05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Samvinnunefnd launanefndar hefir haft mál þetta til meðferðar, og telur hún frv. bót frá því fyrirkomulagi, sem nú er. Nefndin hefir samt álitið rjett að breyta frv., sjerstaklega fyrra kaflanum, um skiptin kennara. Niðurstaða nefndarinnar varð sú, að nauðsyn bæri til að taka öll fræðslulögin til athugunar, og mentamálanefnd hefir verið sömu skoðunar og borið fram till. í þá átt. Jeg skal ekki fara frekari orðum um þetta, en vil leyfa mjer að gera í fám orðum grein fyrir brtt. nefndarinnar.

Í 1. gr. stj.frv. er gert ráð fyrir að menn geti ekki orðið kennarar nema þeir hafi lokið kennaraprófi. Nú er það kunnugt, að ýmsir vel færir barnakennarar hafa ekki lokið kennaraprófi, og jafnast þó ef til vill á við aðra kennara, sem lokið hafa kennaraprófi. Nefndin lítur að nokkru leyti sömu augum á þetta skilyrði og stjórnin, að þeir einir geti orðið kennarar í framtíðinni sem lokið hafa kennaraprófi, eins og enginn getur orðið prestur t. d., nema sá sem tekið hefir próf í guðfræði. Í núgildandi fræðslulögum er svo ákveðið, að þeir sem kennaraprófi hafi lokið, skuli að öðru jöfnu fá kennarastöður. Nú fást margir við barnakenslu og eru kennarar við barnaskóla sem ekki hafa kennarapróf, enda munu kennarar með prófi vera vart nógu margir til þess að taka að sjer allar kennarastöður við barnaskóla í landinu. Þess vegna hefir nefndin breytt þessu ákvæði stjórnarfrumvarpsins á þá leið, að þeir einir gætu orðið kennarar, sem lokið hefðu kennaraprófi eða gegnt kennarastörfum um 5 ára skeið. Hjer eftir getur því enginn orðið kennari, eftir till. nefndarinnar, nema sá sem hefir kennarapróf eða fengist hefir 5 ár við kennarastörf. Menn, sem ekki hafa kennarapróf geta því ekki byrjað á kenslu hjer eftir sem kennarar við barnaskóla. Þetta áleit nefndin vera rjett. Auðvitað getur verið álitamál, hversu árin eiga að vera mörg, sem veita kennarapróflausum kennurum rjett til kenslu. En nefndin leit svo á, að það skifti ekki miklu máli, þó að þeir kennarar ljetu af kenslustörfum, sem ekki hefðu stundað kenslu í 5 ár. Reyndar gæti landið mist af einstaka efnilegum kennara fyrir þetta ákvæði, en þeim mundi í flestum kringumstæðum verða auðvelt að ná kennaraprófi. Og ef kjör kennara verða bætt á þá leið, sem nú er gert ráð fyrir, ætti þessum mönnum ekki að vera vorkunn að afla sjer þessarar mentunar. Aftur á móti er eldri kennurum vorkunn um þetta, enda verða þeir ekki sviftir rjettinum eftir frv.

Jeg átti tal um þetta við fræðslumálastjóra, og kvaðst hann vera nefndinni sammála um þetta atriði. Þó vildi hann gera að skilyrði, að þeir hefðu verið kennarar samfleytt 5 ár. Nefndin hefir líka skilið þetta ákvæði á þá leið, þótt það sje ekki beinlínis tekið fram í brtt. nefndarinnar.

Þá eru brtt. við 2. gr. Þar varð nefndin ekki öll á eitt mál sátt. Í stjórnarfrv. er gert ráð fyrir, að umsækjendur sæki um kennarastöðurnar til fræðslunefnda og nefndirnar sendi síðan meðmæli sín til fræðslumálastjórnar. Þessu vill nefndin breyta á þá leið, að umsækjendur snúi sjer beint til stjórnarinnar og hún veiti síðan stöðuna, eftir að hafa leitað meðmæla hlutaðeigandi skólanefndar eða fræðslunefndir og umsagnar fræðslumálastjóra. Nefndin álítur tryggara, að veitingarvaldið sje algerlega í höndum stjórnarinnar, heldur en fræðslunefndunum sje falið það á hendur. Stjórnin hefir meiri skilyrði til að dæma um hæfileka umsækjenda en skóla- og fræðslunefndir, enda ætlast nefndin til, að hún leiti álits fræðslumálastjóra. Honum mun oftast verða nokkurn veginn ljóst um hæfileika umsækjenda, því að hann fer árlega yfir allar skólaskýrslur og veit líka nokkurn veginn, hvernig nemendurnir hafa reynst í skóla, bæði af eigin reynd og eftir upplýsingum skólastjóra kennaraskólans, sem þekkir kennaraefni þau, er útskrifast frá kennaraskólanum, manna best. Þessi breyting nefndarinnar er ekki grundvallarbreyting, en sparar skólanefndum hins vegar óþarfa fyrirhöfn. Því að stjórnarfrumvarpið ætlast einnig til þess, að stjórnin hafi veitingarvaldið um kennarastöðu. Að eins munurinn sá á frv. stjórnarinnar og tillögum nefndarinnar, að skóla- eða fræðslunefndir eiga að auglýsa og umsóknin sendast til þeirra samkvæmt frv. stjórnarinnar, en stjórnin að auglýsa og umsóknin sendist til hennar samkvæmt tillögum nefndarinnar.

