítið er slátrað, kemur aðallega fram í 9. gr. frv., þar sem talað er um, að ef húsrúm vanti, geti stjórnarráðið veitt undanþágu til eins árs í senn, til þess að slátra megi úti á góðum blóðvelli. Þetta er það lengsta sem farið verður í því efni að gera undanþágu frá aðaltilgangi þessara laga.

Þó nú sje svo, að þetta geti orðið erfitt á einstöku stöðum að fullnægja skilyrðum frv., þá er mönnum, sem illa eru settir að þessu leyti, með ákvæðum þess gerðir litlu meiri örðugleikar eða kostnaðarauki heldur en þeim sláturhúsum, sem lengst eru komin í því að fullnægja nauðsynlegum skilyrðum um slátrun og alla meðferð á kjöti, sem ætlað er til útflutnings, svo sem t. d. Sláturfjelag Suðurlands o. fl.: því aðalákvæði frv., um matið, eru nokkur byrðarauki fyrir þau, þar sem þau hafa fyrir löngu fullnægt þessum skilyrðum. En þó að ákvæði um kjötmat auki útgjöld þeirra að nokkrum mun, verða þau að gera sjer það að góðu, svo að náð verði aðaltilgangi laganna, þar sem þetta er ekki komið svo langt.

Um brtt. á þgskj. 134 hefir nefndin ekki tekið ákveðna afstöðu, og þykir sú brtt. svo litlu máli skifta, að hver nefndarmanni vill ráða atkv. sínu um hana.

Finn jeg ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir brtt.