03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurður Sigurðsson:

Jeg á hjer nokkrar brtt. En fyrst skal jeg þó minnast á styrkinn til Búnaðarfjelagsins, þó jeg hafi ekki komið með neina brtt. við hann. Jeg geri ráð fyrir að hv. fjárveitinganefnd hafi fundist hún sýna rögg af sjer með því að leggja til að styrkurinn verði 180 þús. kr. hvort árið og eftir atvikum ætti jeg víst að vera þakklátur fyrir. En hins ber að gæta, að 180 þús. kr. nú er ekki meira en 60 þús. kr. styrkurinn, sem Búnaðarfjelagið hafði fyrir stríðið. (S. St.: En embættin öll?) Embættismannalaunalögin eru ekki til umr. nú. Jeg skal að eins láta þess getið, að jeg hefi ekki sjeð mjer fært að koma með brtt. um hækkun á styrknum, því hv. fjárveitinganefnd er öll á einu bandi í þessu máli, og eins og kunnugt er hefir hún altaf ótal stjörnur í halanum. Hv. framsögumaðnr (B. J.) sagði að Búnaðarfjelagið væri í raun og veru að eins skrifstofa í stjórnarráðinu en það er ekki rjett. Búnaðarfjelagið er sjálfstætt fjelag óháð stjórnarráðinu. Hitt er annað mál, að æskilegt er, að sem best samvinna ríki milli stjórnarráðsins og Búnaðarfjelagsins, enda leitar stjórnarráðið oft álits og umsagnar Búnaðarfjelagsins í ýmsum málum. Þegar styrkurinn til Búnaðarfjelagsins er nú hækkaður, hefði jeg óskað þess, að skipulaginu með þennan styrk í fjárlögunum hefði verið eitthvað breytt frá því sem verið hefir. En jeg skal ekki fara út í það að þessu sinni.

Jeg á á þgskj. 614 brtt., er snerta Búnaðarfjelagsskapinn.

Fyrsti liðurinn fer í þá átt, að styrkurinn, sem ætlaður er búnaðarsamböndunum, sje greiddur Búnaðarfjelagi Íslands, sem svo skifti styrknum eftir framkvæmdum búnaðarfjelaganna, og að honum verði svo varið eftir tillögum Búnaðarsambandanna. Án þess, að jeg vilji segja neitt misjafnt um búnaðarsamböndin, þá álít jeg meiri tryggingu fyrir því að styrknum sje vel varið, að hann sje fenginn Búnaðarfjelagi Íslands til ráðstöfunar. Á síðasta búnaðarþingi var samþykt áskorun til Búnaðarfjelagsstjórnarinnar um að koma betra skipulagi á hin einstöku búnaðarfjelög og meira samræmi á lög þeirra. Búnaðarfjelag Íslands á að rjettu lagi að vera aðalfjelagið sem fer með yfirstjórn landbúnaðarmála. Í samræmi við þetta væri rjettast að Búnaðarfjelagi Íslands væri fenginn styrkurinn til útbýtingar. Jeg geri ráð fyrir, að hagnýting styrksins verði nokkuð önnur en hingað til. Hingað til hefir búnaðarfjelögunum verið útdeildur styrkurinn eftir dagsverkatölu þeirra, og svo hafa þau skift honum milli fjelagsmanna eftir sömu reglu. Nú ætlast jeg til að styrknum verði varið til stærri framkvæmda, innan hvers fjelags, áhaldakaupa o. fl. Það er meiri trygging fyrir að styrknum yrði varið á þennan hátt ef Búnaðarfjelag Íslands fengi að hafa hönd í bagga með úthlutun hans. Fjelagið er gamalt og bygt á fastari grundvelli en Búnaðarsamböndin. Jeg vil minna á í þessu sambandi, að hingað til hafa búnaðarfjelögin sent stjórnarráðinu skýrslur um framkvæmdir sínar og úr þessum skýrslum hefir svo hagstofan unnið, og birt skýrsluútdráttinn í hagskýrslunum. Þessar skýrslur fjelaganna hafa staðið í sambandi við styrkinn til þeirra. Verði nú brtt. nefndarinnar samþ., má búast við, að lítið lag verði á skýrslugerðinni. Mælir það. sem annað, með, að brtt. mín verði samþ. Það er ekki óverulegt atriði, hvernig styrknum er varið, og að skýrslur verði gefnar um framkvæmdir fjelaganna.

