30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil þakka háttv. fjárveitinganefnd fyrir góðar undirtektir við fjáraukalögin, því að breytingarnar sem hún hefir gert á þeim eru ekki miklar. Fjárframlögin hefir hún hækkað um 70.000 krónur en lækkað á öðrum liðum um 30.000, svo að hækkunin nemur ca. 40,000 krónum en lækkunina 30 þúsundir, á þessu frv. á að færa inn á fjárlögin svo að raunverulega sparast ekkert við þessa hækkun.

Við brtt. hefi jeg lítið að athuga. Að eins vil jeg minnast lítillega á síðustu brtt. Bæjarstjórnin samþykti í vetur að taka lán til rafveitu, alt að 2 miljónum. Danskir bankar settu sem skilyrði fyrir lánveitingu til fyrirtækisins að landsstjórnin tæki ábyrgð á láninu, en þar sem tilboðið var bundið við 1. janúar. varð að gefa svar fyrir þann tíma. Enginn tími vanst til þess fyrir stjórnina að láta rannsaka fyrirtækið að nýju, enda varð að byggja á því að bæjarstjórn höfuðstaðarins legði ekki út í málið án nákvæmrar íhugunar. Þar sem sýnilegt var, að fjárhætta var engin fyrir landssjóð að takast þessa ábyrgð á hendur en hinsvegar líklegt að það spilti lánstrausti landsins, ef neitað væri um ábyrgð fyrir sjálfan höfuðstaðinn. þá afrjeð landsstjórnin að takast þessa ábyrgð á hendur upp á væntanlegt samþykki þingsins.