05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

40. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get verið nefndinni þakklátur fyrir, hvernig hún hefir tekið í þetta frv. stjórnarinnar yfirleitt. Jeg get látið sumar brtt. afskiftalausar, því jeg legg ekki mikið upp úr hvort sumar þeirra verða samþyktar eða ekki. En fáeinar vildi jeg gera lauslegar athugasemdir við.

Það er fyrst brtt. við 8. gr. frv. Jeg er hreint ekki viss um, að hún sje til bóta á neinn hátt. Jafnvel gæti jeg trúað, að hún geti verið til skaða. Jeg held áreiðanlega, að það sje hollara, að fræðslunefndir hafi heimild til að víkja kennurum frá embætti um stundarsakir. Það geta verið svo ríkar ástæður fyrir hendi, að slíkt þurfi að gera þegar í stað. Hitt væri alt of tafsamt, að eiga að bíða eftir úrskurði stjórnarráðsins eftir að það hefir fengið senda skýrslu frá skólanefnd. Það er aftur sjálfsagt, að kennari eigi rjett á að skjóta máli sínu til stjórnarráðsins, ef honum er vísað frá skólanum. Jeg þarf ekki að fara að skýra fyrir mönnum, hvað það getur verið hættulegt að láta kennara vera 1–2 daga lengur við skólann, hvað þá mánuðum saman, ef svo stendur á. Jeg held að engin hætta sje á, að skóla- eða fræðslunefndir misbeiti þessu valdi sínu gagnvart kennurum. Jeg gæti miklu fremur trúað, að þær syndguðu í gagnstæða átt.

Brtt. við 9. gr. legg jeg ekki áherslu á. En hins vegar tel jeg brtt. við 13. gr. a. og b. óheppilega og get ekki fallist á hana fyrir mitt leyti, sem sje það, að ríkissjóður eigi að öllu leyti að greiða dýrtíðaruppbótina. Jeg gæti búist við, að í stað þess, eins og á sjer stað víðast hvar annarsstaðar, að sveitarfjelög beri að mestu leyti kostnað af fræðslunni, þá komi ¾ hlutar til að lenda á ríkissjóði hjer, en að eins 14 á sveitarfjelögin, í stað þess að það ætti að vera alveg öfugt. Að minni skoðun ætti ríkissjóður að eins að leggja fram einhvern styrk.

Jeg hafði ekki áttað mig á, að þetta mun eiga að ná til kaupstaða líka. En með tilliti til þess verð jeg að segja, að mjer finst nokkuð langt gengið, ef það á að koma niður á ríkissjóði að borga fræðslu þeirra að mestu leyti. Að vísu mun það svo, að menn finna meira til þess, sem lagt er fram af fátækum sveitarfjelögum. En sveitarstjórnir verða að gera sjer það ljóst, að ekki dugir annað en að leggja meiri skatta á þá, sem búa í sveitum, heldur en hingað til, ef þetta á að geta gengið með eðlilegum hætti. Jeg tel mjög varhugavert að íþyngja ríkissjóði um of. Þau gjöld, sem á honum hvíla nú þegar, hljóta að verða svo mikil, að hann á bágt með að rísa undir þeim, þótt ekki sje hlaðið á hann miklu af þeim gjöldum, sem eiga að koma og hingað til hafa komið frá öðrum sjóðum. Jeg verð því að mæla eindregið á móti þessari brtt. við 13. gr., eins og jeg líka gerði á þingi í fyrra, þegar þetta lá fyrir háttv. Ed. Hins vegar má þetta engan veginn hindra það, að málið gangi fram, ef þingið vill hafa það svo, því það er lífsnauðsyn á að bæta kjör kennara nú þegar.

Brtt. við 11. gr. tel jeg vera til bóta. Sömuleiðis álít jeg, að 13. lið a. beri að samþykkja að sjálfsögðu, að lögin gangi ekki í gildi fyr en 1. júní 1920. Aftur á móti er jeg ekki alveg viss um, að ákvæðið um stundarsakir sje í alla staði heppilegt, eins og það er sett þarna. Jeg býst við, að margir af þeim, sem eru kennarar nú, sjeu hreint ekki hæfir til þess, eða uppfylli ekki þau skilyrði, sem á að krefjast. Það hefir verið kvartað um það víða að, að sökum slæmra launakjara hafi skólanefndir neyðst til þess að ráða til sín og gera sig ánægða með ljelega menn, sem ekki sjeu starfinu vaxnir eins og skyldi. Jeg álít, að þeir einir eigi heimtingu á að fá uppbót, sem fyllileg not eru að við starfræksluna.

Frv. þetta er komið fram til þess, að gera kjör kennara lífvænlegri en þau hafa verið hingað til, og einnig til hins, að sjá um að þeir einir gegni þessum stöðum, sem eru taldir hæfir til þess. En það vinst ekki með því móti, að launa jafnt þá hæfu sem óhæfu.