01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Bjarni Jónsson:

Jeg ætlaði ekki að lengja umræðurnar út af till. háttv. þm. Borgf. (P. O.), en eigi er auðgert að láta hana þegjandi fram hjá sjer fara, þegar háttv þm. (P. O.) gefur það í skyn, að Sigfús Einarsson hafi sníkt sjer út meðmæli, sem lítið sje á að byggja. Við, sem þekkjum verk þessa manns, gáfnalag hans og kostgæfni, við þurfum engin vottorð nje meðmæli; lagasmíð hans út af fyrir sig ætti að vera honum næg meðmæli. Það ætti að vera öllum ljóst, að það er minst gert fyrir manninn sjálfan að veita honum styrkinn, það er gert fyrir landið, því hann á að vera leiðtogi þess alls í söng og hljóðfæraslætti. Og undarlegt er að halda, að hann geti gegnt þessu starfi til hlítar með því að sitja altaf kyr hjer úti á heimsenda í þokunni og kuldanum, og heyra ekki nema til sjálfs sín og þeirra, sem hann á að vera að kenna. Það er lífsnauðsyn fyrir mann sem hann að geta við og við brugðið sjer að heiman, hitt aðra starfsbræður sína, kynt sjer hvað þeir kenna og hvernig, rætt við þá, sem skyn bera á og reynslu hafa, um áhugamál sín og fengið sjer við það sálarhressing.

Það væri fróðlegt og sæmdarauki, eða hitt þó heldur, að láta það berast til annara þjóða, að sjálfsagt þyki að láta gleðigjafa heils lands sitja einangraðan í myrkri og þoku.

En hitt er víst, að þeim, sem slíkum störfum gegna, hvort sem um er að ræða listir, þekkingu eða vísindi, þeim er það lífsnauðsyn að ljetta sjer upp og komast út í heiminn, til þess að kynna sjer, hvernig menn fara þar að í þessum sökum. Auk þess þurfa þeir þess með til þess, að leita sálu sinni hressingar og vakningar.

En sjálfsagt þarf jeg ekki að vera að telja þetta upp; það hlýtur alt að vera svo kunnugt háttv. þm., þessum mönnum, sem bera á herðum sjer framtíð landsins sem fullvalda ríkis, sóma þess og velferð í bráð og lengd.

En það var annað atriði líka, sem mjer þótti undarlegt í ræðu háttv. þm. (P. O.). Það var, að Sigfús Einarsson væri orðinn of gamall til þess, að geta haft not af utanför þessari; hann gæti ekki fyrir aldurssakir lært til fullnustu að leika á hljóðfæri sitt, sem hann að vísu hefir gert vel, þótt ekki hafi honum gefist kostur á fullnaðarnámi.

Þetta er sjerstaklega undarlegt fyrir mig að heyra, sem er kennari hans. Eftir því ætti jeg að vera orðinn svo elliær, að, jeg væri hvorki hafandi hjer á þingi nje annarsstaðar. (P. O.: Háttv. þm. hefir verið sendur utan). Já, jeg var sendur sem fulltrúi þessa þings til útlanda, og bendir það á, að jeg hafi ekki verið talin elliær þá. En hvað sem sjálfum mjer líður, þá get jeg fullyrt það, að enginn af mínum lærisveinum er orðinn svo gamall, að bregða þurfi honum um elli.

Jeg vona því, að till. þessi sje fyrirfram dauðadæmd, og gæti trúað, að hún fengi ekki fleiri en 1–2 atkv.