Í 2. tölulið á þgskj. 614 er farið fram á, að veittar sjeu 25 þús. kr., hvort árið sem styrkur til áveitu. Er ætlast til, að stjórnin úthluti styrknum til stærri áveitufyrirtækja, eftir tillögum Búnaðarfjelags Íslands. Nefndinni hafði borist áskorun um þetta frá Búnaðarfjelaginu. en hún hefir ekki tekið hana til greina, og var það illa farið. Hjer er um nauðsynjamál að ræða. Ríkissjóður hefir áður styrkt Skeiðaáveituna með ¼ kostnaðar, og skuldbundið sig með lögum til að styrkja Flóaáveituna á sama hátt, þegar til kemur. Till. mín og umsókn Búnaðarfjelagsins fer því ekki aðra vegi en þá, sem áður hafa verið ruddir. Jeg sje, að nefndin vill veita styrk til áveitu í Óslandshlíð í Skagafirði, og er það að vissu leyti í samræmi við umsókn Búnaðarfjelagsins. En það eru aðrar áveitur, sem ekki er síður sjálfsagt að styrkja og flýta fyrir. Mælingar er þegar búið að gera í Staðarbygðarmýrum í Eyjafirði. Einnig í Staðar- og Víkurmýrum í Skagafirði; þar er um stórfyrirtæki að ræða. Þá gæti jeg nefnt fleiri áveitufyrirtæki, sem að eins bíða þess, að hafist sje handa og fje útvegað til framkvæmdanna. Í stuttu máli eru nú á döfinni 5–10 stærri og smærri áveitufyrirtæki, sem nauðsynlegt verður að styrkja. Í sambandi við þessa till. mína legg jeg til, að styrkurinn til Óslandshlíðaráveitunnar falli niður. Kemur sú áveita til greina, eigi síður en aðrar, þegar farið verður að skifta áveitustyrknum, samkvæmt minni brtt. Rjettara er að veita eina ákveðna fjárhæð í þessu skyni, er stjórnin úthlutar eftir till. Búnaðarfjelags Íslands, heldur en að veita til hvers einstaks áveitufyrirtækis í hvert sinn í fjárlögunum. Jeg skal nú ekki segja fleira um brtt. á þgskj. 416. En þær fara í rjetta átt, og færi betur, að þær hlytu samþ. deildarinnar.

Þá á jeg brtt. á þgskj. 617, um styrk til Jóns A. Guðmundssonar ostagerðarmanns. Maður þessi hefir stundað gráðaosta nú um nokkurt skeið, fyrst á Þorfinnsstöðum í Önundarfirði og síðan 2 sumur í Ólafsdal. Og nú hefir hann keypt Sveinatungu í Norðurárdal og rekur þar sauðfjárbú og ostagerð. Hann hefir í huga að reka iðnað sinn í stórum stíl og taka til kenslu bæði pilta og stúlkur, og útbreiða þannig ostagerðarkunnáttu í landinu. Ostar hans hafa gefist vel og hlotið maklegt lof. Þykja þeir einhver besta efirlíking á Rochefortostinum, sem gerð er á Norðurlöndum. Nú langar hann að fara utan og fá „nýtt loft í lungun“ og fullnuma sig í sinni ment. Hjer er um framtíðaratvinnugrein að ræða fyrir landsmenn, og vona jeg, að hv. deild taki vel í till. Aðaltill. er að veita Jóni 3000 kr., en til vara 2500 kr. Jeg vona, að aðaltill. verði samþ.

