08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Einar Árnason:

Jeg á brtt. á þgskj. 711, um þennan svo kallaða sendiherra. Hv. frsm. fjárveitinganefndar (M. P.) hefir þegar lýst afstöðu nefndarinnar til hennar, og eftir því, sem honum fórust orð, lítur út fyrir, að fjárveitinganefndin hafi orðið myrkfælin, er hún sá hana, og allir nefndarmenn ætli að snúa bökum saman til að verjast henni. Þetta kemur mjer undarlega fyrir, því mjer finst þessi till. vera ólíku aðgengilegri en samskonar till., sem kom fram við 2. umr., og sumir nefndarmenn ljeðu þá atkv. Það mátti miklu fremur segja um þá till., að samkvæmt henni væri sendiherranum gert ómögulegt að lifa. Hv. frsm. sagði, að með þessu væri verið að reka sendiherrann út á götuna, hann væri húsnæðislaus. En þetta er misskilningur. Jeg ætlast til, að fulltrúinn leggi sjer til húsnæði, eins og aðrir embættismenn ríkisins, því það gera embættismenn nálega undantekningarlaust. Jeg hefi líka sett laun fulltrúans svo rífleg að ekki þarf að greiða honum sjerstaka upphæð til húsaleigu. Í fljótu bragði virðist nú mönnum, ef til vill, að sparnaðurinn á þessum lið fjárlaganna verði lítill, þó þessi brtt. mín verði samþykt, þar sem lækkunin nemur ekki nema 4 þús. kr. á ári.

En jeg álít, að sparnaðurinn verði meiri, þegar til framkvæmdanna kemur. Jeg býst sem sje við, að engum komi til hugar, að fjárhæð sú, er fjárlagafrv. ætlar til sendiherrans, geri nokkuð nærri því að hrökkva, að minsta kosti þegar frá líður. Því að þess ber vel að gæta, að þegar ríkið hefir skipað mann í sendiherrastöðu, þá á hann heimtingu á því, að hann sje gerður svo vel úr garði fjárhagslega, að hann geti, hvað alla risnu snertir, fullkomlega staðið jafnfætis sendiherrum. annara ríkja. Sendiherra á svo litlum launum, með kotungsbrag í öllu, getur naumast orðið ríkinu til sóma, jafnvel þó hann gæti persónulega unnið sjer traust og álit.

Viðvíkjandi þeirri fjárhæð, sem brtt. mín gerir ráð fyrir að verði veitt til fulltrúa, sem sje 24 þús. kr. á ári, þá get jeg vitanlega ekkert fullyrt um það, hvort hún muni hrökkva, en jeg tel hana svo ríflega setta, að lítil líkindi eru til þess, að hún muni fara fram úr þessu, og það tel jeg víst, að altaf verði hún allmikið fyrir neðan þann raunverulega sendiherrakostnað.

Þessi sparnaðarskoðun kann nú að þykja kotungsleg. En þess ber að gæta, að við erum smáríki, sem hefir í mörg horn að líta, og það er ekki til neins að dyljast þess, að við höfum ekki efni á því, að tolla í öllu tískuprjáli stórveldanna. Öll ónauðsynleg útgjöld verðum við að forðast. Það er betra að fara hægt af stað og færa sig svo síðar upp á skaftið, heldur en að byrja hátt og geta svo ekki risið undir afleiðingunum. Ef við sjáumst ekki fyrir, jafnt í þessu sem öðru, þá stefnum við út á fjárhagslega glapstigu.

