05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Fjárveitinganefnd hefir enn leyft sjer að koma fram með brtt., á þgskj. 245 og 267. Þessar brtt. hafa í för með sjer gjaldauka, sem nemur 66,096 kr. Jeg býst ekki við, að nokkur verði á annari skoðun en að þessar breytingar, þessi útgjöld, sjeu óhjákvæmileg.

Jeg ætla fyrst að snúa mjer að brtt. á þgskj. 245 og byrja á 1. lið. Hann fer fram á, að 40,000 kr. sje varið til landhelgisgæslu um síldveiðitímann. Allir kannast við, að mikið hefir verið kvartað undan gæslunni, og þó sjerstaklega um þennan tíma. Það hefir verið reynt að bæta úr því, með að veita fje í fjárlögum með því skilyrði, að viðbót kæmi annarsstaðar frá. En þetta hefir ekki komið að notum. Gangur þessa máls er sá, að stjórn Fiskifjelags Íslands sendi stjórninni erindi um betri varnir. Stjórnin sendi erindið til sjávarútvegsnefndar, og frá henni hefir það komið til fjárveitinganefndar. Hún taldi mjög mikla nauðsyn á, að eftirlitið væri skerpt, og var fús á, að fje væri veitt í því skyni. Hins vegar fanst henni það ekki geta komið til mála, að heimta tillag frá öðrum stöðum, því hjeruðin, sem hjer er um að ræða, hafa engan hagnað af því, þó að eftirlitið sje meira og nákvæmara. Það, sem sjerstaklega vakti fyrir nefndinni, var að þetta eftirlit yrði ekki að eins með veiðunum, heldur einnig sem tolleftirlit. Tunnutollurinn hefir haft þær verkanir, að útlendingar hafa látið í veðri vaka, að þeir mundu salta fyrir utan landhelgi. En af kunnugum er það sagt, að slíkt muni lítt mögulegt, og þess er því getið til, að útlendingarnir hafi í hyggju að nota kunnugleika sinn til að skjótast inn á afskekta firði og salta þar og komast hjá tollinum. Við höfum ætlað þeim skipum, sem strandgæsluna eiga að hafa á hendi, að gæta líka þeirra skipa, sem á þennan hátt ætla að brjóta lögin. Fjárveitinganefndin sendi stjórninni brjef um að fara þegar í stað að grenslast eftir skipum, sem gætu haft þetta eftirlit með höndum. Síðan hefir stjórnin gert samning um tvo 30 tonna báta, „Garðar“ og „Harald“, fyrir 20 þúsund hvorn um sig. Samkvæmt þessum samningi er brtt. borin fram. Jeg vil ekki fara frekari orðum um þetta, en vænti þess, að sjávarútvegsnefnd haldi uppi svörum, ef til þess kemur, þar sem þetta eru hennar tillögur.

Næsti liður brtt. á þgskj. 245 er um launauppbót til handa áhalda- og efnisverði landssímans. Þetta er ný staða, stofnuð 1917, og voru þá launin ákveðin 1800 kr. Það var gert ráð fyrir því þá, að starfið heimtaði ekki nema hálfan mann, eða að maðurinn gæti um leið gefið sig að öðru. Maðurinn, sem um stöðuna sótti, gekk einnig út frá þessu. En nú er það komið í ljós, að ekki hefir veitt af öllum starfskröftum mannsins. Hann skýrir einnig frá því, að hann hafi orðið að vinna frá kl. 8–8, og stundum til kl. 11 og 12.

Á þessu sjest, að 1800 kr. eru engin laun fyrir svo mikið starf. Sá sem starfann hefir var leikfimiskennari og vonaði að geta haldið því áfram; en þegar á reyndi, varð hann að láta af því. Hann hefir nú sótt um hækkun fyrir árin 1918 og 1919. Hann tók við á miðju árinu 1918 og sækir um 600 kr. fyrir það ár, en 1200 kr. fyrir hitt. Nefndin hefir þó ekki fallist fullkomlega á þetta, en lagt til, að honum verði veitt uppbótin fyrir árið 1919. Þá hefir maðurinn 3000 kr. laun, og það er í samræmi við það, sem ætlast er til í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar.

Þá er komið að 3. lið brtt. Þjóðmenjavörðurinn hefir getið þess, að þegar hann hafi tekið við embætti sínu, hafi engin húsgögn verið til, skápar, borð eða þess háttar. Árið 1909 var að vísu nokkurt fje veitt, en mjög af skornum skamti. Nú varð ekki lengur við þetta unað, og hafa því verið smíðuð nokkur viðbótarhúsgögn. Þetta hefir þegar verið gert, og er búið að borga það. Nefndinni þótti sanngjarnt að taka þetta í fjáraukalögin, og upphæðin er sniðin eftir reikningum frá húsgagnasmiðnum.

