30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Bjarni Jónsson:

Það er örstutt athugasemd. Jeg þarf ekki að skýra frá fjárbeiðni til Breiðafjarðarbáts. Háttv. frsm. fjárveitinganefndar (M. P.) gat hennar og taldi hana sanngjarna. Það hefir einnig enginn orðið til þess að vefengja sanngirni hennar, og þess vegna vænti jeg þess, að flestir greiði henni atkv. sitt.

Aðra athugasemd vildi jeg gera, og hún er sú, að þegar veitt er lán á ábyrgð Íslands, þá á það ekki að eiga sjer stað að þar verði sett aukaskilyrði. Það á að vera hverjum sem er full trygging að lána á ábyrgð Íslands, og það getur ekki annað en veikt lánstraust þess, að taka í mál skilyrði fyrir veitingu lánsins.

Þá kem jeg að stórmálinu — síldarmálinu. Jeg get verið því meðmæltur, að þessi styrkur verði veittur. Mjer þykir vænt um, að beiðnin er komin hjer fram, og því vænna, sem henni vegnar betur. Jeg fæ þá ástæðu til að fara fram á 10–20,000 kr. til handa Dalasýslu í sama skyni. (S. S.: Þar stendur öðruvísi á). Jú, þar stendur öðruvísi á, að því leyti, að allar leiðir eru lengri og örðugri. Við skulum sjá hvort jeg get ekki sýnt fram á, að ekki sje síður þörf í Dalasýslu en annarsstaðar, og við skulum sjá hvort jeg herja ekki út þann styrk sem hún þarf á að halda, ef þessi styrkbeiðni verður viðurkend.