Þá á jeg brtt. á þgskj. 598, við 16. gr., um styrk til útgáfu dýralækningabókar. Bók þessi var alveg tilbúin fyrir stríðið og hefir síðan legið í handriti hjá höfundinum, Magnúsi Einarssyni dýralækni. Þá var og veittur styrkur til að gefa bókina út, en þegar til hans átti að taka hafði alt hækkað svo í verði, að hætt var við útgáfuna að sinni. Síðan hefir verðið á pappír og prentun farið sífelt hækkandi. Lengi stóð styrkurinn til útgáfunnar í fjárlögunum, en í núgildandi fjárlögum er honum slept. En nú má þetta ekki dragast lengur, að bókin verði gefin út. Jeg get búist við, að einhver segi, að útgáfan muni kosta meira en hjer er farið fram á. Það má vel vera, að svo reynist. En gera má ráð fyrir, að á næstu árum lækki verðið á pappír. En vitanlega er ætlast til með styrknum, að ekki þurfi að selja bókina óhæfilega dýrt. Bókin mun verða um 30–40 arkir og kosta 8–10 kr. ef þessi styrkur verður veittur til hennar. Þegar frv. um fjölgun dýralækna var hjer til meðferðar í deildinni, töldu sumir andmælendur þess, að dýralækningabók myndi gera meira gagn en þó að dýralæknum yrði fjölgað. Nú er tækifærið til að koma út slíkri bók, eftir lærðasta og elsta dýralækni okkar. Vona jeg þá, að þeir hinir sömu styðji þessa till. mína, og að hún verði samþ.

Skal jeg þá víkja að andlegu hliðinni, eða bókmentahliðinni, á till. mínum. Býst jeg við, að jeg verði í þessu sambandi mintur á, „að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði“, og má það til sanns vegar færa.

Fyrsta tillagan er um að fella burtu athugasemdina um skáldastyrkinu. Nefndina, sem talað er um í athugasemdinni, skipa að vísu góðir menn, einn útnefndur af Háskólanum, annar af Bókmentafjelaginu og þriðji af Stúdentafjelaginu. Þess er þó ekki að dyljast, að hingað til hefir nefndinni ekki auðnast að deila út styrknum svo, að allir væru á eitt mál sáttir um þá úthlutun; öðru nær.

Jeg hefi áður viljað, og vil enn, að nefnd þessi hverfi úr sögunni og að stjórnin sjálf skifti styrknum. En fyrst jeg minnist á athugasemdina, liggur nærri að minnast um leið á brtt. nefndarinnar um að hækka skálda- og listamannastyrkinn úr 12 þús. krónum upp í 22 þús. krónur. Þessi hækkun er óneitanlega nokkuð há, og mun jeg ekki greiða atkv. með henni óbreyttri.

Það mundu margir hafa kosið að fara meðalveginn í þessu efni og veita í þessu skyni 18 þús. krónur. Meðan úthlutun styrksins ferst jafnóhönduglega og raun ber vitni um, er engin ástæða til að veita hærri styrk en þetta.

Um hitt er jeg samdóma háttv. nefnd, að það eigi ekki að bíta styrkinn jafnsmátt niður og gert hefir verið, heldur sje bestu mönnunum veittur sæmilegur styrkur. Háttv. framsögumaður (B. J.) kvað vera sjerstaklega mikla þörf á styrk nú, meðal annars vegna fyrirhugaðra ferða suður í lönd. Hjelt hann, að síðar mætti komast af með minna fje. En jeg hygg, að það muni reynast erfitt að lækka aftur þennan lista og skáldastyrk, og því varhugavert að fara nú að hækka hann, í þeirri von, að auðið muni að lækka hann síðar.

Um 2. liðinn í brtt. er það að segja, að jeg ætlast ekki til, að sá liður komi til atkvæða að þessu sinni. Enda þóttist frsm. (B. J.) ekki skilja, við hvað átt væri með honum.