Þá er b.-liðurinn, eða 600 kr. til að gera umgerðir um málverk. Umsjónarmaðurinn hefir skýrt frá því, að upphæð sú, sem varið var til að kaupa listaverk handa landinu, hafi ekki hrokkið fyrir umgerðum um þau. Nefndin hefir fallist á, að úr því svona sje komið, þá verði að veita þessa upphæð. En hún vill láta þess getið, að hún ætlast til, að framvegis verði kostnaður við umgerðir tekinn af fje því, sem ætlað er í fjárlögunum til listaverkakaupa, svo þetta ætti ekki að koma fyrir oftar.

Þá er e.-liðurinn, sem fer fram á 20,000 kr. til að fullgera hús undir listaverkasafn Einars Jónssonar. Byggingameistarinn skýrir frá því, að ef ekki verði haldið áfram, þá liggi það, sem þegar er gert, undir skemdum. Og ef svo fer, þá verður húsið margfalt dýrara landssjóði en þarf að vera. Steypan er víða óhúðuð og orðin mosavaxin. Hurðir og glugga vantar; að vísu er búið að smíða þá, en er eftir að setja þá í. Húsið er því öllum opið, og það eru margir, sem hafa tilhneigingu til að skemma það, sem fyrir þeim verður og þeir geta eyðilagt áhættulaust. Stjórnin hefir skrifað nefndinni og mælst til að hún tæki upp þessa brtt. Nefndin hefir orðið við því; hún álítur það nauðsynlegt, til þess að ónýta ekki það verðmæti, sem þegar er í húsinu.

Þá kem jeg að brtt. á þgskj. 245. Hún fer fram á að endurgreiða Patrekshreppi nokkurn hluta vörutolls fyrir vatnsleiðslupípur. Þessu er þannig varið, að pípurnar voru tollaðar í hærra flokki en hreppurinn bjóst við. Pípurnar voru úr trje, en járnvafðar, og því voru þær settar í 6. flokk, og stjórnin úrskurðaði, að það væri rjett. Ef pípurnar hefðu verið teknar sem trjevara, þá hefði tollurinn orðið lægri. Hreppurinn fer fram á að fá endurgreiddan mismuninn. Nefndin telur það sanngjarnt, og ekki síst þegar tekið er tillit til þess, að veitan á erfitt uppdráttar. Sumir nefndarmenn álitu meira að segja, að slíkar vörur ættu alls ekki að vera tollskyldar. Nefndin getur vitanlega ekki kveðið upp dóm um það á eigin spýtur, en hefir valið þá leið, að endurgreiða mismuninn, og hann er 696 kr.

Þá kem jeg að brtt. á þgskj. 267, um að veita 3000 kr. viðbót til brimbrjótsins í Bolungarvík. Það er verið að gera við þennan brimbrjót. Og eftir upplýsingum verkfræðingsins mun þurfa til þess alt að 18 þús. kr., auk þess sem hjeraðið sjálft leggur til. Nú er til af áður veittu fje 15 þús. kr. Nefndin mælir því með því, að þessi viðbót verði veitt, svo að ekki þurfi að stöðva verkið, sem ella mundi. Henni finst rjett að skjóta þessu inn í fjáraukalögin; að öðrum kosti mundi þurfa að taka það upp í fjárlögin. Jeg vil svo ekki segja fleira um þetta, fyr en ef tilefni gefst seinna í umræðunum. En svo vildi jeg segja nokkur orð út af brtt. hv. þingm. Árn. Nefndin hefir orðið ásátt um að mæla ekki með því, að þessi brtt. verði samþykt, heldur þvert á móti. Hún leggur eindregið á móti því, að farið verði að veita einstökum landshlutum ívilnun á kostnaði við síldarflutning. Þess hefir orðið vart, að ef farið væri inn á þá braut, mundu koma fleiri, sem þættust eiga, og jafnvel ættu, sanngjarna kröfu um að fá samskonar uppbót. Þetta er háttv. deildarmönnum kunnugt frá síðustu umræðu málsins, því þá stóðu fleiri en einn hv. þingdm. upp til að lýsa því yfir, að ef þetta fengist fram, mundu þeir sigla í sama kjölfarið. Nefndin leitaði sjer upplýsinga um, hvort landsverslunin, sem veitti þessu forstöðu, hefði lofað nokkurri ívilnun í þessa átt. Að þeirri niðurstöðu hefir hún ekki getað komist, að öðru leyti en því, sem kunnugt er, að öll sú síld, sem flutt var með skipum landssjóðs, var flutt með nokkru lægra farmgjaldi en venja er. Samskonar ívilnun býst jeg við að síldin, sem fór til Árnessýslu, hafi fengið. Mjer er kunnugt um það, að sum önnur hjeruð urðu að leigja sjer skip sjálf til flutnings, og hafa þannig farið á mis við þessa uppbót. Þau mættu því eiga í vændum að fá samskonar ívilnun og hjer um ræðir, ef út í það væri farið. Jeg vona að þetta nægi til að sýna afstöðu nefndarinnar til málsins, og að hv. deild láti tillöguna ekki ná fram að ganga, því það mundi hafa í för með sjer talsverða hækkun á fjáraukalögunum, sem nefndin hefir ekki ætlast til.