05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Sigurður Stefánsson:

Háttv. frsm. (M. P.) skaut því til mín að svara athugasemd háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) um brimbrjótinn í Bolungavík.

Jeg hefi ekki mikið um það mál að segja. En svo virðist, sem vinur minn, hv. 1. þm. Árn. (S. S.), tali um það atriði af litlum kunnugleik, sem bygður mun á sögnum miður áreiðanlegra manna.

Hann sló því fram, að brimbrjótur þessi lægi ekki á hentugum stað. Sömuleiðis því, að verkið hefði gengið mjög skrykkjótt.

Um staðinn er það að segja, að hann var ákveðinn af verkfræðingi landsins, Th. Krabbe, og býst jeg ekki við, að háttv. nafni minn (S. S.) nje við hinir berum betra skyn á slíka hluti en sá maður, sem sjerþekkingu hefir og gert hefir að æfistarfi sínu að sjá um slíkar framkvæmdir.

Þetta er því að eins getgáta, sögð út í bláinn.

En hinu get jeg ekki neitað, að verkið hafi gengið skrykkjótt.

En eigi það að verða til þess, að menn verði af þessum umbótum, þá tel jeg það mjög ranglátt. Þörfin er söm, þótt mistök nokkur hafi orðið á framkvæmdunum.

Háttv. þm. Árn. (S. S.) getur dregið dæmi af þessu til síns eigin kjördæmis. Þar hafa einnig verið höfð með höndum mannvirki sem mistök hafa orðið á. Jeg get mint á áveituna á Miklavatnsmýri. Háttv. þm. kannast við hana og þau mistök, sem þar hafa orðið.

Jeg segi þetta ekki til þess að álasa honum eða öðrum, heldur til að sýna fram á, að það er rangt að hefnast á þeim mönnum, sem að umbótunum eiga að búa með því að hætta við verkið ef einhver mistök verða á.

Þá vjek háttv. þm. (S. S.) að því, að þetta mannvirki mundi aldrei koma að tilætluðum notum.

Þau orð stafa líka af hreinustu vanþekkingu, því að það er þegar farið að verða að miklum notum, og með hverjum metra, sem við er bætt, eykst gagn þess að miklum mun.

Háttv. þm. (S. S.) hefði því ekki átt að taka munninn eins fullan og hann gerði. En jeg vona nú samt, að hann hafi ekki gert það af því, að hann væri málinu mótfallinn, heldur að eins af því, að illa hefir legið á honum út af undirtektunum undir till. hans.