30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Jeg skal leyfa mjer að gera grein fyrir brtt. á þgskj. 207 og hvers vegna hún kom ekki fram fyr en þetta og þar af leiðandi lá ekki fyrir fjárveitinganefnd til athugunar. Mig furðar því ekkert á, þótt hv. frsm. (M. P.) komi till. undarlega fyrir sjónir, er hún kemur þannig fram á síðustu stund. En það kom til af því, að jeg var altaf að vonast eftir skilríkjum frá hlutaðeigendum um flutningskostnað o. fl.

Í öðru lagi skal jeg geta þess, að málið hafði í sumar verið borið undir stjórnina, þótt sú málaleitan muni hafa fremur verið munnleg en skrifleg. En jeg veit um fjóra nafnkenda menn, sem töluðu við ráðherrana um það, og töldu sig hafa fengið góðar undirtektir. Enda lýsti atvinnumálaráðh. (S. J.) því yfir áðan, að hann áliti þessa málaleitun sanngjarna. Jeg hefi líka minst á þetta við forsætisráðherra, og fanst mjer hann vera málinu meðmæltur.

Ástæðurnar fyrir þessari málaleitun eru þær, að meiri hlutanum af fóðursíld þeirri, sem Árnesingar og Rangæingar höfðu pantað síðastl. haust, og flutt var að norðan með landssjóðsskipinu „Willemoes“. varð ekki, eins og til stóð, skipað upp á Eyrarbakka og Stokkseyri sökum veðurs og brims, heldur varð að fara með síldartunnurnar til Reykjavíkur og skipa þeim þar upp. Síðan varð að fá vjelbáta til að flytja þær austur, og varð sá flutningur kostnaðarsamur. Kaupfjelögin austan fjalls önnuðust um flutninginn á fóðursíldinni og urðu að leigja mótorbáta til þess.

Kostnaðurinn við þetta varð afarmikill eða 7 kr. á hverja tunnu. Ef jeg man rjett, var tala tunnanna eitthvað um 2000.

Aukakostnaður þessi við flutninginn á fóðursíldinni hjeðan og austur hefir því orðið ca. 14.000 krónur. Hins vegar fóru fyrnefndir menn aldrei lengra í málaleitun sinni við stjórnina en það, að fá að eins helmingsívilnun á flutningskostnaðinum, en ráðherrarnir munu aldrei hafa gefið vilyrði fyrir meiri ívilnun en 2 kr. á tunnuna. Og till. mín er líka miðuð við það. Jeg tel því till. mjög sanngjarna og vona að hv. fjárveitinganefnd sjái það og mæli með henni, þegar hún hefir kynt sjer málið og ekki síst vegna þess, að sumir ráðherrarnir hafa gefið góðar vonir um, að þeir mundu greiða fyrir þessu máli. Jeg held líka, að dæmi sjeu til, að önnur hjeruð hafi fengið svipaða ívilnun, t. d. Borgfirðingar.

Að síðustu vil jeg fara fram á það við hæstv. forseta, að geymt verði að greiða atkv. um till. til 3. umr., þar sem hv. fjárveitinganefnd hefir enn ekki átt kost á að kynna sjer allar ástæður.