04.09.1919
Neðri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Björn Kristjánsson:

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 646, um styrk til Magnúsar Einarssonar söngkennara. Þegar jeg leit á stjórnarfrv., tók jeg ekki eftir því, að honum er ætlaður styrkur í 18. gr., þar sem hann hefir undanfarið staðið í 16. gr. Jeg hjelt því, að hæstv. stjórn hefði gleymt honum eða felt hann niður.

En nú hefir mjer verið bent á, að styrkur þessi er tekinn upp í 18. gr., og tek jeg því brtt, þessa aftur.

Svo er önnur brtt., á þgskj. 647. Sú till. fer fram á allmikla fjárhæð til útgjalda og hefir mjer komið fyr í hug að fara fram á það, sem þar er gert, flaug það jafnvel í hug og vakti máls á því, þegar jeg var í stjórninni, að veitt yrði nokkur upphæð til að kaupa áhöld til námurannsókna.

Byggist það á þeirri trú minni að vinna megi hjer málma, og þá sjerstaklega gull. Enn fremur er þess að gæta, að einmitt á þessu þingi er þrengt að námulögunum, svo að þröngvað er kosti þeirra manna, ef nokkrir væru, sem leita vilja að námum hjer. Ef það frv. nær fram að ganga, mun það gera menn enn þá ófúsari til þess að leggja fje í slík fyrirtæki, sem altaf verða að teljast hæpin.

Nú er því alt undir því komið, hvað þingið gerir í þessu, hvort það yfir höfuð vill sinna því, að leitað verði að námum hjer.

Er þá það fyrst, hvort þingið vill leita að námum í sínum eigin jörðum, því að það er mjer kunnugt, að fundist hefir gull í landssjóðsjörðum.

Nú er því undir því komið, hvort þingið vill sinna þessu eða láta þær rannsóknir dragast úr hömlu.

En í öllum öðrum löndum er það talið sjálfsagt að styðja að því, að námur sjeu fundnar.

Í Noregi eru t. d. tvennskonar embættismenn, eiðsvarnir menn og námustjórar, sem í umboði ríkisins leiðbeina þeim, sem leita vilja að námum. Jeg hefi hjer dálítið kver um þetta efni, sem heitir „Norske forekomster af malme, nyttige mineraler og bergarter 1894“. Þar segir svo á einum stað um þessa menn: ,,Án borgunar skulu þeir gefa finnanda og þeim, sem grafa, sem senda þeim sýnishorn, allar upplýsingar um álit þeirra um sýnishornið, sem hægt er að gefa án kemiskrar rannsóknar.“

Og enn fremur segir: ,,Og ef þeir halda, að fundurinn bendi til, að mögulegt muni verða að reka námu, sem um munar, þá skulu þeir, á kostnað ríkisins, ferðast þangað, sem fundurinn var framkvæmdur, til þess nánar að rannsaka kringumstæður.“

Ríkið sjer þá um, ef einhver finnur líkindi fyrir námu, að það sje rannsakað af opinberum starfsmönnum. En þetta sýnir, að nágrannaríkin veita mikla hjálp þeim sem leita að námunum. Þess ber þó að gæta, að í Noregi er miklu meiri auður en hjer, og fleiri auðmenn til að taka þátt í slíkum leitum. Og þess eru lítil líkindi að Íslendingar verði fúsir til að leggja fje sitt í það, að leita að námum. Það mun vera líkt ástatt hjer og var í Noregi fyrst, að enginn hefir trú á þessa hluti.

Um það segir svo á öðrum stað í þessari sömu bók: „Eigi verður komist hjá að veita því eftirtekt, að innlent fje yfirleitt hefir verið hrætt við og hlífst við að taka þátt í námurekstri — en þær kringumstæður hafa orsakað, að fleiri námustaðir, sem gáfu von um ábatasaman rekstur, hafa legið ónotaðar á meðan tækifærið bauðst“.

Afleiðingin var svo: „að fjöldamargar af okkar þýðingarmestu námum, og oft þær, sem best borguðu sig, hafa verið í höndunum á hinu útlenda fje“.

Þannig hefir afleiðingin orðið sú í Noregi, að námurnar þar hafa lent í útlendum höndum, og vil jeg vona að ekki fari nú á sömu leið hjer.

En þá verður að styðja þá, sem námanna vilja leita. Landið þarf að eiga verkfæri. sem það getur leigt eða lánað þeim mönnum, sem hafa trú á, að til sjeu námur hjer.

Og jeg hefi nú þá trú, að vinna megi gullnámur á Íslandi. Sá málmur er hjer áreiðanlega útbreiddur, sjerstaklega í brennisteins- og kvikasilfurssamböndum. Og margt bendir á, að ef til vill sjeu hjer fleiri málmar í jörðu. Jafnvel Katla hefir sýnt það, því að í öskunni mátti finna gull og eir, og það jafnvel langt frá gosinu. Landið þarf því að eiga áhöld þessi og helst námufræðing, eins og er í öðrum löndum, þar sem námur eru.

En þó jeg segi þetta nú. ætlast jeg samt ekki til, að atkvgr. fari fram um till. þessa nú við 2. umr., heldur verði hún geymd til 3. umr., svo að háttv. fjárveitinganefnd fái tækifæri til að athuga hana.

En eitt vil jeg benda á og það er, að þótt jarðfræðingar hafi verið deigir við þetta efni og jafnvel lýst því yfir, að hjer væru engar námur, þá ættu menn varlega að treysta því.

Þeir hafa allajafna ferðast fljótlega um og alls ekki haft tíma til að rannsaka nema yfirborðið, og hefir þeim skjátlast í því, hvernig málmar geta myndast.

Þeir hafa haldið því fram, að þeir mynduðust að eins við það að fjöllin eyddust og flyttu málminn með sjer ofan í dalina. En þau skilyrði eru ekki hjer fyrir hendi, heldur hafa þeir myndast við gas eða uppgufun. En afleiðingin er sú, að dýrari verður leitin, þar sem fara verður niður í jörðina til að finna þá.

En þar, sem aftur á móti málmurinn hefir „oxyderast“, sem kallað er, þar verður hann því fátækari sem neðar dregur.

Jeg veit nú ekki, hvort háttv. deild hefir áhuga á þessu máli, en vona það þó, þar sem þetta gæti gefið mörgum fátækum mönnum atvinnu og það jafnvel um þann tíma, sem annars eru hjer allar bjargir bannaðar, því að vinna má víða að námurekstri alt árið um kring.

Skal jeg svo ekki þreyta háttv. deild á lengri ræðu um þetta mál, en vona, að það verði tekið til athugunar.