Þá er brtt. við 3. gr. Hún er afleiðing af breytingunni á 2. gr.

Þá er brtt. við 4. gr. Fyrsta brtt. er afleiðing af breytingunni á 2. gr. Hún er þess efnis, að í staðinn fyrir „sem kennaraprófi hefir lokið komi: „sem fullnægi skilyrðinu í 1. gr., í staflið b.”. Hinar þrjár eru allar afleiðing af breytingunni á 2. gr. og standa og falla með henni.

Þá er brtt. við 5. gr. Í stjórnarfrv. er ákveðið, að kennarastöðu skuli veita frá 1. október eða 1. janúar. Nefndin áleit, að þetta væri í ósamræmi við aðrar veitingar, og leggur því til, að starfið skuli veitt frá þeim tíma, er kensla byrjar á haustin.

Þá er brtt. við 6. gr. Samkvæmt stjórnarfrumvarpinu ber kennara að tilkynna hlutaðeigandi skóla- eða fræðslunefnd, ef hann vill segja stöðu sinni lausri. Samkvæmt breytingunni á 2. gr. leggur nefndin til, að hann sendi uppsögn sína til stjórnarráðsins og með 4 mánaða fyrirvara. Það gæti komið sjer illa, ef kennarinn segði upp stöðunni fyrirvaralaust.

Þá eru brtt. við 7. gr. Nefndin var ekki sjerstaklega mótfallin þessari grein, eins og hún var orðuð í stjórnarfrv. En meiri hluti nefndarinnar áleit, að greinin væri alt of löng og mikill hluti hennar ætti fremur heima í erindisbrjefi en lögum. Annars leggur nefndin enga áherslu á það, hvort greinin verður samþykt, eins og hún er í stjórnarfrv., eða brtt. nefndarinnar. Jeg skal geta þess, að jeg átti tal um þetta við fræðslumálastjóra, og ljet hann óánægju sína í ljós út af breytingum nefndarinnar. Taldi hann þetta koma sjer illa, vegna þess, að skólanefndir vissu oft ekki. hvað stæði í erindisbrjefinu, en ættu hins vegar að þekkja lögin. Nefndinni er sama um, hvort verður ofan á.

Þá er brtt. við 8. gr. Samkvæmt stjórnarfrumvarpinu er skólanefnd heimilt að víkja kennara úr stöðu, ef hann vanrækir skyldustarf sitt eða vekur hneyksli með framferði sínu í daglegri hegðun. Nefndin leit svo á, að veitingarvaldið hefði einungis vald til að víkja mönnum úr stöðu. Og samkvæmt till. nefndarinnar getur skólanefnd eða fræðslunefnd tilkynt þetta stjórnarráðinu, og það á síðan að skera úr, hvort dómur nefndarinnar er á rökum bygður. Nefndin taldi bót að þessari breytingu, því að það gæti fyrirbygt þras eftir á. Vonandi verða slík tilfelli fá, en ef slíkt kynni að koma fyrir, er betra að hafa ákvæðið þannig.

Þá kem jeg að II. kafla frv. Nefndin gat ekki orðið sammála um þennan kafla.

Nefndinni virtist, að stjórnin hefði síst gengið of langt um launabætur kennara. Því að eins og kunnugt er, eru launin nú svo lág, að fjöldi góðra kennara hefir horfið frá kennarastarfinu, en nýir kennarar komið í staðinn, sumir nýtir, en aðrir ekki. Jeg þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hversu þetta er óheppilegt, að sífelt sje verið að breyta um kennara. Ef barnakenslan á að geta komist í gott horf, þurfa kennarar að gera hana að lífsstarfi. En þetta getur aldrei orðið meðan öll önnur störf eru betur launuð.

Nefndin hefir felt úr það ákvæði í stjórnarfrv., að farskólakennarar fái ókeypis húsnæði alt árið. Þessi breyting er bygð á því, að laun farskólakennara væru svo lág, að þeir gætu ekki gert farkenslu að lífsstarfi sínu, enda væru þeir flestir lausir og slyppir. Annars getur þetta atriði ekki haft mikla þýðingu. Jeg vildi fyrir mitt leyti, að ákvæði stjórnarfrumvarpsins fengi að standa, en vildi ekki vinna það til, að kljúfa með því nefndina. Fræðslumálastjóri hefir látið óánægju sína í ljós út af þessari breytingu.