Því var haldið fram, þegar tilrætt var um sendiherrann hjer í deildinni um daginn, að ef þessi væntanlegi fulltrúi landsins hefði ekki sendiherranafnbót, þá gæti hann ekki notið sín til fulls; hann fengi naumast aðgang að hærri stöðum, og ynni þar af leiðandi ekki það gagn, sem hann ella gæti. Væri nú þessi skoðun rjett og á rökum bygð, þá er auðvitað nær sanni að horfa ekki í aukin útgjöld fyrir titilinn. En það mun nú margur hafa aðra skoðun á þessu atriði, og víst er um það, að engin reynsla er fengin fyrir því að þetta verði svo í framkvæmdinni. Það myndi því tæpast miklu spilt, þó að þetta fyrirkomulag, sem brtt. gerir ráð fyrir, væri reynt. Fari svo, að það gefist ekki vel eða reynist ófullnægjandi, þá getur komið til mála að breyta eitthvað til. — Ekki svo að skilja, að jeg búist við, að til þess komi. Því að sje þetta fulltrúastarf skipað vel hæfum og duglegum manni — og það er aðalatriðið — , þá mun það sannast, að nafnbótin er einskisvirði. Það mun reynast svo, eins á þessu sviði sem öðrum, að hæfileikarnir og mannkostirnir, en ekki nafnbæturnar, ráða mestu um það, hvort menn verða þjóð sinni til nytsemdar eða ekki.

Jeg tel þarflaust að teygja lopann um þetta mál nú; það var svo þaulrætt hjer í deildinni um daginn. Jeg hefi að eins skýrt afstöðu mína til þess í sambandi við þá brtt., sem jeg ber fram, og legg svo málið á vald háttv. deildar.

En þá vil jeg víkja að annari brtt., sem jeg flyt, á þgskj 713. um hækkun á utanfararstyrk til Guðmundar Ólafssonar. Þessi maður hafði sótt um styrk til þess að fara utan og kynna sjer kenslu- og skólamál. Fjárveitinganefndin tók styrkinn upp í fjárlagafrv., og var hann 2000 kr. En jeg átti tal við Guðmund eftir að hann hafði sent styrkbeiðnina til þingsins og sagði hann, að þegar hann hefði farið að íhuga málið betur, hefði hann sjeð að hann gæti ekki komist af með 2000 kr., og kvað sjer ekki veita af 3000 kr. En jeg treysti mjer ekki til að hreyfa þessu við fjárveitinganefndina, af því að jeg hjelt, að þeim yrði öllum gert jafnhátt undir höfði, sem sótt höfðu um samskonar styrk. En af því að deildin hefir hækkað við einn af mönnum þessum hefi jeg afráðið að fara fram á þessa hækkun. Jeg skal geta þess, að maður sá, sem hjer á hlut að máli, er í mjög góðu áliti og hefir mjög góð meðmæli frá kennurum sínum. Það er óhætt að segja, að hann hefir ágætar námsgáfur. Hann hefir útskrifast af gagnfræðaskólanum á Akureyri og síðan af kennaraskólanum árið 1910.

Sjera Magnús Helgason skólastjóri segir um hann: „Og er hann einn þeirra manna er hlotið hafa hjer hæstu einkunn við slík próf, og bestan orðstír yfirleitt.“ Þetta eru mjög góð meðmæli frá jafnmerkum manni. Síðan Guðmundur tók próf af kennaraskólanum hefir hann stöðugt starfað að kenslu. Hann var fyrst 2 ár kennari við Hvítárbakkaskólann en síðan hefir hann stöðugt kent í Þingeyjarsýslu, bæði við barna- og unglingaskóla. Nú er sú hreyfing mjög uppi í Þingeyjarsýslu, að koma þar á fót lýðskóla og þeir sem gangast fyrir þessari breytingu, hafa sjerstakan augastað á þessum manni sem skólastjóra og hafa hvatt hann til að leita sjer fræðslu til annara landa í skólamálum. En það er nú um þennan mann að segja, eins og svo marga aðra að hann er efnalaus og getur ekki aflað sjer þessarar fræðslu af eigin ramleik. Hann hefir eytt bestu árum æfinnar til náms og síðar kenslu, sem hefir verið illa borguð og stundað búskap á harðangurskoti. En nú vill hann snúa sjer óskiftum að kenslu og skólamálum og vonast til að fá lífvænlega stöðu við þau störf. Jeg vænti því, að deildin taki brtt. minni vel.

Þá á jeg brtt. á þgskj. 712, að styrkur til skálda og listamanna verði færður niður í 16 þús. úr 22 þús. Um þá till. þarf jeg ekki að fjölyrða, því að hún skýrir sig sjálf. Háttv. frsm. (B. J.) lagði á móti henni, og skal jeg ekki deila við hann um það.