23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Magnús Pjetursson:

Það var að eins stutt athugasemd út af brtt. hv. landbúnaðarnefndar. Mjer finst sjerstaklega sú fyrri svo afskaplega athugaverð, að ekki sje flanandi að því að samþykkja hana, því að ef hún kæmist inn í lögin væri það sama sem að banna útflutning kjöts frá sumum verslunarstöðum. Það eru svo staðhættir sumstaðar að læknir verður að fara má ske dagleið aðra leiðina heiman frá sjer á útflutningsstað, og hefir auk þess fleiri kauptún yfir að sækja. Yrði alveg ógerningur að fá læknisskoðun þar og þessum landshlutum þá gert alveg ókleift að flytja út kjöt. Þess vegna vildi jeg mælast til þess, að hv. landbúnaðarnefnd tæki málið út af dagskrá og leitaði álits dýralæknis um hvort mjög hættulegt muni að hafa þetta ákvæði um að skoða kjötið síðar, eða hvort hægt muni að koma þessu öðruvísi fyrir.

Auk þess virðist og full ástæða til að taka málið út af dagskrá, þótt ekki væri til annars en þess, að laga orðalag brtt., því að hún lætur mjer óþægilega í eyrum. Hún hljóðar svo:

„Læknisskoðun og stimplun, samkvæmt lögum 13. sept. 1912, skal fara fram áður en kjötið er saltað, á öllu saltkjöti, sem ætlað er til útflutnings.“

Jeg kann illa við þetta orðalag. Átti jeg tal um það við hv. frsm. (P. Þ.), og heyrðist mjer hann geta fallist á, að málið væri tekið til athugunar. Af því að þetta er 3. umr., yrði að taka málið út af dagskrá nú, vegna þess, að ekki er hægt að laga þetta við síðari umr.

Jeg vildi og geta þess um síðari brtt., að óþarft virðist sjerstaklega að tala um ,,sjúkdóma“, því önnur lög ákveða um það.

Jeg vona, að hv. nefnd verði við þessum tilmælum, því að ella verð jeg að segja að jeg, og jeg hygg ýmsir fleiri hv. deildarmenn muni leggja mikið kapp á að drepa brtt. hennar.