Við þennan kafla hefir komið fram brtt. frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þess efnis, að forstöðumenn barnaskóla utan kaupstaða skuli hafa 1800 kr. árslaun, í stað 1500, og kennarar við þá skóla 1400 kr., í stað 1200. Þótt hvorki jeg eða nefndin kæmi með brtt. í þessa átt, þá lít jeg svo á, að hjer sje síst of langt gengið. Jeg játa, að munurinn á launum forstöðumanna utan kaupstaða og kennurum í kaupstað var of lítill, því að þeir fá 500 kr. lægri hækkun en hinir, eftir þjónustualdri. Fyrir stjórninni hefir vafalaust vakað, að dýrara væri að lifa í kaupstöðunum en annarsstaðar. En víða í stærri þorpum er engu ódýrara að lifa en í kaupstöðunum. Sum stærri þorpin eru engu fólksfærri en smæstu kaupstaðirnir. En af því að þetta frv. fjekk svo illar undirtektir í fyrra, sá nefndin sjer ekki fært að hækka launin úr því, sem þau voru ákveðin í frv. stjórnarinnar.

Brtt. við 13. gr. fer fram á, að á eftir orðinu „dýrtíðaruppbótar“ komi „úr ríkissjóði“. Eins og kunnugt er, hefir þingið gengið inn á að veita alla dýrtíðaruppbót úr ríkssjóði. Og fanst nefndinni ekki rjett að breyta frá því.

Þá er 11. liður hjá nefndinni við 13. gr., að á eftir henni komi ný grein, svo hljóðandi:

„Verði sú breyting gerð á fræðslu- eða skólahjeruðum, eða fræðslumálunum yfirleitt, sem gerir stöðu kennara óþarfa, skal hann eftir löglega uppsögn láta af henni endurgjaldslaust“.

Skal jeg nú skýra ástæður nefndarinnar fyrir þessari breytingu.

Eins og jeg tók fram áðan, áleit nefndin, að þörf væri á að rannsaka fræðslumálakerfið alt og gera á því breytingar, sem væri lokið á næstu árum. Mentamálanefnd var og sömu skoðunar. Launamálanefndin leit svo á, að sennilega mundi koma í ljós við þá rannsókn, að hægt mundi að fækka kennurum talsvert. Hún taldi heppilegast að hafa þá sem fæsta, en launa þeim að sama skapi betur. Það er auk þess sú stefna, sem þingið nú þykist vilja aðhyllast, að hafa sem fæsta starfsmenn hins opinbera, en láta þá eiga við sómasamleg kjör að búa. Kæmi það fram við þessa rannsókn, að fækka mætti kennurum, gat það komið í bága við frv. Því að þeir kennarar, sem skyndilega væru sviftir starfi sínu, gátu samkvæmt venju um það, þegar embætti er lagt niður, krafist skaðabóta. En með þessari nýju gr. er loku skotið fyrir, að þeir geti krafist nokkurs endurgjalds, þótt þeir verði að segja starfinu lausu.

Þá kem jeg að brtt. við 16. gr. frv. Stjórnarfrv. ætlaðist til, að þessi lög öðluðust gildi 1. okt. í haust. Nefndin áleit hins vegar, að ekki kæmi til mála, að lögin gengju í gildi í haust. Nú er liðið langt á sumarið, og gætu það ekki orðið nema fáar vikur frá því, að framkvæma ætti lögin og þar til kensla byrjar. Eftir frv. er fræðslumálastjórn eða landsstjórn ætlað að veita kennarastöðurnar. En eins og augljóst er, mundi þetta ákvæði koma óþægilega í bága við þær veitingar, því að tíminn er alt of stuttur. Enda munu skólar víðast hvar vera búnir að ráða sjer kennara nú þegar. Nefndin leggur því til, að lögin gangi ekki í gildi fyr en 1. júní næstkomandi. Fyrir þann tíma eiga kennarar að vera búnir að segja stöðum sínum lausum, og allir þeir, sem ekki uppfylla þau skilyrði, sem sett eru með frv., verða að hverfa frá skólunum fyrir fult og alt. Þótt nefndin líti þannig á þetta atriði, var hún á einu máli um það, að ekki mætti dragast með nokkru móti að bæta laun kennara. Leggur hún því til ákvæði um stundarsakir, að allir þeir kennarar, sem ráðnir eru til kenslu veturinn 1919–20, skuli njóta launa og dýrtíðaruppbótar samkvæmt þessum lögum.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um brtt. Að eins vona jeg, að málið yfirleitt fái góðar undirtektir hjá. háttv. deild.