05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Jeg vildi að eins geta þess, að það, sem jeg sagði um brimbrjótinn í Bolungavík, hefi jeg eftir mönnum, sem kunnugir eru því verki, enda hefir nú hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) kannast við flest eða alt, sem jeg sagði.

Það, sem jeg sagði um valið á staðnum, var ekki sagt til ámælis þeim, sem fyrir sagði um verkið, en hv. þm. (S. St.) veit eins vel og jeg, að þegar farið er að vinna að slíkum verkum, getur ýmislegt komið fram, sem ekki sást fyrir í fyrstu.

Um verkið get jeg auðvitað ekkert fullyrt eftir sjón eða reynd, en jeg skal bæta því við að það, sem jeg hefi um það heyrt, var mjer sagt af mönnum sem jeg hefi enga ástæðu til að rengja, frekar en hv. þm. N.-Ísf. (S. St.).