01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Pjetur Ottesen:

Jeg skal leyfa mjer að fara nokkrum orðum um brtt. á þgskj. 543.

Háttv. frsm. (M. P.) gat þess, að legið hefði fyrir háttv. nefnd erindi frá Sigfúsi söngkennara Einarssyni frá 15. júlí þ. á., og að í því hafi hann sótt um utanfararstyrk til dvalar í Þýskalandi, 3000 kr.

Jeg hafði ætlað, alt þangað til háttv. frsm. (M. P.) gaf þessar upplýsingar, að háttv. fjárveitinganefnd hefði stungið beiðni þessari undir stól og ætlaði ekki að sinna henni. Mundi jeg ekkert hafa haft að athuga við það, þótt svo hefði verið. En nú heyri jeg, að háttv. nefnd hafi ætlað að taka fjárveitinguna upp í fjárlögin. En nú hefir háttv. Ed. sett þessa fjárveitingu í fjáraukalögin og marið henni þar í gegn með örlitlum atkvæðamun. Um utanfararstyrki yfir höfuð er það að segja, að það er ekki nema eðlilegt og rjett að veita fátækum, ungum og efnilegum mönnum styrk til þess að þroska gáfur sínar og hæfileika erlendis, þegar þær sýnast góðar, ekki síst ef þær virðast stefna sjerstaklega í einhverja ákveðna átt, hvort heldur er til söngnáms eða annars. Enda hafa slíkir styrkir oft verið veittir og á stundum orðið að miklu gagni og sóma fyrir landið. Hitt má eigi furða, þótt slíkir styrkir hafi eigi jafnan verið nógir; við höfum þar orðið að sníða okkur stakk eftir vexti.

En hjer er alt öðru máli að gegna. Hjer á hlut að máli maður, kominn á fimtugsaldur, maður, sem um langan aldur hefir lagt stund á fræðigrein sína, og má því ætla, að hann sje kominn svo langt á veg í því efni, sem honum muni verða auðið að ná. Það verður ekki heldur sagt, að þinginu hafi farist illa við mann þennan að undanförnu, því að síðan 1907 mun honum hafa verið veittur 1200 kr. árlegur styrkur í fjárlögunum, — mun reyndar nú ekki vera nema 1100 krónur. Það er því fjarri því, að hann hafi verið olnbogabarn, borinn saman við ýmsa aðra. Mjer liggur við að líta svo á, að styrkurinn sje fremur veittur til þess, að lofa manninum að lyfta sjer upp, en til þess, að hann framist í list sinni. Jeg hygg því, að hjer sje gengið inn á varúðarverða braut, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, hvernig fjárhagurinn stendur nú. Jeg hefi því komið með brtt. um að fella styrk þennan algerlega niður, ekki einungis úr fjáraukalögunum, heldur ætlast jeg til, að hann sje ekki tekinn upp í fjárlögin. Við eigum líka fleiri menn, sem sýnt hafa mikinn áhuga á að kenna söng og útbreiða sönglist, svo sem Magnús Einarsson á Akureyri og fleiri. Magnús hefir kent söng í Norðurlandi um fjölda ára og notið lítils styrks fyrir, 300 kr. á ári nú upp á síðkastið. Ef taka ætti alla slíka menn og styrkja þá til utanfarar á gamals aldri, þá gæti það orðið æðistór fúlga, en árangurinn af styrkveitingunum meira en tvísýnn. Það er nær að veita þeim viðurkenningu á annan hátt, ef þörf þykir.