Þá er tillaga um það, að fella niður styrkinn til að semja íslenska orðabók. Veit jeg, að það er mörgum viðkvæmt mál, og þykir mjer það því undarlegra, sem öllum er kunnugt, hvernig sá styrkur er undir kominn. Hann var upprunalega pólitískur bitlingur og hefir haldið áfram að vera það.

Það er álit þeirra manna, sem vit hafa á þessu máli, að þetta verk sje margra ára starf fyrir marga menn. Málið er alveg óundirbúið og ekkert vit í að halda áfram á þessari braut. Styrkur þessi má gjarna bíða, því margt annað nauðsynlegra kallar að. Jeg get tekið fram, að þetta er ekki eingöngu mitt álit, heldur og margra annara, sem betur hafa vit á þessum hlutum. Get jeg þar tilnefnt þá prófessorana Finn Jónsson og Sigurð Nordal. Annars er jeg enginn málfræðingur. En jeg hefi jafnan verið á móti þessari styrkveitingu, meðal annars af því, að jeg vissi, hvernig hún var til komin og hvernig hún var notuð. Og þar sem lagt er til, að þessi styrkur verði hækkaður, hlýt jeg að verða á móti því.

Um 4. lið er ekki annað að segja en að það sýnist ekki vera nokkur ástæða til að halda þeim lið í fjárlögunum.

Þá er það 5 liður, að styrkurinn til Sigurðar Einarssonar falli niður. Er það vitanlega gert með það fyrir augum, að Búnaðarfjelagið styrki manninn, ef hann er styrks verður. Háttv. frsm. (B. J.) fjelst á, að Búnaðarfjelaginu bæri að hafa veg og vanda af námi slíkra manna.

Auk þessa eru ýmsir liðir í brtt. nefndarinnar við 15. gr., sem jeg er á móti en hirði eigi um að nefna. Að eins skal jeg nefna 84. lið. Það er tillagan um að veita Skólablaðinu 800 króna styrk. Það er eigi svo að skilja, að jeg sje að amast við Skólablaðinu. Það er síður en svo. En mjer finst þessi braut, að fara að styrkja einstök blöð, ærið viðsjál. Háttv. framsm. (B. J) vildi ekki telja það blað heldur tímarit. En það er blað, sem kemur út mánaðarlega. Og ef farið er að styrkja það, munu fleiri koma á eftir. Má þá búast við umsóknum frá Merkúr, Ægi, Frey og fleirum. Jeg álít því viðsjált að veita þennan styrk. Blaðið er efalaust gott blað, en það er varhugavert að ganga inn á slíka braut. Svo gæti farið að jafnvel pólitísku blöðin sæktu um styrk.

Um styrk til einstakra manna skal jeg geta þess, að jeg tel því fje vel varið, sem veitt er til að styrkja unga og efnilega menn, sem eru að búa sig undir lífsstarf sitt. Og sumir af þessum mönnum, sem lagt er til að veittur verði styrkur, eru efnilegir menn, sem mikils má af vænta, ef líf og heilsa endist. Tel jeg flesta þessa styrki sjálfsagða.

Loks ætla jeg að þakka háttv. nefnd fyrir styrkveitinguna til Pjeturs Guðmundssonar. Sá styrkur er áreiðanlega verðskuldaður og kemur sjer einkar vel. Pjetur hefir verið ágætur kennari og hefir slitið sjer út við það starf og önnur störf. Hefir hann oft átt við erfið kjör að búa, giftist nokkuð aldraður, og barnahópurinn er því enn á unga aldri, en heilsan er biluð. Nú er hann farinn að heilsu og kröftum og því eigi fær um að halda áfram starfi sínu. En börnin eru ein 4 eða 5 innan við fermingu. — Vona jeg, að háttv. deild sje á sama máli og háttv. nefnd í þessu máli.