29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

8. mál, mat á saltkjöti til útflutnings

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Til þess, að íslenskt saltkjöt gangi á útlendum markaði sem 1. flokks vara, útheimtist það að dýralæknir, eða einhver annar læknir með nægri þekkingu á því sviði, hafi skoðað það og sett á það löghelgaðan stimpil.

Það er öllum vitanlegt, að kaupendur kjötsins hafa enga aðra tryggingu fyrir því, að þeim sje ekki selt kjöt af sjúkum skepnum, enda á vottorð læknisins að fylgja stimpluninni.

Það er líka öllum háttv. þgdm. kunnugt, að stimpilmerki þetta er sett með bláum lit á 6 stöðum á hvern kindarkropp, og til þess að það verði varanlekt er blekið sett á kroppinn þurran, áður en saltað er niður.

Nú er í 2. gr. frv. gert ráð fyrir, að víkja megi frá þessari nauðsynlegu reglu, með öðrum orðum, að læknir geti skoðað og stimplað kjötið, eftir að það hefir verið saltað niður.

Landbúnaðarnefnd sá strax, að þetta var mjög athugavert því að læknisskoðunin verður erfið eftir að kjötið hefir verið saltað: auk þess verður stimplunin illmöguleg, þar sem merkið vill þá líta út frá sjer og klessast á blautu kjötinu.

En að framkomnum athugasemdum við þetta atriði við 2. umr. málsins, og eftir að nefndin hafði borið þetta undir álit þriggja dýralækna, sem allir töldu óviðeigandi að víkja frá þessari meginreglu, hefir nefndin komið fram með þessar brtt. á þgskj. 176, og hefir hún þá um leið tekið aftur brtt. á þgskj. 143.

Í greinargerð stjórnarinnar fyrir frv. er það tekið fram um 2. gr., að til sjeu tveir vegir í málinu, þar sem erfitt er að framkvæma læknisskoðun og stimplun.

Önnur leiðin er einmitt sú, að nota þetta undantekningarákvæði, að taka kjötið upp úr tunnunum þegar búið er að flytja það á útflutningsstaðinn og skoða það þar og merkja.

En eins og áður hefir verið bent á, þá hefir sú leið ýmsa galla meðal annars aukinn kostnað og áhættu fyrir seljendur.

En hin leiðin er það, sem fólgið er í brtt. nefndarinnar á þgskj. 176, að kjötið sje alls ekki skoðað af lækni, og megi veita þá undantekningu fyrir eitt ár í senn, ef brýn nauðsyn krefur og virðist það bæði eðlilegra og rjettara heldur en að setja, ef jeg mætti svo að orði kveða, falskan stimpil á þessa útflutningsvöru.

Auðvitað verður kjötið jafngott fyrir þessu og alveg eins útgengileg vara innanlands.

Auk þess eru þessir staðir fáir, og lítið um kjötsölu á hverjum þeirra.

Annars held jeg að ekki sje gerlegt að fara aðrar leiðir en þessa, að veita undanþágu frá stimpluninni.

Jeg sje svo ekki, að nauðsynlegt sje að tala meira um málið að svo stöddu, en vil að eins óska þess fyrir nefndarinnar hönd, að brtt. verði samþ. og málið fái fram að ganga.