15.08.1919
Efri deild: 31. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Halldór Steinsson:

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þessa litlu brtt., sem jeg flyt. Á síðasta þingi var samþykt að veita hjeraðslæknum dýrtíðaruppbót af aukatekjum þeirra og mun það hafa verið meira af gleymsku en öðrum ástæðum, að dýralæknar urðu út undan. Kjör þeirra eru svipuð. Launin eru hin sömu og aukatekjurnar áþekkar.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) benti á, að þeir hefðu óbundar hendur um borgun fyrir verk sín. En öll aðalpraxis þeirra, sem er kjötskoðunin og hrossaeftirlit, fer eftir fastsettum taxta. Hafa dýralæknar því flest sömu skilyrði til að fá dýrtíðaruppbót sem hjeraðslæknar. Uppbótin er áætluð svo lág, að hv. deild mun varla geta haft á móti henni frá því sjónarmiði. 1500 kr. væri hægt að skifta svo, að 3 dýralæknar fengju 400 krónur hver og sá fjórði sem skemst hefir þjónað, 300 kr. Jeg vona, að hv. deild fallist á sanngirni þessarar till.