05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (S. E.):

Mjer koma þær mjög á óvart þessar ásakanir háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Jeg held að það sje í fyrsta sinni, sem jeg er borinn þeirri ásökun, að jeg þori ekki að segja hreint til um það, sem jeg meina. Og því meir furðar mig á ásökuninni, þar sem hún kemur úr þeirri áttinni, þar sem gróðrarstöð hringlandans og hálfvelgjunnar er.

Þá sagði sami háttv. þm. (S. S.), að fjármálaráðherrann hefði um daginn fullyrt að hann hefði ekki drepið mann.

Jeg man nú ekki, hvernig orð mín fjellu þá, en áreiðanlega fjellu þau ekki neitt líkt því, sem háttv. þm. (S. S.) hermir. Hitt sagði jeg, að jeg mundi hafa fundið sárt til þess, ef jeg gæti á nokkurn hátt kent stjórninni um mannfall það, er var af drepsóttinni, sem geysaði hjer.

Það er síður en svo, að jeg telji það rangt, því jeg álít það blátt áfram skyldu, að álasa stjórninni fyrir það, sem hún gerir illa, en hitt er algerlega rangt, að ráðast á hana fyrir það, sem hún gerir rjett og vel. Og í sóttvarnarmálinu held jeg að enginn, sem rannsakar það, sem farið hefir fram í því máli, geti haft nokkra smáátyllu til þess að ámæla stjórninni. Enda mundu fljótt hafa heyrst háværar raddir um það úti um land alt ef hún hefði þar til saka unnið. En jeg veit ekki til, að hún hafi verið áfeld neitt af alþjóð í því efni.

Þá sagði háttv. þm. (S. S.), að ráðherra mætti síst af öllum gefa undir fótinn með það, sem hann ætlaði ekki að standa við. Það er meira en satt.

En jeg hefi ekki heldur sagt neitt hjer, sem jeg hefi ekki staðið við, og freistingin var auk þess svo lítil fyrir mig, því málið heyrði ekki sjerstaklega undir mig.

Þá kvaðst háttv. þm. (S. S.) hafa reynt mig að lítilli orðheldni. Í því sambandi vil jeg beina til hans þeirri fyrirspurn, hvort hann geti bent á eitt einasta atriði, þar sem jeg hafi reynst óorðheldinn í hans eða annara garð. Geti hann það ekki, og takist honum ekki að finna þessum árásarorðum sínum stað, þá verður hann að sitja með kinnroða fyrir öllum þeim, sem hjer eru í salnum, og fyrir alþjóð.