08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi nú hlýtt um stund á kveðjusendingar hv. frsm. (B. J.), og fanst mjer það alt að vonum vera. Það sem jeg fjekk helst út úr þeim, var það, að nefndin væri fús á að ganga að brtt., sem lúta að öllum frekari fjárveitingum, en stirð á að taka aðrar til greina. Þetta er gagnstætt því, sem jeg hafði búist við. En jeg skal samt ekki átelja nefndina frekar, því jeg geri ráð fyrir, að hún hafi sínar góðu ástæður fyrir þessu.

Í þetta skifti á jeg 4 brtt, við fjárlagafrv., og er þeim líkt farið og brtt. þeim sem jeg flutti hjer við 2. umr., því að þær miða að því, að draga ofurlítið úr fjáreyðslu á nokkrum sviðum.

Brtt. við 12. gr. lýtur að því að fella niður styrkinn til minningarsjóðs Maríu Össurard. Frsm. tók þunglega á þessari brtt. minni og kvað hana vera óframbærilega. Jeg mun hafa tekið það fram við 2. umr. hvernig hjer stendur á. Þessi heiðurskona er dáin fyrir nokkrum árum, og til minningar um hana var stofnaður sjóður. Enn þá hefir ekki safnast meira en 1300 kr., en sjóðurinn verður starffær, þegar stofnfjeð er orðið 2000 kr. Hreppur sá, sem hjer á hlut að máli, er mjög vel stæður, einn af auðugustu hreppum landsins, og er því vel fær um að gera sjóðinn starffæran af eigin ramleik. Minningu konunnar er jafnvel borgið, hvort sem þessi fjárhæð verður veitt eða ekki. Jeg get búist við því, af því jeg þekti þessa konu nokkuð, að hún hefði fremur viljað verja þessu fje þar, sem þörfin var meiri. Og nú hefir svo illa tekist til, að maður hefir fallið út af fjárlögunum, sem áður var á þeim og lengi hafði verið í þjónustu landsins, maður sem hefir fylstu þörf styrks, og sæmra er að styrkja en að snara fjenu í þennan auðuga hrepp. Þetta er Jón Helgason vitavörður á Reykjanesi. Jeg efast ekki um, að heiðurskonunni látnu hefði verið nær skapi; að fjenu væri varið til hjálpar honum, sem þörf hefir, en á þann veg, sem hjer er ráðgert, og auðvitað kemur af því, að einstakur fjárveitinganefndarmaður er með þessu að gæða kjósendum sínum.

Brtt á þgskj. 723 og 726 heyra því saman og standa og falla í raun og veru hvor með annari.

Jeg mun samt ekki taka aftur brtt. mína á þgskj. 726, þótt sú fyrri falli, heldur lofa hv. deild að fella hana.

Þá er brtt. á þgskj. 724. Hún lýtur að því, að færa til fjárveitingarnar til vitanna eystra, þannig, að veitingarnar til Strætishornsvita og Papeyjarvita komi á fyrra ár fjárhagstímabilsins. En eftir frv. eins og það liggur fyrir, er þessum fjárveitingum ætlað að koma á síðara árið ásamt Kambanesvitanum. Jeg lít svo á, að það sjeu þessir 2 vitar, sem fyrst og fremst eigi að hugsa fyrir, og einkanlega gera siglingaleiðina frá og til Berufjarðar færa, eins og líka strandsiglingarnar þar fram með landinu. Þeir hafa því að mínum dómi, miklu meiri þýðingu heldur en jafnvel Kambanesvitinn og aðrir þeir vitar, sem um er kept og því ber að flýta byggingu þeirra sem mest. Hver vertíð sem tapast að meira eða minna leyti á Austfjörðum fyrir þá sök að ekki eru ráðnar bætur á höfnum og siglingaleiðum við Berufjörð, bakar stórtjón, ekki að eins fyrir útveginn þar, heldur líka fyrir alt landið eða landssjóð sem aðallega dregur tekjur sínar frá útveginum. Að flýta byggingu þessara vita er því hinn mesti búhnykkur fyrir landssjóð. Jeg vildi óska, að háttv. deild byndi sig eigi rígfast í till. nefndarinnar, enda þótt vitamálastjóri af ástæðum sem mjer eru ekki nægilega kunnar eða ljósar kynni að vilja fresta byggingu þessara vita. Hins vegar skil jeg vel að haga verður þessu nokkuð eftir atvikum, efnisútvegum o. fl. En jeg vildi með þessu gefa hvöt til, ef atvikin eru því ekki til fyrirstöðu, að framkvæmdar yrðu þessar vitabyggingar fyrra árið, en þeim eigi frestað vegna annara ónauðsynlegri vita. Þetta er því meira vert sem ekki er sjáanlegt, að neinar hafnarbætur fáist að þessu sinni á Hornafirði sem eins og kunnugt er, má teljast önnur þrautalending Austfirðinga á vetrarvertíð. Austfirski útvegurinn stendur og fellur með þessum tveim lendingarstöðvum. Og verði þeir ekki bættir er tæpast hægt lengur að tala um hann sem sjálfstæðan atvinnuveg.

Þá á jeg eftir að minnast á brtt. mína á þgskj. 725, 19. b. við 15. gr., um að fella burtu fjárveitinguna til þýðingar á Goethes „Faust“. Það er ef til vill litið á till. sem olnbogaskot frá mjer til hv. þm Dala. (B. J.). En mjer finst þvert á móti, að miklu fremur beri að líta á þetta eins og sje það greiðvikni við hann af minni hálfu. Eins og hann veit best sjálfur, þá er þessi bitlingur, á hverju þingi, látinn með svo miklum eftirtölum að góðverk verður að telja að losa hv. þm. við hvorttveggja og píslarvættið um leið, og svo góðs ann jeg þessum vini mínum, að hvorttveggja vildi jeg losa hann við. Ef mig minnir rjett, þá er nú búið að veita þennan styrk í 5 ár, eða alls 6000 kr., sem jeg held að sje sæmileg borgun fyrir útleggingu þá sem búin er. Eftir er að vísu útgáfukostnaður, en ekki tel jeg úr vegi að hlaupa undir bagga með hann þegar handritið kemur eða er orðið sýnilegt.

Hins vegar verð jeg að lýsa yfir þeirri skoðun minni að jeg tel ekki Faust það guðspjall, sem vjer eigum að kasta til stórupphæðum. Hann er ekki það fremri ýmsum öðrum skáldritum merkra höfunda, sem bíða betri tíma eftir útleggingu. Auk þess er fjöldi Íslendinga svo bókfær, að geta kynt sjer þetta verk á hinum skandinavísku málunum.

Af því að annar hv. þm. hefir komið fram með samskonar till. og þessa, maður sem á hugmyndina um að fella þetta ófjeti út af fjárlögunum, mun jeg eftirláta honum að bjástra betur við brtt. og bera hana fram til sigurs; þess vegna tek jeg mína till. aftur og verður hans till. þá borin undir atkv.