04.09.1919
Neðri deild: 55. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurður Sigurðsson:

Út af nokkrum athugasemdum. sem komið hafa fram við brtt. mínar, verð jeg að segja fáein orð.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) hjelt því fram um brtt. mína á þgskj. 614, um styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands, að till. nefndarinnar um hann væri óbrotnari og einfaldari til framkvæmda. Þetta held jeg sje misskilningur. Dagsverkatalan er lögð til grundvallar fyrir styrkveitingunum, eftir till. minni, en að öðru leyti skal styrknum varið eftir till. búnaðarsambandanna.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði ekki leggja mikla áherslu á þetta atriði eða till. mína. En eftir henni kemst miklu síður að hreppapólitík við úthlutun styrksins en ella. Út af ummælum hv. þm. S.-Þ. (P. J.) um Óslandsáveituna skal jeg geta þess, að það eru mörg fleiri áveitufyrirtæki, sem þurfa styrks með. Í Húnavatnssýslu er auk þeirra, sem jeg áður hefi getið, stórt áveitufyrirtæki á döfinni. Það er ætlunin að veita vatni úr Hnausakvísl í Eylandið í Þingi, og kemur það verk sennilega til framkvæmda á næsta sumri. Og á það fyrirtæki engu síður skilið að fá styrk en Óslandshlíðaráveitan. Þar eiga hlut að máli áhugasamir dugnaðarmenn. Þar sem bæði þetta verk og fleiri koma til framkvæmda á næsta fjárhagstímabili, verða menn að ákveða einhverja fasta upphæð í þessu skyni.

Þá fór 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) nokkrum orðum um till. mína á þgskj. 617, þar sem jeg legg til, að Jóni Guðmundssyni ostagerðarmanni sjeu veittar 3000 kr. til að fullkomna sig í ostagerð. Hann sagði, að þessi maður væri búinn að læra þetta og þyrfti vart að læra betur, eða fara aftur utan í því skyni, og mundi þetta því verða „lystitúr“, eins og hann komst að orði, fremur en námsferð. Það er dálítið einkennilegt að heyra öðru eins haldið fram. Og er engin furða um þá menn, sem álíta, að þeir þurfi aldrei neitt við það að bæta, sem þeir hafa eitthvað lært í áður, þótt þeir eldist fyrir tímann. Hjer á landi er ostagerð í mjög miklum barndómi. Og þeir sem við hana fást, verða að leita þangað, sem ostagerðin hefir verið rekin á fullkomnari hátt, til þess að fullkomna sjálfa sig. Þessi maður, sem hjer er um að ræða, ætlar ekki að eins að kynna sjer gráðaostagerð, heldur líka mysuostagerð, og komast niður í þeirri „teknik“, sem þeirri ostagerð er samfara. Svo hefir hann hugsað sjer að koma á fót hjá sjer mysuostagerð eftir að hann kemur heim.

Um 5000 króna styrkinn til heimilisiðnaðar verð jeg að segja, að mjer finst helst til lítið ákveðið um það, hvernig þeim styrk skuli varið. Þyrfti að kveða nákvæmar á um það, með hvaða skilyrðum styrkurinn sje veittur. Annars kemur hann ekki að tilætluðum notum.

Um fjárveitinguna til að sækja olympisku leikana í Antwerpen 1920 er það að segja, að jeg sje mjer ekki fært að vera með henni, þó um metnaðar- og nauðsynjamál sje þar að ræða fyrir landið og þótt jeg unni íþróttum alls góðs. En mjer finst, að efnamenn landsins og íþróttavinir ættu að taka saman höndum og styrkja þessa för. (G. S: Vill þm. ríða á vaðið?) Já, jeg skyldi ekki skerast úr leik með að leggja eitthvað af mörkum af mínum litlu efnum. — og þetta finst mjer vera besta leiðin í þessu máli.

Að endingu vil jeg geta þess, að jeg hefi merkt við margar brtt. nefndarinnar við 14. og 15. gr., sem jeg tel óþarfar. Nemur sú upphæð ca. 100,000 krónum, sem sparaðist með því að fella þær, og mun jeg greiða atkv. á móti þessum brtt. öllum, án þess að orðlengja um það frekar.