15.08.1919
Efri deild: 31. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Frsm. (Eggert Pálsson):

Tveir háttv. þm. hafa gert athugasemdir við fjáraukatillögur nefndarinnar. Hv. 2. þm. Húnv. (G. O.) fann að þremur af liðunum, fjárveitingunni til símalínu upp að Borg í Grímsnesi, launaviðbót vitavarða og fjárveitingunni til Trausta Ólafssonar.

Hvað snertir línuna að Borg í Grímsnesi, skal jeg geta þess, að tillagan er fram komin með samþykki landssímastjóra. En að nefndin rjeðst í að taka hana upp stafaði af því að henni var kunnugt um að hjer var brýn þörf fyrir hendi. Hjer er um stórt hjerað að ræða, þar sem er allur efri hluti Árnessýslu sem ekkert símasamband hefir. Kiðjaberg liggur neðst í odda Grímsness. Er mjög erfitt að ná þangað frá mestum hluta Grímsness, þar með talinn Laugadalur, Biskupstungum og ef til vill Ytri-Hrepp. En enn þá erfiðara er að leita til annara símstöðva. t. d. Þjórsárbrúar, sem er önnur sú næsta. Spotti sá sem hjer er um að ræða, mundi mjög bæta úr ástandinu í Laugardal, Biskupstungum og sennilega að einhverju leyti Ytri-Hrepp, í þessum efnum þó langt sje frá, að gott yrði. En meiningin er auðvitað að lengja línuna síðar upp í gegnum Grímsnesið. Biskupstungur og alla leið upp til Geysis. Það, sem hjer er farið fram á er eingöngu byrjunin.

Hvað snertir athugasemdina út af vitavörðunum get jeg verið stuttorður, og það því fremur, sem hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) játaði að í óefni væri komið ef vitaverðir legðu niður stöður sínar. En það er hverjum manni augljóst, að það er ekki nein stóráhætta fyrir þá að sleppa þessum stöðum, er þeir fá 100–200 kr. þóknun fyrir, en hins vegar gæti það komið sjer allóþægilega fyrir ríkissjóð er ber skylda til að sjá um, að vitarnir komi að notum.

Hvað viðvíkur styrkveitingunni til Trausta Ólafssonar, skal þess getið, að maðurinn sem hjer á hlut að máli, er talinn sjerstaklega efnilegur. Hann hefir hlotið ágætiseinkunn við fyrri hlutann og búast má við, að hann ljúki námi á 1½ ári hjeðan í frá. En eins og allir vita, er hjer brýn þörf á efnafræðingi. Nefndin vildi því veita þessum manni styrk af því að hún áleit, að hann væri lengst kominn áleiðis og væri sá efnilegasti maður, sem við ættum völ á í þessa stöðu.

Þá skal jeg minnast á styrkveitinguna til Sigfúsar Einarssonar sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) andmælti. Nefndin leit svo á, að þessi maður væri mesti og besti söngfræðingur okkar nú sem stæði. Hann er nú í stöðu, sem hann varla verður hrakinn úr, meðan líf hans og heilsa endist. En meðan hann gegnir þeirri stöðu er áríðandi, að hann sje starfi sínu sem best vaxinn. En þar sem áreiðanlegt er, að maðurinn hefir ágæta hæfileika til að bera get jeg eigi skilið, að honum sje svo aftur farið að hann geti eigi bætt við sig, þótt hann sje dálítið farinn að eldast. Um orðalagið í nefndarálitinu hjer að lútandi skal jeg geta þess, að það er beint tekið eftir orðalaginu í umsókn mannsins sjálfs og get jeg ekki skilið, að það geti hneykslað nokkurn. Þar sem hann segir „til nokkurrar hlítar“, á hann auðvitað við, að hann eigi geri sjer von um að verða jafnsnjall bestu mönnum í þessari list. Er auðvitað, að maðurinn er orðinn það roskinn, að hann getur eigi búist við að jafnast á við heimssnillingana í þessari ment og get jeg ekki sjeð, að honum sje minkun í að játa það.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði að dauft hefði verið yfir sönglífi þessa bæjar síðustu árin. Hygg jeg, að Sigfús Einarsson finni enn betur til þessa en hv. þm. Ísaf. (M. T.), og er tilgangur hans með ferðinni auðvitað meðfram sá, að koma sönglífi bæjarins í betra horf.

Jeg hygg, að ekki muni betra að senda einhvern ókunnan mann heldur en einmitt þennan, sem þektur er að góðu. Að hann eigi er fremri í þessari ment stafar ekki af hæfileikaskorti, heldur af því að hann upprunalega stundaði ekki organleik, heldur pianospil. En þegar Brynjólfur Þorláksson vjek burtu, var ekki völ á nokkrum líkt því eins hæfum manni í hans stað eins og þessum manni. Jeg er því ekki í nokkrum vafa um, að fjárveiting þessi mundi margborga sig.

Jeg skal eigi fara frekari orðum um dýrtíðaruppbótina handa dýralæknum. Jeg tók fram áðan, að nefndin legði ekki neina sjerstaka áherslu á það atriði.